Droplaugarstaðir, hjúkrunarheimili | Reykjavíkurborg

Droplaugarstaðir er hjúkrunarheimili í eigu Reykjavíkurborgar. Heimilisfólk á Droplaugarstöðum eru einstaklingar sem fengið hafa færni- og vistunarmat og þurfa daglega hjúkrun og aðhlynningu. Við leggjum áherslu á sjálfræði einstaklingsins, heimilislegt umhverfi, virðingu fyrir einkalífi, athafnasemi og að öryggi og vellíðan sé í fyrirrúmi.  Til að ná því er starfsemin í stöðugri endurskoðun gegnum virkt gæðaeftirlit á öllum sviðum þjónustunnar.

Á Droplaugarstöðum eru 81 íbúar, allir í einbýli með sér baði. Á heimilinu er sjúkra- og iðjuþjálfun og hægt er að leita til öldrunarsálfræðings. Starfrækt er hárgreiðslustofa og fótaaðgerðarstofa.

Á Droplaugarstöðum eru þrjár hjúkrunardeildir.  Einnig reka Droplaugarstaðir stoðbýlið Foldabæ í Grafarvogi.

Á hverri hjúkrunardeild eru 26 einbýli, öll með sér baðherbergi.  Hjúkrunardeild 2 tilheyra einnig 4 einbýli sem eru á jarðhæðinni. Hverri deild er skipt niður í þrjár 8 - 10 manna einingar. Hver eining hefur sína eigin setustofu og borðstofu.

Hver heimilismaður á Droplaugarstöðum nýtur umönnunar hjúkrunarfræðings og sjúkraliða/starfsmanns. Áhersla er á tengslamyndun og uppbyggilega aðlögun að nýju heimili.  Hver heimilismaður hefur að auki tengil, sem er milliaðili í samskiptum við aðstandendur, starfsfólk og lækni. Hjúkrunarfræðingur setur fram hjúkrunaráætlun og tryggir að hjúkrunarþörfum viðkomandi sé fullnægt. Sjálfræði heimilismanns er ávallt í fyrirrúmi og einstaklingsbundnar skoðanir og vilji ráðandi í samskiptum sem og möguleikar viðkomandi til að hafa áhrif á eigin aðstæður.

Læknisþjónusta

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins annast alla læknisþjónustu á heimilinu samkvæmt þjónustusamningi. Læknar hússins eru Áslaug Gunnarsdóttir og Stefán B. Matthíasson. Þau skipta með sér mánudögum, miðvikudögum og föstudögum fyrir hádegi.

Sálgæsla

Guðsþjónustur eru haldnar aðra hverja viku.  Prestar Hallgrímskirkju annast messuhald.  Félagar úr kór aldraðra í Gerðubergi syngja við messu. Organisti er Kári Friðriksson. Hægt er að kalla til prest sé þess óskað.

Sjúkraþjálfun

Á Droplaugarstöðum er veitt sjúkraþjálfun eftir getu og þörf hvers íbúa.  Markmið sjúkraþjálfunar á Droplaugarstöðum er að viðhalda og bæta líkamlega færni og getu heimilismanna.  Þjálfunin felst einna helst í þol- og styrktaræfingum undir leiðsögn starfsfólks sjúkraþjálfunar. Hópleikfimi og einstaklingsmiðuð meðferð skipar einnig stóran sess í starfi sjúkraþjálfunar.

Allt að 30 heimilismenn heimsækja sjúkraþjálfun Droplaugarstaða dag hvern. Flestir koma í hefðbundna þol- og styrktarþjálfun, aðrir til sérhæfðrar meðferðar og endurhæfingar. Sjúkraþjálfarar sinna einnig heimilismönnum á deildum þegar svo ber undir.

Sjúkraþjálfarar meta þörf fyrir hjálpartæki og útvega þau tæki sem þörf er fyrir, svo sem hjólastóla og fylgihluti þeirra, gönguhjálpartæki, stoðtæki og teygjusokka.
Sjúkraþjálfari sér um kennslu í starfsstellingum fyrir starfsmenn.  Það er gert til að minnka áhættu á álagsmeiðslum við störf.

Félagsstarf

Þegar einstaklingur flytur  á Droplaugarstaði hefur þegar orðið röskun á daglegum venjum hans sökum veikinda eða öldrunar. Aukin þörf fyrir aðstoð við athafnir daglegs lífs, eins og að klæða sig eða fara í bað getur haft neikvæð áhrif á sjálfsmynd einstaklingsins og dregið úr áhuga hans á þátttöku í tómstundum og afþreyingu. Leitast er við að virkja einstaklinginn þannig að hann geti öðlast lífsfyllingu þrátt fyrir öldrun, sjúkdóma eða fötlun. Áhersla er lögð á að heimilisfólk fái tækifæri til þess að taka þátt með því að aðlaga umhverfið og iðjuna að getu hvers og eins eða með þjálfun einstaklingsins í gegnum þá tómstundaiðju sem hann hefur áhuga á.

Á Droplaugarstöðum er leitast eftir því að starfa einstaklingsmiðað með þarfir hvers og eins að leiðarljósi. Markmiðið er að efla færni einstaklinga og viðhalda þátttöku þeirra í því sem skiptir þá máli. Mikilvægt er að viðkomandi hafi hlutverk að gegna og fái tækifæri til að njóta þeirrar iðju sem hann hefur áhuga á hverju sinni og hefur það þannig jákvæð áhrif á heilsu hans og vellíðan.

Á vegum félagsstarfs er boðið er upp á bæði einstaklings-  og hópþjálfun. Þar gefst einstaklingum kostur á að fást við ýmsa tómstundaiðju s.s. kertagerð, prjónaskap, stimplun á tau, vatnslitamálun, blómarækt, spilamennsku, bakstur, söng og kaffispjall.

Fréttir frá Droplaugarstöðum

Þarfnast þessi síða lagfæringar?

13 + 4 =