Ofbeldi gegn börnum

Ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi eða verða vitni að ofbeldi, allra síst á heimili sínu. Friðhelgi heimilisins nær ekki til ofbeldis. 

Allt ofbeldi á heimili þar sem börn eru, er jafnframt ofbeldi gagnvart börnum.

Hvað telst sem ofbeldi gagnvart börnum?

Skilgreining íslensku barnaverndarlaganna á ofbeldi og vanrækslu gegn börnum:

Ofbeldi felur í sér athöfn sem leiðir til eða er líkleg til að leiða til skaða á þroska barns.
 Vanræksla felur í sér skort á nauðsynlegri athöfn sem leiðir til skaða eða er líkleg til að leiða til skaða á þroska barns.

 

Ofbeldi gagnvart börnum getur verið líkamlegt, andlegt og kynferðislegt. Börn eru varnarlaus og geta sjaldan borið hönd yfir höfuð sér. Staða barna er oft þannig háttað að þau eiga erfitt með að komast út úr ofbeldisaðstæðunum og fá oftar en ekki hjálpina of seint.

  • Líkamlegt ofbeldi, dæmi: slá, löðrunga, sparka, hrista, kasta, kæfa og særa með vopni.

  • Andlegt ofbeldi, dæmi: hafna, einangra, niðurlægja, hunsa, loka inni, hóta, neita um nauðsynjar og sífelld öskur.

  • Kynferðislegt ofbeldi, dæmi: orðbragð, myndbirtingar, snertingar, káf og nauðgun.

Hver geta einkennin verið?

Vísbendingar um vanlíðan hjá barni  sem verður fyrir ofbeldi geta verið eftirfarandi:

  • Skapsveiflur
  • Mikill grátur
  • Minnkandi matarlyst og breytingar á matarvenjum
  • Breytingar á hegðun í skóla eða gagnvart öðru fólki
  • Persónuleika breytingar
  • Óframfærni/hlédrægni
  • Hræðsla við að fara heim og strjúka að heiman
  • Á í erfiðleikum með að einbeita sér
  • Hefur óútskýrða hræðslu eins og við myrkur, að vera eitt, hræðsla við ákveðið fólk eða staði eins og svefnherbergi eða salerni
  • Svefnvandamál, martraðir og/eða hræðsla við að fara að sofa eða sofa eitt.

Ef barn sýnir breytta hegðun er nauðsynlegt að bregðast við. Breytt hegðun þýðir hins vegar ekki endilega að barni sé beitt ofbeldi og nauðsynlegt er að athuga að barn sem verður fyrir ofbeldi breytir ekki endilega hegðun sinni eða sýnir allt önnur einkenni.

Afleiðingar heimilisofbeldis

Börn sem hafa verið beitt heimilisofbeldi virðast oft glíma við afleiðingarnar einnig á unglings- og fullorðinsárum.

Fræðimenn og fagfólk sem vinna með börnum sem hafa verið beitt andlegu og líkamlegu ofbeldi telja að það hafi neikvæð áhrif á heilsu þeirra, þroska og vellíðan. Andlegt ofbeldi er jafnvel talið vera meiri skaðvaldur en líkamlegt.

Áhrifin geta birst sem líkamlegir áverkanir, verið geðrænir og  félagslegir. Algengar afleiðingar eru lágt sjálfsmat, kvíði, þunglyndi og sjálfsvígshugleiðingar auk áfengis- og fíkniefnanotkunar. Afleiðingar ofbeldis innan heimilisins koma oft fram í atferli barna og einkennist oft af ofbeldisfullri hegðun í umgengni við önnur börn.

Aleiðingar þess að alast upp við heimilisofbeldi

Reynsla barns af ofbeldi á heimili einskorðast ekki við athafnir heldur nær hún til upplifana og óbeinna áhrifa sem koma til vegna ofbeldisins, svo sem þess að verða vitni að ofbeldi eða heyra það sem á gengur. Að alast upp við heimilisofbeldi getur haft varanleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu barna allt fram á fullorðinsár. Börn sem búa við ofbeldi eiga í hættu að fá ekki grunnþörfum fullnægt. Í rannsóknum hefur margoft komið fram að börn þurfa hvorki að verða sjálf fyrir ofbeldinu, né verða beint vitni að því til að þjást. Börn verða oft vitni að afleiðingum heimilisofbeldis og verða fyrir álagi við að búa á heimili sem stöðugt er hlaðið spennu.

Hvert er hægt að leita hjálpar?

Börn og unglingar sem verða fyrir ofbldi á heimili sínu eða annars staðar geta sjálf leitað til Barnaverndarnefndar. Það eru þó fleiri aðilar sem geta hjálpað börnum og unglingum sem búa við slæmar aðstæður.

Að tilkynna ofbeldi gegn barni

Allir eru skyldugir samkvæmt íslenskum lögum að tilkynna til lögreglu eða barnaverndarnefndar ef grunur er um að barn sé beitt ofbeldi, það verði fyrir áreitni eða búi við óviðunandi uppeldisaðstæður. Sá sem tilkynnir þarf ekki að hafa rökstuddan grun um að brotið sé gegn barni.

Leyfum börnum að njóta vafans og látum fagfólk skoða málið og grípa til aðgerða ef þess reynist þörf. Þeir sem tilkynna geta óskað nafnleyndar gagnvart öllum aðilum málsins nema barnaverndarstarfsmanni. Sérstaka skyldu til að tilkynna hafa þeir sem vinna með börnum, eins og leikskólakennarar, grunnskólakennarar, starfsfólk frístundar, heilbrigðisstarfsfólk og þjálfarar.

Hér er hægt að lesa meira um að tilkynna ofbeldi gegn barni

Þú getur breytt lífi barns!