Um Árbæjarskóla

Árbæjarskóli er heildstæður grunnskóli þar sem grundvöllur starfsins er fræðsla og uppeldi sem byggir á Aðalnámskrá grunnskóla og þeirri stefnu sem mörkuð er af fræðsluyfirvöldum Reykjavíkur. Áhersla er á teymisvinnu í skólanum og samvinnu allra, auk þess sem samvinna við grenndarsamfélagið er skólanum afar mikilvæg.

Nemandinn í öndvegi

Í skólastarfinu er haft að leiðarljósi að nemendur, kennarar og annað starfsfólk nái hámarksárangri. Góður grunnskóli er ein styrkasta stoðin í hverju samfélagi. Í Árbæjarskóla er því lögð áhersla á að gagnkvæmt traust ríki á milli grenndarsamfélagsins og starfs­manna skólans og að skólastarfið miði að því að styrkja og efla hvern og einn til framfara og þroska.

Starfið mótast af metnaði og hvatningu til sjálfstæðra verka og aukinnar víðsýni, þar sem hver og einn fær notið sín á eigin forsendum. Í skólastarfi Árbæjarskóla er nemandinn í öndvegi. Megináhersla er lögð á vellíðan og vandaða fræðslu en nauðsynlegt er að þetta fari saman enda á hvorugt að geta verið án hins í þróttmiklu grunnskóla­starfi.

 

Góð samskipti

Í Árbæjarskóla er mikilvægt að samskipti einstaklinga grundvallist á gagnkvæmri virðingu, kurteisi og tillitssemi, sem er forsenda þess að hverjum og einum líði vel. Gagnkvæmt traust, jákvæð og uppbyggileg samskipti móta framar öðru góðan starfsanda.

Gengið er út frá því að ánægður og áhugasamur einstaklingur sem tekst á við skyldur sínar af ábyrgð og festu nái árangri í starfi sínu. Þannig er gott sjálfstraust og jákvæð sjálfsmynd grundvöllur sjálfstæðra vinnubragða og góðrar samvinnu. Eins þarf hver einstaklingur að temja sér ábyrga umgengni og bera ábyrgð á sínu nánasta umhverfi og samfélagi. Í Árbæjarskóla viljum við hjálpa nemendum að ná tökum á ofangreindum þáttum.  

Samvinna heimilis og skóla

Árangursríkt skólastarf byggir einnig á góðri samvinnu og gagnkvæmu trausti heimilis og skóla. Forráðamenn nemenda þekkja börnin sín best og því er nauðsynlegt að þeir séu í góðri samvinnu við kennara og skólastjórnendur og hafi samband hvenær sem þeir telja þörf á, bæði til að efla og styrkja náms- og félagsfærni nemenda.

Í Árbæjarskóla eru um 700 nemendur og við skólann starfa rúmlega 100 manns. Góð íþróttaaðstaða er við skólann en þar er íþróttahús, sundlaug, gervigrasvöllur og stór skólalóð með fjölbreyttum íþróttavöllum og möguleikum til leikja. Íþróttir nemenda í 1.–7. bekk eru kenndar í íþróttahúsi skólans en nemendum í 8.–10. bekk er kennt í Fylkishöllinni.

Gott samstarf er við leikskóla hverfisins, Íþrótta­félagið Fylki, Frístundamiðstöðina Ársel, Orkuveitu Reykjavíkur, Borgarholtsskóla, Tækni­skólann o.fl.  

Stjórnendateymi

Með stjórnun skólans fara auk skólastjóra, tveir aðstoðarskólastjórar og tveir deildarstjórar.

Á skrifstofu skólans er starfandi skrifstofustjóri og skólaritari. Námsráðgjafar skólans eru tveir. Við skólann er einnig starfandi umsjónarmaður fasteigna og matreiðslumeistari.

Stjórnunarteymi skipa:

Starfsfólk skrifstofu og umsjónarmaður húsnæðis

Námsráðgjafi