Droplaugarstaðir
Hjúkrunarheimili
Snorrabraut 58
105 Reykjavík
Droplaugarstaðir
Droplaugarstaðir er hjúkrunarheimili í eigu Reykjavíkurborgar og heyrir undir velferðarsvið. Heimilið tók til starfa 30. júní 1982. Íbúar eru tilnefndir af Færni- og heilsumatsnefnd höfuðborgarsvæðisins og hafa þörf fyrir sólarhrings aðhlynningu.
Mikil þáttaskil verða í lífi einstaklings við það að flytja inn á hjúkrunarheimili, bæði fyrir hann og aðstandendur. Áhersla er á uppbyggilega aðlögun og góð tengsl við íbúa og aðstandendur.
Gildi Droplaugarstaða eru öryggi, virkni og vellíðan.
Heimilið
Á Droplaugarstöðum eru 80 almenn hjúkrunarrými. Auk þess eru sérhæfð hjúkrunarrými á MND-deild. Öll herbergi eru einbýli með sérbaðherbergi.
Hverri hæð er skipt upp í þrjá heimiliskjarna sem samanstanda af átta til tíu herbergjum með sameiginlegri borðstofu og setustofu.
MND-deild er á fyrstu hæð ásamt, sjúkraþjálfun, skrifstofum, matsal, eldhúsi, þvottahúsi, fótsnyrti- og hárgreiðslustofu.
Útgengt er í afgirtan garð þar sem íbúar njóta til samveru, félagsstarfs og útiveru af öllu tagi. Garðurinn státar af gróðurhúsi þar sem má finna elsta vínvið Reykjavíkur, með uppskeru hvert haust.
Hjúkrunar- og læknisþjónusta
Hver íbúi nýtur daglegrar aðhlynningar hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða, félagsliða og annarra starfsmanna. Hjúkrunarfræðingar eru á vakt allan sólarhringinn. Þeir setja fram hjúkrunaráætlun sem tryggir að hjúkrunarþörfum íbúa sé mætt. Hjúkrunarfræðingar eru í nánu samstarfi við lækna heimilisins.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins annast alla læknisþjónustu íbúa samkvæmt þjónustusamningi. Læknar hafa fasta viðveru á heimilinu ákveðna daga vikunnar, auk þess sem bakvakt er allan sólarhringinn.
MND-deild
Á fyrstu hæð eru sérhæfð hjúkrunarrými sem standa til boða fyrir einstaklinga með MND-sjúkdóminn. Rýmin geta ýmist verið til lengri eða skemmri tíma. Veitt er sérhæfð hjúkrunar- og læknisþjónusta í nánu samstarfi við MND-teymi LSH.
Sjúkraþjálfun
Veitt er sjúkraþjálfun eftir þörfum hvers og eins. Markmiðið er að viðhalda líkamlegri færni og getu eins lengi og kostur er.
Við komu íbúa meta sjúkraþjálfarar færni og getu og gera meðferðaráætlun. Meðferð er aðallega fólgin í styrktar-, jafnvægis-, og gönguþjálfun ásamt verkjameðferðum. Sjúkraþjálfarar meta þörf fyrir hjálpartæki og útvega tæki sem þörf er á.
Starfsemi sjúkraþjálfunar er fjölbreytt og skemmtileg og aðstaðan vel tækjum búin.
Iðjuþjálfun
Veitt er iðjuþjálfun eftir þörfum hvers og eins. Markmið iðjuþjálfunar er að viðhalda andlegri, félagslegri og líkamlegri færni eins lengi og kostur er. Boðið er upp á einstaklings- og hópaþjálfun, þar sem geta, vilji og áhugasvið hvers og eins ræður för. Starfsemin fer bæði fram í vinnustofu iðjuþjálfunar og á deildum íbúa.
Samhliða iðjuþjálfun er boðið upp á fjölbreytt félagsstarf og viðburði í sal sem vekja ávallt ánægju.
Guðsþjónustur eru haldnar reglulega, prestar Hallgrímskirkju annast messuhald.
Droplaugarstaðir halda úti facebook síðu. Á síðunni er veitt innsýn í lífið á heimilinu, matseðill birtur, viðburðir auglýstir o.fl. Heiti síðunnar er Droplaugarstaðir hjúkrunarheimili
ISO-vottun
Droplaugarstaðir hafa haft ISO vottun frá árinu 2020 og var fyrsta hjúkrunarheimili á Íslandi til að hljóta þá vottun. Gæðakerfið er skilvirkt, með virku ábendingarkerfi og stöðugum umbótum.
EDEN-stefna
Droplaugarstaðir eru að innleiða alþjóðlega Eden-stefnu sem ætluð er hjúkrunarheimilum. Eden-stefna er persónumiðuð þjónusta og markmiðið að þróa menningu sem leggur áherslu á að efla sjálfræði og lífsgæði íbúa ásamt vellíðan starfsfólks og aðstandanda. Lífssaga íbúa, þ.e. fjölskylduhagir, fyrri störf og áhugamál er lykill að einstaklingsmiðaðri nálgun.