Frammistöðukvíði
Það er mjög eðlilegt að upplifa einhverskonar kvíða eða stress í kringum kynlíf. Margir unglingar í grunnskólum halda að flestir byrji að stunda kynlíf með öðru fólki áður en grunnskóla lýkur. Þetta er þó ekki svona einfalt, kynlíf er allskonar og það er miklu meira heldur en bara samfarir.
En ef horft er á samfarir þá hafa um 75% unglinga í 10. bekk á Íslandi aldrei stundað samfarir. Það er algengast að ungt fólk „sofi hjá“ í fyrsta sinn þegar það er komið í framhaldsskóla.
Mörg hafa samt upplifað einhverjar kynferðislegar athafnir, ýmist með sjálfu sér eða öðrum einstaklingi t.d. með því að stunda sjálfsfróun, fara í sleik, strjúka brjóst, fróa, kyssa, sleikja eða sjúga kynfæri hins aðilans. Það er misjafnt á milli fólks hvað það langar að gera, hvað þau treysta sér til og með hverjum.
HVER OG EIN MANNESKJA VERÐUR AÐ ÁKVEÐA HVAÐ HÚN VILL OG VILL EKKI GERA
Þegar kemur að því að gera eitthvað kynferðislegt með annarri manneskju þá er gott að vera búin að hugsa fyrst hvað manni langar að gera, hvað manni þykir spennandi og hversu langt maður er tilbúinn til að ganga. Mörg upplifa smá stress áður en kemur að kynferðislegu reynslunni með öðrum. Mörg hafa áhyggjur af því að gera eitthvað vitlaust og það er eðlilegt. En hafið í huga:
- Það sem mestu máli skiptir er að þú sért að gera það sem þig langar að gera og þú ert alveg viss um að hin manneskjan vilji það sama. Þess vegna verðið þið að tala saman.
- Það er allt í lagi að segja „Ég veit ekki alveg hvað ég er að gera“ Eða „Ég er pínu stressuð/að/aður“
- Til þess að vita nákvæmlega hvað á að gera þá er best að spyrja og hlusta á svarið og segja til baka hvað þú vilt. T.d.
- Finnst þér betra þegar við erum bara í sleik, eða finnst þér gott að nota smá tungu og smá kossa án tungu?
- Má ég setja hendina undir nærbuxurnar þínar? Viltu að ég frói þér?
- Finnst þér gott þegar ég kyssi geirvörturnar þínar? Er betra ef ég geri eitthvað annað?
- Mér finnst mjög gott þegar þú gerir aðeins hægar
- Ekki bera þig saman við það sem þú hefur séð í klámi eða á netinu, það er óraunverulegt og ýkt.
- Sum hafa áhyggjur af því að kynfærin líti ekki rétt út, að þau kunni ekki réttu aðferðirnar eða stellingarnar eða hvað á að gera. Reynið að anda bara rólega og njóta þess sem þið eruð að gera, það er engin handbók sem segir hvað er rétt og rangt í kynlífi.
- Kynfærin ykkar eru fín alveg eins og þau eru, kynfæri líta allskonar út og þau geta öll notið kynlífs á einhvern hátt
- Þið þurfið ekki að kunna stellingar eða aðferðir. Prófið ykkur bara áfram og verið dugleg að spyrja og segja hvort öðru til. Þið munið finna út úr þessu, engar áhyggjur. Það er enginn meistari í kynlífi í fyrsta sinn (ekki heldur í 10 sinn)
- Ef þið verið mjög stressuð þá skulið þið bara stoppa og reyna aftur síðar. Það má stoppa hvenær sem er.
Mörg óttast að það verði talað um að þau hafi ekki staðið sig nógu vel, eða að þau hafi gert eða sagt eitthvað vitlaust. Það er mjög lélega gert að tala illa um bólfélaga sinn. Leggið ykkur fram um að bera alltaf virðingu fyrir því fólki sem þið stundið einhverskonar kynlíf með og gerið líka þá kröfu til baka. Kynlíf er allskonar, fólk passar misvel saman kynferðislega og það er bara allt í góðu lagi. Það má gera mistök í kynlífi, það má vera klaufalegt og fyndið. En kynlíf á ALDREI að vera meiðandi eða niðurlægjandi!
Andið rólega, þetta verður allt í góðu