04. tillaga um Sæbrautarstokk

Tillaga T.Ark, Verkís, Studio Egret West og Integrated Transport Planning+

Ofan á stokknum yfir Sæbraut verður til ílangt svæði milli Voga og Vogabyggðar og er í tillögunni lögð áhersla á að það verði nýtt til að mynda tengsl milli hverfanna. Það er meðal annars gert með því að byggja upp garð, Langagarð, meðfram vesturhlið húsa við Dugguvog.

Nánar

Fyrirhugað er að garðurinn þjóni hverfunum beggja vegna hans og sérstök áhersla er lögð á net göngu- og hjólaleiða sem tengjast hverfunum, útivistarsvæðum og náttúru.

Hugmyndin

Sæbraut flyst í stokk og þannig hverfur umfangsmikill tálmi milli hverfa og tenging frá Vogum að ströndinni opnast. Tillagan gerir ráð fyrir að meginhluti umferðar hverfi af yfirborði en þó er gert ráð fyrir leið Borgarlínu eftir stokknum.

Lega þeirra meðfram Steinahlíð er valin með tilliti til og umhyggju fyrir dýrmætu svæðinu og röskun Steinahlíðar haldið í lágmarki.

 

Myndband sem sýnir Sæbraut í stokk – Tillaga T.Ark, Verkís, Studio Egret West og Integrated Transport Planning+

Einungis verður opið fyrir umferð bíla á einum stað ofan á syðri enda stokksins, þar sem leiðin liggur frá Vogabyggð að Vogum samhliða Borgarlínu og göngu- og hjólastíg.

Útfærsla á stokki

Með færslu Sæbrautar í stokk hverfur meginhluti bílaumferðar af yfirborðinu. Gönguleiðir, hjólastígar og almenningsvagnar verða á þaki stokksins. Umferð bíla verður leyfð á einum stað þar sem Suðurlandsbraut tengist Súðarvogi yfir syðri enda stokksins.

Til suðurs opnast stokkurinn áður en komið er að Dugguvogi, og hinn endinn er norðan gatnamóta Skeiðarvogs og Kleppsmýrarvegar.

Langigarður

Ofan á stokknum yfir Sæbraut verður til ílangt svæði milli Voga og Vogabyggðar og er í tillögunni lögð áhersla á að það verði nýtt til að mynda tengsl milli hverfanna. Það er meðal annars gert með því að byggja upp garð, Langagarð, meðfram vesturhlið húsa við Dugguvog. Fyrirhugað er að garðurinn þjóni hverfunum beggja vegna hans og sérstök áhersla er lögð á net göngu- og hjólaleiða sem tengjast hverfunum, útivistarsvæðum og náttúru.

Gert er ráð fyrir líflegum garði sem laðar að sér fólk og þjónar hverfunum beggja vegna hans. Í Langagarði er áhersla á upplifun, skemmtun og þjónustu í skjólsælu og notalegu umhverfi. Einnig fjölbreytt svæði fyrir íþróttir, leiki og mannamót. Boltavellir, brettasvæði, petang, tai chi, tónleikar og aðrar uppákomur.

Tengsl milli hverfanna verða meðal annars um Langagarð, sem kemur meðfram vesturhlið húsa við Dugguvog.

Borgarlína

Leiðir Borgarlínunnar mætast við suðurenda nýrrar Vogabyggðar. Austur-vesturleiðin milli Suðurlandsbrautar og Ártúnshöfða liggur í sveig meðfram Steinahlíð yfir á suðurenda stokksins að Vogastöð og þaðan um látlausa brú yfir voginn að Ártúnshöfða.

Vogastöð

Margar leiðir Borgarlínunnar mætast við suðurenda stokksins og er Vogastöð staðsett þar, við enda Langagarðs og á mörkum núverandi og nýrrar íbúðabyggðar. Landið austan við stöðina hallar að Elliðaárvogi og er því gert ráð fyrir að Borgarlínan fari um brú yfir voginn að Ártúnshöfða. Stöðin verður mikilvægur áfangastaður íbúa og ferðalanga og þar verður vettvangur fyrir verslun og fjölbreytta þjónustu eins og kaffihús, bókasafn, gróðurhús og veitingastaði með útsýni yfir voginn.

Sunnan stöðvarinnar rísa þriggja til fjögurra hæða hús, randbyggð sem afmarkar skjólgóða inngarða. Frá byggingum við voginn er óskert útsýni yfir Ósagarða. Stöðin hefur sérstöðu vegna nálægðar við útivistarsvæði Elliðaárósa. Borgarlínan myndar þannig þráð sem tengir saman hverfin umhverfis Elliðaárvog og Vogastöð skapar vettvang fyrir samveru og leik.

Staðsetning gefur stöðinni sérstöðu í nálægð við náttúrusvæði en það opnar aðgengi að fallegum útivistarsvæðum umfram stöðvar staðsettar innan byggðar.

 

Aukið mannlíf á svæðinu hefur aðdráttarafl og fleiri eiga erindi þangað, sem hvetur til notkunar almenningssamgangna. 
Teikning af samgöngum við Sæbraut. Sporvagn ekur eftir brautinni hliðin á sjónum.
Norður-suðurleið Borgarlínu fer undir Miklubraut og þræðir leiðina meðfram núverandi vegslaufu að Vogastöð, án þess að skerða árbakkann um of

Nýtt hverfi

Sunnan við Vogastöð er íbúðahverfi sem eflir Vogastöðina sem hverfismiðju. Til vesturs og suðurs er hverfið afmarkað af bogalagaðri randbyggð sem kallast á við bogalöguð iðnaðarhúsin norðar sem nú einkenna Vogana á þessum stað. Innan þeirrar byggðar er sameiginlegt garð- og aðkomurými með húsum sem sett eru á kantinn við Borgarlínuna og njóta útsýnis yfir sundin og skýla fyrir norðanáttinni.