Um Réttarholtsskóla

Réttarholtsskóli er um 440 barna skóli nemenda sem koma flestir úr Breiðagerðisskóla, Fossvogsskóla og Hvassaleitisskóla. Í skólanum leggjum við sérstaka áherslu á góð tengsl milli nemenda, foreldra og starfsfólks. Skólinn hefur alla tíð lagt áherslu á að nemendur finni að starfsfólk ber umhyggju fyrir þeim og virðir þá sem einstaklinga en jafnframt því væntum við mikils af nemendum hvað varðar námsástundun og framkomu.

Fjölbreytt námsframboð

Í skólanum er fjölbreytt námsframboð og í krafti fjöldans getum við boðið upp á mikið val og reynum að uppfylla námsþarfir hvers og eins eins og kostur er. Nemendur í 9. og 10. bekk eru t.d. nánast með einstaklingstöflur því þeir hafa val um hópa í íslensku, stærðfræði, dönsku og ensku og mjög fjölbreytt val list – og verkgreina og ýmissa greina tengdum íþróttum og líkamsrækt. Skólinn býr yfir vel útbúnu íþróttahúsi með tækjasal og skólahreystibraut á skólalóðinni. Réttarholtsskóli er einnig þekktur fyrir öfluga vísinda – og eðlisfræðikennslu og nemendur fá að kynnast vísindum í gegnum ýmsar tilraunir.

Teikning af tveim börnum á grunnskólaaldri.

Sjálfstæð vinnubrögð

Í lok 10. bekkjar vinna nemendur stórt þverfaglegt lokaverkefni sem byggist á öflun upplýsinga, úrvinnslu og skilum í fjölbreyttu formi. Áhersla er á sjálfstæða og skapandi vinnu þar sem nemendur njóta og læra á virkan hátt út frá verkefnum sérstaklega tengdum áhugasviði þeirra.

 

Hádegismatur

Við bjóðum upp á næringaríkan mat eldaðan að mestu frá grunni af Sigga kokkinum okkar. Í hádeginu skiptast kennararnir og skólastjórnendur á að skammta mat en þar sjáum við kjörið tækifæri til að kynnast og tengjast nemendum á öðrum vettvangi en eingöngu í kennslustundum.

Nemendafélag

Í skólanum er öflugt nemendafélag sem er rekið í samstarfi við Félagsmiðstöðina Bústaði. Félagið stendur fyrir ýmsum viðburðum í skólanum, böllum og frábærri árshátíð sem er yfirleitt haldin um miðbik marsmánaðar en þar er yfirleitt öllu til tjaldað og skemmtileg hefð er fyrir því að foreldrar sjái um að þjóna til borðs og iðulega er barátta um hvert sæti þar.

Virðing, virkni, vellíðan

Einkunnarorð skólans eru virðing, virkni, vellíðan en með því undirstrikar skólinn þá trú að vellíðan er undirstaða árangurs og að allir í skólasamfélaginu sýni og mæti virðingu í öllum samskiptum. En einnig þá skyldu sem hvílir á nemendum að vera virkir þátttakendur í skólastarfinu og skyldu kennara til að virkja nemendur í verðugum viðfangsefnum.

Teikning af konu að kasta hlutum eins og sirkúslistamaður.