Beiðni um endurupptöku á stöðvunarbrotagjaldi

Teikning af tveimur konum að skrifa á blað.

Heimilt er að óska eftir endurupptöku ákvörðunar um álagningu stöðvunarbrotagjalds innan 28 daga frá dagsetningu álagningar. Almennur afgreiðslutími er 2-4 vikur.

Verklag vegna endurupptöku

1. gr.

Heimilt er að óska eftir endurupptöku ákvörðunar um álagningu stöðvunarbrotagjalds innan 28 daga frá dagsetningu álagningar. Almennur afgreiðslutími er 2-4 vikur.

2. gr.

Þegar aðili máls er annar en skráður eigandi/umráðamaður bifreiðar einfaldar það afgreiðslu að nafn, kennitala, heimilisfang, símanúmer og tölvupóstfang liggi fyrir. Sé aðili máls eigandi/umráðamaður ökutækis einfaldar það afgreiðslu að símanúmer og tölvupóstfang liggi fyrir.

3. gr.

Mikilvægt er að með ósk um endurupptöku ákvörðunar fylgi þau gögn sem aðili máls hefur undir höndum sem geta styrkt málstað hans, s.s. afrit af keyptum tímamiða eða kvittun vegna viðgerðar/dráttarbifreiðar. Hægt er að skila inn gögnum vegna málsins með beiðni um endurupptöku, á netfang bilastaedasjodur@reykjavik.is eða með almennum pósti innan 7 daga. Eftir það fer málið í vinnsluferli. Ekki er þörf á að skila inn afriti af brotalýsingu (álagningarseðli).

4. gr.

Bílastæðasjóður getur aflað staðfestingar á þeim upplýsingum sem koma fram í ósk um endurupptöku ákvörðunar. Upplýsingar geta m.a. verið sóttar í þjóðskrá, símastæðaþjónustu, ökutækjaskrá og borgarvefsjá allt eftir eðli máls hverju sinni.

5. gr.

Bílastæðasjóður getur aflað upplýsinga hjá sýslumönnum vegna útgáfu og gildistíma stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða. Mikilvægt er að nafn og kennitala handhafa stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða liggi fyrir sé það annar en skráður eigandi/umráðamaður bifreiðar.

6. gr.

Bílastæðasjóður leitar eftir umsögn álagningaraðila og nýtir ljósmyndir af vettvangi við endurupptöku ákvörðunar um álagningu.

7. gr.

Þegar óskað er endurupptöku ákvörðunar um álagningu stöðvunarbrotagjalds sem lögreglan hefur lagt á ökutæki verður erindið áframsent Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu til afgreiðslu.

8. gr.

Þegar ósk um endurupptöku hefur borist tekur álagningin áfram lögbundnum hækkunum skv. umferðarlögum á meðan þau eru í vinnslu. Við afgreiðslu máls fellur gjaldið niður sé erindið samþykkt en sé erindinu hafnað fer gjaldið aftur í þá upphæð sem það stóð í þegar ósk um endurupptöku barst að því undanskyldu að staðgreiðsluafsláttur er einungis veittur ef greitt er innan þriggja virkra daga frá álagningu gjaldsins. Aðilum er bent á að þeir eiga þess kost að greiða gjaldið þrátt fyrir ósk um endurupptöku og fá það endurgreitt ef fallist er á beiðni þeirra um niðurfellingu gjaldsins.

9. gr. Stöðvunarbrotagjöld við Landspítala

Þegar óskað er endurupptöku ákvörðunar stöðvunarbrotagjalda við Landspítala er aðila máls bent á að senda tölvupóst á staedi@landspitali.is og óska eftir að staðfesting á bráðatilfelli sé send til Bílastæðasjóðs.

Ósk um rökstuðning

Heimilt er að óska eftir rökstuðningi fyrir álagningu, innan 14 daga frá dagsetningu álagningar.

Senda þarf póst á upplysingar@reykjavik.is þar sem kemur fram bílnúmer og númer álagningar og í efnislínu komi fram að óskað sé eftir rökstuðningi.