Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er kosin á næsta landsþingi sambandsins að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Stjórnarmenn eru 11 að tölu með formanni sem kosinn er sérstaklega.

Við kjör í stjórn er landinu skipt upp í fimm kjörsvæði sem taka mið af skiptingu landsins í kjördæmi vegna Alþingiskosninga með þeirri undantekningu að Reykjavík er eitt kjörsvæði.

Kjörgengir í stjórn sambandsins eru allir aðalmenn og varamenn í sveitarstjórnum og framkvæmdastjórar sveitarfélaga, enda hafi þeir það starf að aðalstarfi. Missi stjórnarmaður umboð til setu í stjórninni tekur varamaður sæti hans til næsta landsþings sem kýs nýjan aðalmann í hans stað. Láti aðal- eða varamaður í stjórn af starfi hjá því sveitarfélagi sem hann starfaði fyrir þegar kosning fór fram fellur umboð hans niður og á næsta landsþingi er kosinn stjórnarmaður í hans stað.

Stjórnin fer með yfirstjórn sambandsins milli landsþinga, sem haldin eru árlega. Stjórnin er í forsvari fyrir sambandið út á við og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Stjórnin heldur fundi að jafnaði einu sinni í mánuði.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga er kjörin til fjögurra ára á landsþingi að afloknum sveitarstjórnarkosningum.