Heimahjúkrun

Heimahjúkrun er fyrir fólk á öllum aldri sem býr heima hjá sér og þarfnast reglulegrar heilbrigðisþjónustu. Hún felur í sér heimsóknir hjúkrunarfræðinga eða sjúkraliða og er veitt í náinni samvinnu við notendur og aðstandendur.

Hvernig sæki ég um heimahjúkrun?

Fyrsta skrefið er að leita til heilbrigðisstarfsfólks, til dæmis lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum eða sjúkrahúsum. Það leggur mat á þörf fyrir heimahjúkrun og sendir beiðni um þjónustuna til Reykjavíkurborgar. Heimahjúkrun hefst venjulega tveimur til þremur virkum dögum eftir að beiðni er móttekin.

Hvað gerist næst?

Í upphafi heimahjúkrunar kemur hjúkrunarfræðingur í heimsókn og leggur frekara mat á hversu mikla þjónustu þú þarft. Það er gert í samráði við þig og aðstandendur þína eftir atvikum.

Hvað kostar heimahjúkrun?

Heimahjúkrun er þér að kostnaðarlausu.

SELMA - vitjanir og símaráðgjöf

SELMA er teymi hjúkrunarfræðinga og lækna sem hefur það markmið að efla heilbrigðisþjónustu við fólk sem notar heimahjúkrun og verður fyrir skyndilegum veikindum eða versnun á heilsufari. Tilgangurinn er að forða fólki frá innlögn á bráðamóttöku vegna veikinda sem hægt er að meðhöndla heima fyrir.

Samþætt heimaþjónusta

Með samþættri heimaþjónustu (heimastuðningi og heimahjúkrun) er veitt einstaklingsmiðuð þjónusta. Markmiðið er að gera fólki kleift að búa heima eins lengi og það óskar, þrátt fyrir veikindi eða færniskerðingu.

Hvar fæ ég frekari upplýsingar?

Þú getur hringt í 411 9600 eða sent póst á netfangið heima@reykjavik.is.