Klettaskóli og Langholtsskóli áfram í úrslit Skrekks

Atriði Klettaskóla í Skrekk 2025.

Þriðja og síðasta undanúrslitakvöld Skrekks 2025 fór fram í Borgarleikhúsinu í gærkvöldi, þann 5. nóvember. 248 ungmenni tóku þátt í atriðum kvöldsins þar sem þau sýndu frumsamin sviðsverk og fjölbreyttir hæfileikar þeirra komu fram.

Sirkus og yfirtaka mannsins á jörðinni

Í úrslit komust Klettaskóli með atriðið Sirkus stjörnur sem fjallar um sirkus með sirkusstjóra sem segir brandara og kynnir hin ýmsu atriði. Langholtsskóli komst áfram með atriðið Meira en nóg sem fjallar um yfirtöku mannsins á jörðinni og meðferð hans á dýrum og náttúrunni sem einkennist af græðgi og yfirgangi. Í dag var svo tilkynnt að tveir skólar hefðu verið valdir áfram til viðbótar viðbótar við þá sex sem þegar voru komnir í úrslit, það eru Háteigssskóli og Foldaskóli.

Atriði Langholtsskóla í Skrekk 2025.
Mynd af atriði Langholtsskóla.

Átta grunnskólar tóku þátt en það voru Dalskóli, Foldaskóli, Háteigsskóli, Klettaskóli, Langholtsskóli, Norðlingaskóli, Réttarholtsskóli og Rimaskóli.

Háteigssskóli og Foldaskóli áfram sem „wild card“

Atriði Háteigsskóla heitir Óheillaspor og fjallar um ungan dreng sem ákveður að prófa eiturlyf í partýi. Fljótlega verður hann háður og vinir hans reyna að hjálpa honum að komast út úr vítahringnum. Verkið sýnir hvernig ein ákvörðun getur breytt öllu.

Atriði Háteigsskóla í Skrekk 2025.
Mynd af atriði Háteigsskóla.

Atriði Foldaskóla heitir Ég er….. og fjallar um tvo bestu vini þar sem vinkonan kemur út sem trans strákur. Vinurinn á erfitt með breytinguna í byrjun, en með sjálfskoðun fer hann að átta sig á því að það er allt í lagi og ekkert óvenjulegt við hinseginleika.

Atriði Foldaskóla í Skrekk 2025.
Mynd af atriði Foldaskóla.

Í heildina eru 742 þátttakendur í Skrekk í ár. Öll atriðin má sjá á vef UngRUV.is. 

Forsíðumyndin er af atriði Klettaskóla.

Myndirnar tók Anton Bjarni.