Breiðholtsskóli og Hagaskóli áfram í úrslit Skrekks
Fyrsta undanúrslitakvöld Skrekks 2025 fór fram í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi, 3. nóvember. 230 ungmenni í Reykjavík tóku þátt í uppfærslu kvöldsins á frumsömdum sviðsverkum og sýndu margvíslega hæfileika á sviðinu.
Tölvuleikir og falsfréttir meðal viðfangsefna
Í úrslit komust Breiðholtsskóli með atriðið Lygaríkið sem fjallar um glímuna við að festast í tölvuleik og Hagaskóli með atriðið Syngið nú með okkur sem fjallar um hvernig áróður og falsfréttir geta haft áhrif á unglinga og ungmenni. Átta grunnskólar tóku þátt í þessu fyrsta undanúrslitakvöldi en auk Breiðholtsskóla og Hagaskóla voru það Austurbæjarskóli, Álftamýrarskóli, Hólabrekkuskóli, Ingunnarskóli, Seljaskóli og Sæmundarskóli.
Í heildina eru 742 nemendur frá 25 skólum sem taka þátt í Skrekk í ár. Öll atriðin má sjá á vef UngRUV.is. Forsíðumyndin er af atriði Breiðholtsskóla.
Myndirnar tók Anton Bjarni.