Eldhúsinu á Vitatorgi lokað tímabundið vegna endurbóta
Framleiðslueldhúsið á Vitatorgi verður stækkað og gert upp frá grunni. Þetta var samþykkt í borgarráði í dag. Ráðast þarf í breytingarnar til að nútímakröfur um húsnæði og starfsemi framleiðslueldhúsa séu uppfylltar. Að framkvæmdum loknum verður eldhúsið þar sem matsalurinn er nú og matsalurinn verður færður á næstu hæð fyrir ofan.
Í framleiðslueldhúsinu á Vitatorgi eru að meðaltali búnar til 930 máltíðir á degi hverjum, annars vegar til heimsendingar og hins vegar til framreiðslu í móttökueldhúsum þjónustuíbúða og félagsmiðstöðva.
Lögð áhersla á að raska sem minnst starfsemi á Vitatorgi
Lögð er áhersla á að framkvæmdirnar raski sem allra minnst daglegu lífi og starfi á Vitatorgi. Þar er mikið líf og blómleg starfsemi önnur en framleiðsla matar. Á Lindargötu 57–66 eru 94 íbúðir, þar af 67 íbúðir í eigu Félagsbústaða sem leigðar eru út sem þjónustuíbúðir fyrir eldra fólk. Í húsinu er félagsstarf af fjölbreyttu tagi ætlað íbúum í húsinu og öðrum íbúum hverfisins, fótaaðgerðastofa og hárgreiðslustofa. Í mötuneytinu er hádegismatur alla daga og þar er jafnframt hægt að kaupa kaffiveitingar á virkum dögum.
Þó verður ekki hægt að bjóða upp á heitan mat í hádeginu á Vitatorgi meðan á framkvæmdum stendur. Þau sem eru vön að borða á Vitatorgi geta mætt í nærliggjandi félagsmiðstöðvar á meðan eða fengið hádegismatinn sendan heim.
Samið við einkaaðila um framleiðslu matar meðan á lokun stendur
Gert er ráð fyrir að eldhúsinu verði lokað í maí 2026. Áætlað er að breytingarferlið geti tekið 12–18 mánuði.
Samið verður við einkaaðila til að sjá um framleiðslu matarins meðan á framkvæmdunum stendur en velferðarsvið mun áfram sjá um allt utanumhald þjónustunnar.