Byggingarleyfi - leiðbeiningar

Teikning af húsum, bílum og hjóli.

Ert þú að sækja um byggingarleyfi? Hér finnur þú leiðbeiningar og hagnýtar upplýsingar fyrir umsóknarferlið, skref fyrir skref. Umsóknin sjálf fer fram í gegnum umsóknargátt HMS.

Undirbúningur

Sótt er um byggingarleyfi á Mínum síðum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS).

Áður en þú byrjar skaltu hafa eftirfarandi við höndina:

  • Upplýsingar um verkið.
  • Upplýsingar um hönnunarstjóra og aðalhönnuð (nafn, kennitala og netfang).
  • Upplýsingar um greiðanda/eigenda (nafn, kennitala og netfang).
  • Aðaluppdrætti og viðeigandi fylgigögn.

Innskráning

  • Farðu á hms.is
  • Veldu Mínar síður efst hægra megin á síðunni.
  • Veldu Öryggi mannvirkja úr fellilistanum.
  • Skráðu þig inn með rafrænum skilríkjum.
  • Smelltu á Byggingarleyfi á upphafssíðu. Þú getur líka fundið umsókn um byggingarleyfi undir flipanum Umsóknir.

Upplýsingar um fasteign

  • Veldu þá fasteign sem þú vilt sækja um byggingarleyfi fyrir.
  • Ef umsækjandi er ekki skráður umráðamaður fasteignar þarf að haka í reitinn „Ég er ekki skráður eigandi að fasteigninni" og leita í fasteignaskrá.
  • Veljið nákvæma fasteign þegar umsóknin er stofnuð. Ef um er að ræða stærra verk er mikilvægt að landeignarnúmerið sé rétt og að verkinu sé lýst nánar í Lýsing umsóknar.
  • Veljið tegund byggingar, undirtegund, framkvæmd og aðal byggingarefni.

Lýsing umsóknar

Í lýsingu umsóknar þarf eftirfarandi að koma fram:

  • Hvað er verið að sækja um?
  • Er þetta stofnerindi eða breytingarerindi?
  • Kennitala og netfang greiðanda allra gjalda umsóknar
  • Kennitala og netfang eiganda
  • Hvort skráning á húsnæði sé rétt (í gáttinni er bara hægt að velja nákvæma eign svo taka þarf sérstaklega fram ef um stærri hluta er að ræða)

Stofna umsókn

Smelltu á Stofna umsókn þegar allt er útfyllt. Þetta sendir ekki umsóknina til byggingarfulltrúa heldur vistar hana undir flipanum Byggingarleyfi. Athugið að ekki er hægt að eyða stofnaðri umsókn.

Sá sem stofnar umsóknina er sjálfkrafa skráður sem umsóknaraðili. Ekki er hægt að velja annan umsóknaraðila eða greiðanda sem hlutverk.

Tengdir aðilar

Næst þarf að skrá aðalhönnuð og hönnunarstjóra á umsóknina.

Það er gert með því að smella á bláa plúsinn hjá „Tengdir aðilar".

Á þessu stigi eru ekki fleiri aðilar skráðir.

Hægt er að breyta netfangi þegar nýr tengdur aðili er skráður.

Þegar tengdur aðili er skráður á umsókn hefur viðkomandi aðgang að umsókninni.

Fylgigögn

Öll fylgigögn sem fylgja umsókn þarf að vista undir „fylgigögn".

Fylgigögn eru teikningar, eyðublöð, samþykki, greinargerðir og fleira.

Það er ekki nauðsynlegt að vista skjöl undir ákveðnum lið í gátlistanum þar sem öll skjölin vistast öll á sama stað.

Mikilvægt að muna

  • Hámarksstærð skjala er 20MB.
  • Veljið lýsandi heiti á skjalið.
  • Hugið að gæðum og upplausn skjala.
  • Eftir að skjöl eru vistuð er ekki hægt að eyða þeim úr umsókninni.
  • Góð regla er að hver tegund uppdrátta sé saman í PDF skrá merkt: Útgáfa 1, Útgáfa 2, ...
  • Ef skráin er meira en 20MB er gott að reyna að þjappa skránni saman eða skipta henni upp eftir viðfangsefni (snið í einni skrá, útlit í annarri og svo framvegis)
  • Ef breyta á einum aðaluppdrætti er öllum aðaluppdráttum hlaðið upp í einni skrá með nýju útgáfunúmeri.
  • Það þarf ekki að skila undirrituðum aðaluppdráttum á þessu stigi. Rafræn innsiglun fer fram eftir samþykki á afgreiðslufundi.
  • Ef við á þarf brunastimpill að vera til staðar.
  • Þegar teikningum er skipt út eftir frestun á máli þarf að skila öllum teikningapakkanum ásamt teikningaskrá þar sem teikninganúmer, dagsetning og breytingarsaga koma fram. Útskiptum gögnum er skilað inn á sama hátt.
  • Séruppdráttum er einnig skilað inn á sama hátt en undirritun hönnunarstjóra og hönnuða þarf þá að vera til staðar. Undirritun getur verið rafrænn stimpill eða vatnsmerki.
  • Þegar valið er að skila séruppdráttum birtist gluggi með undirtegund. Mikilvægt er að velja hvaða undirtegund er verið að skila inn.

Fylgigögn berast byggingarfulltrúa daginn eftir rafræn skil.

Gátlisti

Gátlisti er fyrst og fremst fyrir umsækjanda að átta sig á hvort öllu hefur verið skilað inn. Þessi gögn flytjast ekki sjálfkrafa til Reykjavíkurborgar.

Lokaskref

Smelltu á Senda til byggingarfulltrúa.

Stundum þarf að endurhlaða síðunni. Gögn eru ekki týnd ef það er gert. Strax þegar búið er að stofna umsókn er hún vistuð og alltaf aðgengileg í flipanum Byggingarleyfi.

Umsækjandi fær senda staðfestingu frá Byggingarfulltrúa í Reykjavík þegar umsókn er móttekin. Þar kemur fram ef frekari upplýsingar eða gögn vantar. Málið er tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa þegar öll viðeigandi gögn hafa borist og yfirferð verkefnastjóra er lokið.