Þjónusta sem skiptir máli
Ársskýrsla þjónustu- og nýsköpunarsviðs 2024
Samstarf
Á árinu 2024 tók þjónustu- og nýsköpunarsvið virkan þátt í mótun og þróun samstarfs um stafræna umbreytingu opinberrar þjónustu á vettvangi Jónsmessunefndar. Nefndin starfar sem samráðsvettvangur milli ríkis og sveitarfélaga og hefur það að markmiði að auka traust og formfestu í samskiptum þessara aðila, bæta stjórnsýslu hins opinbera og efla gagnkvæman skilning á viðfangsefnum og þörfum hvors fyrir sig.
Samvinna í stafrænum umbótum
Jónsmessunefndin hefur skipað samráðshóp til að þróa framtíðarsýn og útfæra tillögur að skilvirku samstarfi ríkis og sveitarfélaga um stafræna þjónustu. Reykjavík hefur átt þar virkan þátt sem stærsta sveitarfélag landsins og er mikilvægur hlekkur í þróun og innleiðingu nýsköpunarlausna í þágu almennings.
Samstarfið miðar að því að:
- Sameina krafta við þróun stafrænna innviða fyrir opinbera þjónustu.
- Hámarka hagræði með samnýtingu lausna.
- Einfalda aðgengi almennings að þjónustu, óháð stjórnsýslustigi.
Hlutverk Reykjavíkur
Reykjavík mun áfram gegna leiðandi hlutverki í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga og styðja við uppbyggingu sameiginlegrar opinberrar þjónustu sem nýtist öllum íbúum landsins.
Með þátttöku í þessu samstarfi er stutt við:
- Sameiginlega stafræna vegferð sveitarfélaga og ríkis.
- Einföldun og skilvirkni í stjórnsýslu með auknu aðgengi og notendamiðaðri þjónustu.
- Öflugan samráðsvettvang sem byggir á gagnkvæmu trausti og markvissri samvinnu.
Nýsköpunardagur hins opinbera
Reykjavík tók þátt í Nýsköpunardegi hins opinbera 2024, sem haldinn var 15. maí. Birgir Lúðvíksson, stafrænn leiðtogi, fór yfir hvernig Reykjavík nýtir Power Automate í hinum ýmsu verkefnum, stórum sem smáum ásamt því að fjalla um og veita þátttakendum innsýn í tæknihögun og flæði ferils vel valinna verkefna.
Seoul Smart City Prize
Árið 2024 hlaut Reykjavík gullverðlaun í flokknum Tech-InnovaCity á alþjóðlegu verðlaunahátíðinni Seoul Smart City Prize fyrir verkefnið Betri borg fyrir börn. Verðlaunin voru veitt fyrir frumlega og áhrifaríka stafræna umbreytingu sem hefur skilað betri og skilvirkari þjónustu fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra í skóla- og frístundastarfi.
Betri borg fyrir börn
Verkefnið Betri borg fyrir börn snýst um bætta þjónustu. Að færa þjónustuna í auknum mæli í skólaumhverfi barna og ungmenna, veita viðeigandi stuðning sem fyrst og þétta samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs í þjónustumiðstöðvum hverfanna.
Þjónustan undir formerkjum Betri borg fyrir börn er þegar komin í notkun og allar umsóknir fara nú fram í gegnum stafrænt ferli á reykjavik.is. Stafrænar lausnir verkefnisins eru í stöðugri þróun og einn af lykilþáttum þess, stafræn persónumappa barns, verður innleidd í fyrstu skólum borgarinnar í janúar 2025.
Þjónusta sem skiptir máli
Í rökstuðningi dómnefndar vegna Smart City-verðlaunanna kom fram að þjónustubreyting með nýju kerfi hafi einfaldað umsóknarferli, tryggt öruggt flæði upplýsinga og bætt samskipti milli foreldra, kennara og sérfræðinga. Pappírsumsóknum hefur verið skipt út fyrir stafrænar lausnir, auk þess sem lausnateymi vinna nú með snemmtæka íhlutun á vettvangi barnsins. Þetta hefur í heild sinni leitt til skilvirkari og betri þjónustu.
Reykjavík í fremstu röð
Verðlaunin voru veitt á hátíðlegri athöfn í Seoul í október 2024, þar sem Alexandra Briem, borgarfulltrúi og formaður stafræns ráðs Reykjavíkur, veitti þeim móttöku. Viðurkenningin undirstrikar leiðandi stöðu Reykjavíkur í stafrænni umbreytingu opinberrar þjónustu og sýnir fram á hvernig nýsköpun og tækninýting geta stuðlað að bættri velferð barna og fjölskyldna í borginni.
Smart City World Expo og Cities Coalition for Digital Rights
Fulltrúum þjónustu- og nýsköpunarsviðs auk Alexöndru Briem, formanns stafræns ráðs, var boðið á Smart City World Expo í Barcelona í nóvember 2024. Þetta er stærsta alþjóðlega ráðstefnan um snjallborgir og stafræna nýsköpun í borgarumhverfi, með yfir 25.000 gesti frá 850 borgum og 130 löndum.
Alexandra var meðal ræðumanna á viðburði CC4DR „Digital Rights In Our Cities: From Challenges To Solutions“ á Smart City Expo World Congress í Barcelona, þar sem hún deildi reynslu Reykjavíkur af því að efla stafræna þjónustu með áherslu á gegnsæi, aðgengi og réttindi íbúa.
Alþjóðlegt tengslanet
Þátttaka Reykjavíkur á SCEWC 2024 styrkti tengsl borgarinnar við alþjóðlegt net snjallborga og nýsköpunarverkefna. Hún skapaði tækifæri til að miðla reynslu, læra af öðrum og efla samstarf við borgir sem deila svipuðum markmiðum um stafræna umbreytingu og sjálfbæra þróun. Þessi þátttaka undirstrikar skuldbindingu Reykjavíkur til að vera í fararbroddi í stafrænni nýsköpun og bæta þjónustu við íbúa með því að nýta tækni og gagnadrifna nálgun.
Gagnadrifin borg
Inga Rós Gunnarsdóttir, gagnastjóri Reykjavíkur, hélt einnig erindi á Smart City Expo World Congress 2024 í Barcelona. Hún tók þátt í umræðufundi sem bar yfirskriftina „Urban Digital Twins: What is at Stake for European Cities?“ Í umræðunni ræddu fulltrúar frá ýmsum borgum um möguleika og áskoranir við notkun stafrænnar tvíburatækni (e. digital twins) í evrópskum borgum. Inga Rós deildi reynslu Reykjavíkur og lagði áherslu á mikilvægi gagnadrifinnar nálgunar og samvinnu milli sviða til að nýta tæknina á áhrifaríkan hátt.