Höfðinn

Nýr borgarhluti í mótun.

Ártúnshöfði, Elliðaárvogur er stærsta þróunar- og uppbyggingarsvæði Reykjavíkur. Áætlað er að í þessum nýja borgarhluta rísi allt að 8000 íbúðir og að þar búi allt að 20.000 borgarbúar.

Uppbygging

Á fyrstu uppbyggingarsvæðunum er gert ráð fyrir 3500 íbúðum, tveimur grunnskólum og einum safnskóla í bland við blómlega þjónustu- og  atvinnustarfsemi við Krossmýrartorg. Hryggjarstykki uppbyggingarinnar er meðfram fyrirhugaðri Borgarlínu sem liggur í gegnum mitt skipulagssvæðið. 

Grænar áherslur

Staðsetning svæðisins er einstök. Nálægð við strandlengjuna og útivistarsvæði Elliðaárdals skapar svæðinu mikla sérstöðu í borginni. Elliðaárvogur er einn veðursælasti staðurinn í Reykjavík en þar gætir ekki norðanstrengs og Ártúnshöfðinn skýlir fyrir suðaustanátt. Miðlæg lega þess á höfuðborgarsvæðinu og nálægð við stofnæðar eru forsendur fyrir þéttbyggðu borgarhverfi sem styður við breyttar áherslur í samgöngumálum með Borgarlínu.

Leiðarljós allrar skipulagsvinnu er að styðja við markmið borgarinnar í loftslagsmálum sem stuðla að sjálfbærri þróun borgarumhverfisins. 

 

Kynning á skipulagstillögum

Gott borgarumhverfi tekur mið af daglegum athöfnum og þörfum borgarbúa. Því er mikilvægt er að heyra raddir mögulegra íbúa svæðisins sem og annarra borgarbúa áður en lokahönd er lögð á skipulagsáætlanirnar. 

Grænt og fallegt umhverfi

Borgarhlutinn byggist upp í takt við megináherslur Græna plansins sem er víðtæk áætlun um fjárfestingu, framkvæmdir og atvinnusköpun í Reykjavík.  Elliðaárvogur, Ártúnshöfði er umhverfisvæn byggð í góðum tengslum við hágæða almenningssamgöngur þar sem áhersla er lögð á gangandi vegfarendur, hjólreiðar og rafskútur. Frábær þjónusta við íbúa borgarhlutans er sett á oddinn.

Uppbyggingin miðar að því að á svæðinu verði fjölbreytt framboð íbúða fyrir alla. Ofuráhersla er lögð á grænt og fallegt umhverfi. Stefnt er að því að hverfi borgarhlutans fari í gegnum umhverfisvottunarferli og að borgarhlutinn verði sá fyrsti sem fái  sérstaka Umhverfisvottun samkvæmt aljóðlegum stuðlum.

Með tilkomu Borgarlínu mun Ártúnshöfði verða beintengdur miðborginni  og tengja saman  menningar og mannlífsflóru austur- og vesturhluta borgarinnar.

Til verður þétt umhverfisvæn byggð í góðum tengslum við hágæða almenningssamgöngur.

 

Þráinn Hauksson

Rammaskipulagshöfundur segir frá vinnunni við skipulagið. 

Breyttir tímar kalla á breytta notkun

Hugmyndir um þróun Ártúnshöfða og Elliðaárvogs hafa lengi verið á dagskrá. Árið 2015 var haldin hugmyndasamkeppni um þróun svæðisins og í framhaldi var unnið rammaskipulag sem var samþykkt í ársbyrjun 2016. Frá þeim tíma hefur verið unnið að deiliskipulagi einstakra hluta svæðisins og hefur t.d. skipulag fyrir stækkun Bryggjuhverfis til vesturs þegar verið samþykkt. 

Síðustu áratugi hefur plássfrek iðnaðarstarfsemi einkennt stóran hluta svæðisins. Gróf iðnaðarstarfsemi mun víkja af svæðinu en gert er ráð fyrir að léttari iðnaðarstarfsemi sunnar á svæðinu haldi sér um sinn. Fyrirhuguð uppbygging muni styðja við núverandi starfsemi á nærliggjandi svæðum. Til verður öflugur borgarkjarni við Elliðaárvog Ártúnshöfða sem mun styrkja öll hverfi í austurhluta borgarinnar.

Fjöldi íbúða og umhverfisvottun

Á svæðum 1 og 2 er gert ráð fyrir allt að 3.500 íbúðum í bland við atvinnustarfsemi og blómlegt borgarlíf. Tillögurnar hafa verið unnar í samræmi við áherslur aðalskipulags og taka mið af nútímalegum áherslum í borgarþróun og skipulagi. Skipulagsáætlanir þessara svæða verða umhverfisvottaðar af fagaðilum.

Hafa samband

Verkefnið heyrir undir embætti skipulagsfulltrúa á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.