Hvatning í loftslagsmálum
Reykjavíkurborg og Festa hafa veitt íslenskum fyrirtækjum loftslagsviðurkenningar og hvatt fyrirtæki til að skrifa undir loftslagsyfirlýsingu. Markmiðið er að efla samstarf við íslenskt atvinnulíf, vekja jákvæða athygli á því sem vel er gert og að hvetja fyrirtæki til að setja sér markmið í loftslagsmálum.
Loftslagsyfirlýsing
Yfir hundrað forstjórar íslenskra fyrirtækja og stofnanna skrifuðu í nóvember 2015 undir yfirlýsingu um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnka úrgang og mæla og birta árangur. Upp frá því hafa sífellt fleiri fyrirtæki bæst í hópinn.
Loftslagsviðurkenning
Borgarráð samþykkti þann 23. nóvember 2017 að veita árlega loftslagsviðurkenningu Reykjavíkur. Viðurkenningin var veitt fyrirtækjum, félagasamtökum, stofnunum og einstaklingum, sem hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Valið byggði á starfi þriggja manna dómnefndar. Dómnefndina skipuðu einn frá Festu, einn fulltrúi Reykjavíkur og einn aðili frá Háskóla Íslands. Starfsmaður dómnefndarinnar kom frá umhverfis – og skipulagssviði.
Þau fyrirtæki sem hlutu viðurkenninguna voru:
- Landsvirkjun
- Landspítali
- EFLA verkfræðistofa
- Klappir Grænar Lausnir hf
- HB Grandi
Markmið viðurkenningarinnar var að vekja jákvæða athygli á því sem vel væri gert í loftslagsmálum og vera hvatning til annarra. Mikil hugarfarsbreyting og vitundarvakning hefur átt sér stað í íslensku atvinnulífi síðastliðin ár og er því viðurkenningin orðin barn síns tíma.
Samfélagsleg ábyrgð
Festa og Reykjavík einbeita sér nú heldur að því að hvetja og fræða fyrirtæki um það hvernig við getum sýnt samfélagslega ábyrgð í verki. Þar kemur loftslagsyfirlýsingin inn en tilgangurinn með henni er að fyrirtæki dragi úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnki myndun úrgangs og loks mæli árangurinn og gefi reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.