Leiðrétting á álagningu fasteignaskatts gistirýma
Með breytingum á lögum sem tóku gildi 13. maí 2024, er gististarfsemi í flokki II nú gert að vera í skráðu atvinnuhúsnæði. Því fylgir leiðrétting og samræming á skattflokkum, skv. 3. gr. laga nr. 4/1995.
Þetta þýðir að ákveðnar fasteignir með rekstrarleyfi og flokkaðar í skattflokk A (0,18%), verða færðar í flokk C (1,6%). Leiðréttingin tók gildi 1. janúar 2025.
Reykjavíkurborg er skylt að samræma og leiðrétta álagningu vegna fasteignaskatts í samræmi við raunverulega nýtingu fasteignar og gæta jafnræðis milli rekstraraðila gististaða í flokki II.

Spurt og svarað um leiðréttingu á skattflokki
Af hverju er fasteignin mín í C skatti þegar hún er skráð sem íbúðarhúsnæði?
Vegna þess að gilt rekstrarleyfi er á fasteigninni og því um atvinnustarfsemi að ræða í mannvirki sem nýtt er fyrir ferðaþjónustu. Öll slík mannvirki eru í C skatti. Á árunum 2017-2024 var hægt að sækja um rekstrarleyfi á gistingu í flokki II í íbúðarhúsnæði. Í dag þarf að vera með skráð og samþykkt atvinnuhúsnæði svo það sé hægt.
Hver er munurinn á C skatti og A skatti?
A skattur er 0,18% af fasteignamati húss og lóðar og C skattur 1,60% af fasteignamati húss og lóðar.
Ef ég set eign mína í heimagistingu, þarf ég þá að borga C skatt?
Nei, heimagisting er ekki rekstrarleyfisskyld og ekki talin til atvinnustarfsemi. Skilyrði heimagistingar má sjá á vef sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Hvernig get ég afskráð rekstrarleyfið (gistileyfið)?
Rekstrarleyfi eru afturkölluð hjá sýslumanni og skattflokkur er leiðréttur í kjölfarið.
Ef ég afturkalla rekstrarleyfið, get ég fengið það aftur seinna?
Vegna lagabreytinga verður ekki hægt að fá rekstrarleyfið aftur eftir að því er skilað, án þess að sækja um byggingarleyfi og breyta húsnæðinu í atvinnuhúsnæði.
Ég vil afskrá rekstrarleyfi af fasteign minni. Get ég samt leigt hana út í skammtímaleigu?
Já, heimagisting er heimiluð að nánari skilyrðum og skráningu uppfylltum. Leiðbeiningar má nálgast á vef sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.
Þarf ég að borga til baka síðustu ár?
Nei, þessi leiðrétting verður ekki afturvirk.
Íbúðin er ekki í leigu alla daga ársins, af hverju þarf ég að borga C skatt allt árið?
Rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II eru gild allt árið og talin sem heilsársstarfssemi.
Hvers vegna er verið að leiðrétta þetta núna?
Eftir lagabreytingu 1. janúar 2017 var flokkun gististaða breytt, heimagisting skilgreind sérstaklega, á meðan gististaður í flokki II var skilgreindur sem gististaður án veitinga, sbr. 3. gr. laganna. Lögin gerðu þó ekki sérstakan áskilnað um að gististaður í flokki II væri í skilgreindu atvinnuhúsnæði, þó um atvinnustarfsemi væri að ræða sem bæði væri háð rekstrarleyfi leyfisveitanda og starfsleyfi heilbrigðisnefndar.
Í kjölfarið voru fasteignir með gildandi rekstrarleyfi, hvort sem þær voru í skráðu íbúðarhúsnæði eða atvinnuhúsnæði, ýmist afmarkaðar undir skattflokk A eða C, og einnig blandað. Með öðrum orðum hefur umrædd lagaþróun leitt til ósamræmis við álagningu skatta og er ekki í samræmi við raunverulega notkun húsnæðis, sbr. 3. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga 4/1995 og reglugerðar um fasteignaskatt nr. 1160/2005. Þessi þróun samræmist hvorki tilgangi né markmiði laga nr. 85/2007, sem er að stuðla að auknum stöðugleika í rekstri, sbr. 2. gr. laga nr. 85/2007.
Með breytingu á lögunum sem tóku gildi 13. maí 2024, er gististarfsemi í flokki II nú gert að vera í skráðu atvinnuhúsnæði. Er því tilefni til að yfirfara afmörkun skattaflokka skv. 3. gr. laga nr. 4/1995, samræma álagningu, og leiðrétta þar sem þarf. Slík leiðrétting stuðlar að jafnræði, gagnsæi og réttmætum væntingum rekstraraðila og er í samræmi við gildandi lög og vandaða stjórnsýsluhætti.
Hvenær tekur leiðréttingin gildi?
Leiðréttingin tók gildi 1. janúar 2025 en verður ekki afturvirk. Álagningarseðill með leiðréttri álagningu mun birtast á island.is þann 27. janúar nk.
Nánari upplýsingar um:
Fyrirspurnir
Fyrirspurnir er hægt að senda á upplysingar@reykjavik.is eða hafa samband við þjónustuver í síma 411 1111.