Mörk

Í öllum samböndum er mjög mikilvægt að setja mörk og virða mörk hinnar manneskjunnar. Sambönd geta t.d. verið vinasambönd, fjölskyldusambönd, sambönd við kennara og samnemendur eða náið samband milli tveggja einstaklinga. Í nánum samböndum er mikilvægt að tala saman um þarfir og langanir og að þekkja mörkin sem hin manneskjan setur. Mörk eru nauðsynleg til þess að byggja upp og viðhalda trausti.

 

Hægt er að fara yfir mörk annarra á allskonar hátt, t.d.:

  • Grípa fram í fyrir annarri manneskju á meðan hún talar 
  • Ganga inn í herbergi annarra án þess að banka 
  • Senda óumbeðnar kynferðislegar myndir
  • Snerta aðra manneskju kynferðislega án samþykkis

Ef heilbrigð mörk eru ekki til staðar eða ekki er borin virðing fyrir þeim, getur sambandið orðið óheilbrigt. Mörkin þurfa að vera skýr og þess vegna er gott að geta talað um þau. 

Það er einnig mikilvægt að muna að öll getum við gert mistök og stundum getum við gert eitthvað sem við sjáum eftir. Ef mörk eru óljós er aukin hætta á að einhver fari yfir þau. Ef við misstígum okkur og förum yfir mörk annarra, er mjög mikilvægt að bera ábyrgð á hegðun sinni og biðjast afsökunar.

 

Góðar leiðir til að setja mörk í nánum samböndum

  • Talið saman um mörk
  • Láttu vita ef þér finnst eitthvað óþægilegt eða lætur þér líða illa
  • Virðið mismunandi skoðanir
  • Vertu óhrædd/ur/tt við að biðja um tíma og rými útaf fyrir þig
  • Hlustaðu á eigin hugsanir og tilfinningar

 

Það getur verið gott fyrir þig að hugsa út í þessa hluti:

  • Hvers konar hegðun finnst mér óþægileg?
  • Hvaða eiginleikar finnst mér aðdáunarverðir í öðru fólki?
  • Hvaða hlutir skipta mig mestu máli og af hverju?
  • Hvernig vil ég eyða tímanum mínum?
  • Hvað gerir mig hamingjusama/n/t?