Fasteignagjöld

Fasteignagjöld eru árlega lögð á allar fasteignir, nema þær séu undanþegnar með lögum, og ber eigandi á hverjum tíma ábyrgð á greiðslu þeirra. Fasteign telst afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt.

Almennt um fasteignagjöld

Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, sorphirðugjald og gjald vegna endurvinnslustöðva. Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar annast álagningu, reikningagerð og innheimtu gjaldanna.

 

Fram til ársins 2010 voru vatns- og fráveitugjöld innheimt sem hluti af fasteignagjöldum en Veitur sjá nú alfarið um álagningu og innheimtu þeirra.

Útreikningur fasteignagjalda

  Íbúðarhúsnæði Atvinnuhúsnæði
Fasteignaskattur 0,18% af fasteignamati húss og lóðar 1,60% af fasteignamati húss og lóðar
Lóðarleiga 0,20% af lóðarmati 1,00% af lóðarmati

Upplýsingar

Fjármála- og áhættustýringarsvið Reykjavíkurborgar veitir upplýsingar um álagningu fasteignagjalda og breytingar á þeim í síma 411 1111. Einfaldar fyrirspurnir má senda á fasteignagjold@reykjavik.is. Einnig er hægt að senda inn erindi vegna fasteignagjalda

Vakin er athygli á því að eigendur geta nálgast álagningarseðla á Mínum síðum Reykjavíkurborgar eða á Ísland.is. Álagningar- og breytingarseðlar eru ekki sendir í pósti í samræmi við breytingu sem gerð var á lögum nr. 4/1995 og tók gildi 1. janúar 2019, en þá er sveitarstjórn heimilt að senda tilkynningu um álagningu fasteignaskatts rafrænt.

Álagning fasteignaskatts

Álagning fasteignaskatts er framkvæmd samkvæmt II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Sveitarfélögum er skylt að leggja á fasteignaskatt á allar fasteignir sem metnar eru í fasteignamati 31. desember á næstliðnu ári samkvæmt fasteignaskrá. Fasteignaskattur leggst á nýjar lóðir og mannvirki í hlutfalli við ársálagningu frá næstu mánaðamótum eftir að þau eru skráð og metin í fasteignaskrá, nema þær séu sérstaklega undanþegnar fasteignaskatti með lögum. Fasteignaskattur fellur niður næstu mánaðamót eftir að mannvirki er afskráð í fasteignaskrá.

Gjaldstofn til álagningar fasteignaskatts er fasteignamat. Fasteignaskattur reiknast sem hlutfall af fasteignamati miðað við skráða notkun fasteignar.

Álagning fasteignaskatts er kæranleg til yfirfasteignamatsnefndar og skal kæra borin fram innan þriggja mánaða frá álagningu.

Fasteignamat

Fasteignamat eignar tekur bæði til húss og lóðar og er fasteignamati skipt í húsmat og lóðarmat. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) endurmetur skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Skal það verð talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til.

HMS ber ekki síðar en í júnímánuði ár hvert að gera hverju sveitarfélagi og eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmatsins. Frestur eiganda til athugasemda skal vera mánuður frá tilkynningu ákvörðunar. Hægt er að skoða bæði gildandi og fyrirhugað fasteignamat eigna á vefsíðu HMS.

Skráning fasteignar

Fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skal skrá í fasteignaskrá lögum samkvæmt. Breytingar á skráðri notkun fasteignar er háð byggingarleyfi Embættis byggingarfulltrúa. Hægt er að óska eftir byggingarleyfi á vefsíðu byggingarfulltrúa.

A-skattflokkur 0,18% af fasteignamati

Íbúðir og íbúðarhús ásamt lóðarréttindum, erfðafestulönd í dreifbýli og jarðeignir, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði, hesthús, öll hlunnindi og sumarbústaðir ásamt lóðarréttindum.

B-skattflokkur 1,32% af fasteignamati

Sjúkrastofnanir samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu, skólar, heimavistir, leikskólar, íþróttahús og bókasöfn.

C-skattflokkur 1,60% af fasteignamati

Allar aðrar fasteignir, svo sem iðnaðar-, skrifstofu-, og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu.

Lóðarleiga

Lóðarleiga er lögð á allar leigulóðir sem hlutfall af lóðarhlutamati. Leigugjaldið fyrir íbúðarhúsalóðir er 0,2% af lóðamati þeirra en 1,0% fyrir atvinnulóðir.

Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar, Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, veitir allar upplýsingar um endurnýjun og breytingar á lóðarleigusamningum í síma 411 1111. Einnig má leita upplýsinga með því að senda tölvupóst á netfangið upplysingar@reykjavik.is

Gjald fyrir meðhöndlun úrgangs og gjald vegna endurvinnslustöðva

Gjald fyrir meðhöndlun úrgangs og gjald vegna endurvinnslustöðva er lagt á skv. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gjaldið miðast við fjölda og stærð íláta við hverja húseign, losunartíðni þeirra og tegund úrgangs. Í fjöleignarhúsum er gjöldunum skipt eftir hlutfallstölu eigenda í viðkomandi sameign sbr. 43. og 45. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994.

Frekari upplýsingar um sorphirðu eru í síma 411 1111 og á netfanginu sorphirda@reykjavik.is.

 

Fyrirspurnir

Einfaldar fyrirspurnir sendist á fasteignagjold@reykjavik.is.