Um Hólabrekkuskóla
Ágrip af sögu skólans
Hólabrekkuskóli tók til starfa haustið 1974. Það var fyrst í september 1973 sem fræðsluráð Reykjavíkur ræddi um byggingu skólans sem gekk undir nafninu Hólaskóli en var síðar nefndur Hólabrekkuskóli sennilega til aðgreiningar frá Bændaskólanum að Hólum. Gunnar Hansson arkitekt teiknaði þrjá fyrstu áfanga skólans en Gylfi Guðjónsson arkitekt teiknaði þann fjórða. Fyrsti áfangi skólans var tekinn í notkun 1974 og 1975, annar áfangi 1979, þriðji áfangi að hluta haustið 1984 en að fullu um áramót 1984/1985. Fjórði áfangi var tekinn í notkun 2002 eða 28 árum eftir að skólastarf hófst. Í upphafi var gert ráð fyrir að fjórði áfangi yrði íþróttahús en til að hægt yrði að einsetja skólann var ákveðið að byggja almennar kennslustofur og sækja því nemendur íþróttakennslu í íþróttahúsið við Austurberg og sundkennslu í sundlaug Breiðholts við Austurberg. Heildarflatarmál skólans er 6.697 fermetrar.
Útilistaverkið, Upphaf, á vegg við anddyri skólans gerði Einar Hákonarson myndlistarmaður en listaverkið í anddyri skólans er unnið af nemendum í 9. og 10. bekk. Myndefnið var sótt í ljóðabálk Steins Steinarrs, Tíminn og vatnið og var það gert í tilefni þess að Reykjavíkurborg var ein af menningarborgum Evrópu árið 2000.
Fyrsta skólaárið voru skráðir 208 nemendur í barnaskólann og 128 í gagnfræðaskólann en nemendur sem áttu að fara í 5., 6., 7. og 8. bekk voru 91 og sóttu Fellaskóla. Alls hefðu því átt að vera 427 nemendur í skólanum þetta fyrsta starfsár og segir það nokkuð um hversu barnafjöldinn var strax mikill í Fella– og Hólahverfi. Skólaárið 1981-1982 voru 45% allra grunnskólanemenda í Reykjavík í fimm grunnskólum í Breiðholti.
Nemendur í 10. bekk sem valið höfðu sér myndlist tóku þátt í samnorrænu verkefni skólaárið 1995-1996 sem nefnt var Ný öld – norræn framtíðarsýn. Máluðu þeir stór málverk sem voru m.a. sýnd í Listasafni Íslands og Øksnehallen í Kaupmannahöfn en prýða nú veggi skólans.
Skólastjórar við skólann; Sigurjón Fjeldsted frá 1974 – 2004 en Arnfinnur U. Jónsson leysti Sigurjón af þegar hann var í námsleyfi skólaárið 1979 – 1980, Hólmfríður G. Guðjónsdóttir skólastjóri frá 2004 til 31. desember 2021 og Lovísa Guðrún Ólafsdóttir skólastjóri frá 1. janúar 2022.
Starfsmenn Hólabrekkuskóla
- Skólastjóri er Lovísa Guðrún Ólafsdóttir
- Aðstoðarskólastjóri er Guðbjörg Oddsdóttir
- Deildarstjóri yngra stigs er Hjördís Þórðardóttir
- Deildarstjóri eldra stigs er Margrét Ingadóttir
- Deildarstjóri miðstig er Brynja Þórsdóttir
- Deildarstjóri verkefna er Heiða Berta Guðmundsdóttir
- Námsráðgjafi er Íris Hrund Hauksdóttir
- Skólaritari er Katrín Kristín Hallgímsdóttir
- Umsjónarmaður fasteigna er Sigursteinn Kristjánsson