Tvöfaldur sigur hjá Fellaskóla í Skrekk 2025
Fellaskóli sigraði Skrekk með atriðið Þrýstingsbylgja og hlaut jafnframt Skrekkstunguna. Atriðið þeirra fjallaði um pressuna sem fylgir því að reyna að uppfylla væntingar annarra. Í öðru sæti var Árbæjarskóli með atriðið 5:00 sem fjallaði um að það sem við hræðumst þurfi ekki að vera svo hræðilegt. Í þriðja sæti var Langholtsskóli með atriðið Meira en nóg sem fjallaði um yfirtöku mannsins á jörðinni og meðferð hans á dýrum og náttúrunni sem einkennist af græðgi og yfirgangi.
Erfitt val fyrir dómarana
Það var frábær stemning og miklar undirtektir í salnum á 35. úrslitakvöldi Skrekks, hæfileikakeppni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, sem fram fór í gærkvöldi, 10. nóvember, í Borgarleikhúsinu. Atriði kvöldsins voru hvert öðru betra og höfðu dómararnir úr virkilega vöndu að velja. Í ár tóku 25 skólar þátt í Skrekk og 742 unglingar tóku þátt í undanúrslitum. Þeir átta skólar komust í úrslit voru Árbæjarskóli, Breiðholtsskóli, Fellaskóli, Foldaskóli, Hagaskóli, Háteigsskóli, Klettaskóli og Langholtsskóli.
Atriðin að þessu sinni fjölluðu um sjálfsmynd, álag, vonalausa ást, tæknivæðingu, sirkusstjörnur, mikilvægi þess að gefast ekki upp og önnur mál sem brenna á unglingum í dag. Unglingarnir sömdu atriðin og nýta alls kyns sviðslistir í verkin auk þess sem þau sjá um búninga, sviðsmynd, förðun, hár, ljós og hljóð.
Fellaskóli hlaut jafnframt Skrekkstunguna í ár
Bókmenntaborgin og Miðja máls og læsis veita verðlaun fyrir skapandi notkun á íslensku í Skrekk. Verðlaunin heita Skrekkstungan, nafn sem var valið af unglingum 2022. Markmið verðlaunanna er að vekja áhuga unglinga á íslensku sem efnivið sköpunar í sviðslistum.
Í rökstuðningi dómnefndar Skrekkstungunnar segir: „Atriðið sem fær Skrekkstunguna árið 2025 nýtir íslensku á skapandi hátt í söng, tali og einræðu. Atriðið er á vönduðu og fallegu máli, ljóðrænt og seiðandi en líka skýrt og aðgengilegt. Málsnið hvers hluta er viðeigandi fyrir efni hans, tungumálið er óþvingað og slípað og hvert orð þjónar atriðinu. Flytjendur nota tungumálið í eigin þágu og er titillinn þar engin undantekning.“
Skrekkur er ristastórt samstarfsverkefni grunnskóla og félagsmiðstöðva Reykjavíkur, Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, RÚV og Borgarleikhússins.
Ljósmyndir tók Anton Bjarni.
Öll atriðin má sjá á vef UngRUV.is
- Frétt og myndir frá þriðja undanúrslitakvöldi Skrekks
- Frétt og myndir frá öðru undanúrslitakvöldi Skrekks
- Frétt og myndir frá fyrsta undanúrslitakvöldi Skrekks
- Meira um Skrekk
Í dómnefnd Skrekks voru:
- Styrmir Steinn Sigmundsson, fulltrúi ungmennaráðs Samfés.
- Andrean Sigurgeirsson, dansari og danshöfundur hjá Íslenska dansflokknum.
- Elísabet Indra Ragnarsdóttur, verkefnastjóri dagskrárgerðar í Hörpu.
- Mikael Emil Kaaber, leikari hjá Borgarleikhúsinu.
- Kristinn Óli S. Haraldsson, leikari og tónlistarmaður og fulltrúi Þjóðleikhússins.