Um Melaskóla
Kennsla hófst í Melaskóla 5. október 1946. Haustið 1999 var ný skólabygging tekin í notkun og þá varð skólinn jafnframt einsetinn. Melaskóli tók við af Skildinganesskóla sem var til húsa á ýmsum stöðum í Skerjafirði og á Grímsstaðaholti á árunum 1926 til 1946. Skildinganesskóli var gerður að sjálfstæðum skóla árið 1936 en hafði áður verið útibú frá Mýrarhúsaskóla og síðar Miðbæjarskóla.
Sagan
Fyrsta árið sem kennt var í Melaskóla voru nemendur um 850 og kennarar 26. Flestir urðu nemendur í skólanum 1493 en það var skólaárið 1955 til 1956. Einar Sveinsson, arkitekt, teiknaði eldri skólabygginguna og voru listamennirnir Barbara Árnason og Ásmundur Sveinsson fengnir til að myndskreyta bygginguna. Arkitekt nýju skólabyggingarinnar er Ögmundur Skarphéðinsson. Nemendur Melaskóla, skólaárið 2000 til 2001, gáfu skólanum listaverkið Borg en það er staðsett í nýju skólabyggingunni.
Stefna Melaskóla
Melaskóli er gróinn skóli í grónu hverfi. Í skólastarfinu sjálfu kallast á hefðir og nýbreytni. Reynt er að viðhalda og hlúa að því besta úr vinnubrögðum, hefðum og umgengnisreglum sem skapast hafa í áranna rás. Melaskóli er heildstæður grunnskóli þar sem starfa um 550 nemendur í 1. – 7. bekk og um 80 starfsmenn.
Stefna Melaskóla er að vera árangursríkur skóli sem byggir á traustum grunni þar sem gleði og umburðarlyndi, kurteisi og jákvæður agi einkennir starfsumhverfið. Nám og velferð nemenda er ætíð sett í öndvegi. Vellíðan, samvinna, metnaður og sköpunargleði eru þau gildi sem höfð eru að leiðarljósi í daglegu starfi. Skólinn leggur mikla áherslu á gott og öflugt samstarf við fjölskyldur skólans.