Skóli, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttaaðstaða í Úlfarsárdal

Umhverfi Skóli og frístund

""

Nýr skóli, menningarmiðstöð, sundlaug og íþróttaaðstaða í Úlfarsárdal er viðfangsefni opinnar hönnunarsamkeppni sem Reykjavíkurborg efnir til í samvinnu við Arkitektafélag Íslands.  

Samkeppnin á að fá fram áhugaverðar og vandaðar tillögur að uppbyggingu samþætts leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf;  menningarmiðstöð og almenningsbókasafn;  kennslu- og almenningssundlaug og íþróttahús Fram í Úlfarsárdal, auk íbúðabyggðar. 

Verði hjarta borgarhlutans

Aðstaðan mun ekki aðeins þjóna íbúum Úlfarsárdals heldur einnig íbúum í Grafarholti, Reynisvatnsási og öllum almenningi.  Mannvirkin eiga að verða hjarta borgarhlutans, eins og meðal annars segir keppnislýsingu um meginmarkmið samkeppninnar, en þau eru:

  • að leggja áherslu á umhverfisleg og samfélagsleg gæði mannvirkjanna í viðkvæmu umhverfi dalsins;
  • að fá fram vel rökstuddar tillögur að nánari staðsetningu mannvirkja á skilgreindu keppnissvæði í Úlfarsárdal;
  • að fá fram áhugaverðar og vandaðar tillögur að uppbyggingu samþætts leik- og grunnskóla með aðstöðu fyrir frístunda og félagsstarf og menningar- og íþróttamiðstöð í borgarhlutanum, sem þjónar sem best íbúum Úlfarsárdals, Grafarholts og öllum almenningi, en leik- og grunnskólinn þjónar aðeins íbúum Úlfarsárdals;
  • að mannvirkin falli vel að og styrki næsta umhverfi og verði hjarta borgarhlutans;
  • að stuðla að góðu samspili almenningsrýma, bygginga og nærumhverfis;
  • að ná fram verulegri hagræðingu í rekstri mannvirkjanna til framtíðar með samlegð og samnýtingu;
  • að huga vel að kostnaði er varðar viðhaldsþörf byggingarhluta með vistvænni nálgun.

Staðsetning mannvirkja er hluti af samkeppninni

Samkeppnin á sér nokkurn aðdraganda. Starfshópur, sem borgarstjóri skipaði eftir tilnefningar frá íbúasamtökum Úlfarsárdals og Grafarholts og Knattspyrnufélaginu Fram, komst að þeirri niðurstöðu að halda fyrirhuguðu íþróttahúsi á upprunalegum stað.  „Gervigrasvöllur er í notkun, fullbúinn og framkvæmdir við keppnisvöll eru vel á veg komnar, en ráðgert er að byggja stúku sambyggða íþróttahúsi. Það yrði því mjög kostnaðarsamt að færa þessi mannvirki“, segir í keppnislýsingu. 



Í samkeppninni er gengið út frá framangreindri staðsetningu íþróttahúss sem ófrávíkjanlegu atriði. Að öðru leyti er keppendum frjálst að staðsetja mannvirkin öðru hvoru megin við fyrirhugað íþróttahús og hafa keppendur til umráða svæði, austan og vestan íþróttahúss.  Keppnissvæðið afmarkast af Úlfarsbraut til norðurs og helgunarsvæði Úlfarsár til suðurs, lóð núverandi Dalskóla til vesturs og fyrirhugaðs tengivegar frá Grafarholti til austurs.

Áhersla á samnýtingu rýma

Áætluð heildarstærð mannvirkjanna er um 14.800 fermetrar og er mikil áhersla lögð á samnýtingu rýma í byggingunum. Stærsti hlutinn er leik- og grunnskólinn með aðstöðu fyrir frístunda- og félagsstarf eða rúmlega 6.000 fermetrar. Bókasafn og menningarmiðstöð er áætluð á um 1.300 fermetrum, sundlaug um 1.400 fermetar og íþróttahús Fram um 5.600 fermetrar.



Áhersla er lögð á að Dalskóli tengist umhverfinu og nýti sér nálægð við ána og náttúruna í kring. Skólinn mun samnýta íþróttasal í íþróttahúsi Fram, segir í keppnislýsingu. Þá er fjölnotasalur tengdur menningarmiðstöðinni og er honum ætlað að þjóna grenndarsamfélaginu jafnt sem skólanum og íþróttastarfsemi.  Heppilegt staðsetning bókasafns /menningarmiðstöðvar er talin vera milli skóla og sundlaugar.  Flest öll rými bókasafns eiga að geta samnýst með skóla, frístund og íþróttum.  Þá er talið  spennandi að byggja upp sameiginlega aðstöðu fyrir mötuneyti starfsmanna og kaffihús fyrir almenning.  Þar ætti einnig að vera svigrúm fyrir menningarviðburði.



Umhverfi og náttúru í Úlfarsárdal er getið í keppnislýsingu og hvatt til hugmynda um spennandi leik- og upplifunarrými utandyra.

Bestu hugmyndir um heildarlausn komast áfram

Samkeppnin er tveggja þrepa og á fyrra þrepi verður leitað eftir bestu hugmyndum um heildarlausn og staðsetningu á keppnissvæðinu.  Fimm tillögur verða valdar áfram til frekari úrvinnslu á seinna þrepi samkeppninnar.  



Skilafrestur tillagna til fyrra þreps samkeppninnar er 1. apríl 2014 og vegna seinna þreps er áætlað að dómnefnd ljúki störfum fyrir 1. október 2014.  Gert er ráð fyrr að samið verði við höfund fyrstu verðlaunatillögu um áframhaldandi hönnun á verkefninu til útboðs.



Rétt til þátttöku hafa félagar í Arkitektafélagi Íslands og aðrir þeir, sem hafa leyfi til að leggja aðaluppdrætti fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur. Þeir þátttakendur sem ekki hafa leyfi til að leggja aðaluppdrætti fyrir byggingarnefnd, skulu tryggja sér löggiltan samstarfsaðila.



Keppnislýsingu og nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni  www.hugmyndasamkeppni.is