Laugarás

Útivistarsvæði

Laugarás
104 Reykjavík

""

Um Laugarás

Laugarás er eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Þar er að finna jarðminjar frá ísöld, jökulrispað berg og ummerki um hærri sjávarstöðu.

Laugarás í Langholtshverfi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982. Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra náttúruminja og eru skilgreind sem einstök náttúrufyrirbæri, jarðmyndanir eða lífræn fyrirbæri, sem skera sig úr umhverfinu og er ástæða til að varðveita vegna fegurðar, fágætis, stöðu í landslagi, vísindalegs gildis eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Laugarás hefur mikið gildi sem útivistarsvæði. Svæðið liggur hátt og er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla. Svæðið er í miðri íbúabyggð og er nálægt öðrum mikilvægum útivistar- og náttúrusvæðum, Laugardal og Laugarnesi. Hins vegar sker svæðið  sig úr vegna legu þess í landslaginu, hversu stórgrýtt svæðið er og hið einkennandi holtagróðurfar sem sjá má á hluta svæðisins.

Grunnupplýsingar

Stærð: Friðlýsta svæðið er 1,5 hektarar.

Reglur: Um friðlýsta svæðið gilda ákveðnar reglur samkvæmt náttúruverndarlögum. Jarðvegsnám og aðrar framkvæmdir eru bannaðar nema með leyfi frá Umhverfisstofnun. Ganga skal snyrtilega um svæðið og gæta þess að valda ekki tjóni á jarðminjum.

Samgöngur:

  • Bílastæði við Vesturbrún.
  • Strætó: Leið 14 – Stöð: Hólsvegur



Jarðfræði

Jarðminjarnar á svæðinu eru afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Um er að ræða grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem tilheyra stóru Reykjavíkurgrágrýtismynduninni. Aldur grágrýtisins í Laugarási er líklega um 200 þúsund ára þegar upphleðsla Reykjavíkurgrágrýtisins var sem viðamest. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið í Laugarási eins og víða annars staðar í Reykjavík og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi. Ummerkin eru svipuð og sjá má í Öskjuhlíð þó í minna mæli séu.

Heimildir

  • Auglýsing um Friðlýsingu Laugaráss í Reykjavík (1982). Stjórnartíðindi, B-deild, nr. 41.
  • Árni Hjartarson (1980): Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík of nágrenni, Náttúrufræðingurinn, 50:108-117
  • Ljósmynd: Snorri Sigurðsson.