Fræðsla á vegum Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa veitir starfsfólki og íbúum Reykjavíkurborgar fjölbreytta fræðslu um mannréttindastefnu borgarinnar og almennt um mannréttindamál.

Dæmi um fræðslur sem boðið er upp á:

  • Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar
  • Jafnrétti kynjanna
  • Saman gegn ofbeldi (heimilisofbeldi)
  • Fatlað fólk og ofbeldi
  • Innflytjendur og heimilisofbeldi
  • Hinsegin fólk og heimilisofbeldi
  • Má bara ekkert gera eða segja lengur?!
  • Trans börn
  •  Vinnustaðir og ráðningar með kynjagleraugum

Listinn er ekki tæmandi.

Fræðslur í boði

Mannréttindastefna Reykjavíkurborgar

  • Fræðslan er fyrst og fremst fyrir starfsstaði Reykjavíkurborgar. Farið er yfir mismunandi þætti mannréttindastefnunnar og rætt um dæmi sem varpa skýrara ljósi á stefnuna. Fræðslan er í fyrirlestraformi og það er einnig hvatt til umræðu.  

Jafnrétti kynjanna

  • Er til kvennamenning og karlamenning? Hvernig birtist hún og hvaða áhrif hefur hún á vinnustaði? Hvað segja lög um jafnrétti kynjanna og hver er staða karla og kvenna á Íslandi í dag? Fræðsla þar sem farið er yfir stöðu kynjanna, jafnrétti og ójafnrétti. Fyrirlestur og umræður.

Saman gegn ofbeldi (heimilisofbeldi)

  • Fræðsla og kynning á verkefninu Saman gegn ofbeldi sem er samstarfsverkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Kvennaathvarfsins, Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu og Reykjavíkurborgar. Markmið samstarfsins er að auka þekkingarmiðlun og bæta verklag til að taka á heimilisofbeldismálum. 

Kynjuð fjárhags- og starfsáætlanagerð

  • Fræðsla fyrir starfsfólk sem kemur með einum eða öðrum hætti að framkvæmd kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunargerðar (KFS) hjá borginni. Í fræðslunni er farið almennt yfir hvað KFS er, hvernig verkefnið er skipulagt og hver helstu verkfærin okkar eru þegar kemur að greiningarvinnu sem tengist KFS. Einnig er hægt að óska eftir fræðslu sem snýr að ákveðnum þáttum varðandi iðkun KFS t.d. gerð jafnréttisskimana.

Fatlað fólk og ofbeldi

  • Í fræðslunni er fjallað um tíðni og fjölbreyttar birtingarmyndir ofbeldis gagnvart fötluðu fólki og hvernig sporna megi gegn því. Markmið fræðslunnar eru annars vegar að upplýsa um stöðu fatlaðs fólks sem jaðarsetts hóps og hvernig sú staða í samfélaginu getur ýtt undir ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Hins vegar að upplýsa um leiðir til þess að tryggja fötluðu fólki aukna vernd gegn ofbeldi og hvernig hægt sé að bregðast við þegar ofbeldi á sér stað.

Innflytjendur og heimilisofbeldi

  • Í fræðslunni er fjallað um sérstöðu innflytjenda í tengslum við heimilisofbeldi m.a. þær hindranir sem mæta brotaþolum í hópi innflytjenda. Jafnframt er fjallað um tíðni heimilisofbeldis í þeirra hópi bæði út frá brotaþolum og gerendum.

Hinsegin fólk og heimilisofbeldi

  • Fræðslan er ætluð einstaklingum sem vinna með brotaþolum og gerendum í heimilisofbeldismálum. Markmið fræðslunnar er almennt að auka meðvitund þjónustuveitenda um stöðu hinsegin fólks og hinsegin barna í samfélaginu auk þess sem fjallað er um sérstæðar birtingarmyndir heimilisofbeldis hjá hinsegin fólki, og hinsegin börnum. Með aukinni meðvitund um stöðu hinsegin fólks getum við veitt þeim hópi betri þjónustu.

Má bara ekkert gera eða segja lengur?!

  • Hvaða brandarar eru í lagi? Hvað er þetta #metoo? Og hvað er öráreitni? Í fræðslunni er farið yfir staðalmyndir, fordóma og stöðu mismunandi hópa í samfélaginu, þá sérstaklega í tengslum við starfsstaði Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að auka meðvitund um ólíka stöðu fólks, jafnréttismál og stuðla að bættum samskiptum.

Trans börn

  • Markhópur fræðslunnar er fólk sem vinnur með börnum og er markmiðið að gera þau meðvituð um þann litla og viðkvæma hóp sem trans börn eru. Í fræðslunni er farið yfir helstu hugtök sem tengjast málefninu, stöðu trans fólks með áherslu á trans börn, fordóma sem þau mæta og hindranir í samfélaginu. Auk þess er fjallað um hvernig megi veita trans börnum stuðning. Einnig eru kynntir gátlistar fyrir skóla, og aðrar stofnanir sem vinna með börnum, um það hvernig megi skapa gott umhverfi fyrir trans börn.

 Vinnustaðir og ráðningar með kynjagleraugum

  • Fræðsla sem er sérstaklega fyrir stjórnendur og aðra sem sjá um ráðningar. Skoðaðar eru atvinnuauglýsingar, lög um jafna stöðu kvenna og karla og áhrifin sem karla- og kvennavinnustaðir geta haft á það kyn sem er í minnihluta. Litið er á áhrif kynjaðra hugmynda á ráðningarferlið og hvernig vinnustaðir geta verið kynjaðir og hvernig megi reyna að sporna gegn því.

Hafið samband

Fyrir frekari upplýsingar, hafið samband við mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.