Klípusögur

Hér má finna nokkrar klípusögur sem gott getur verið að leyfa nemendum að spreyta sig á. Tilvalið er að skipta nemendum í litla hópa og hver hópur fær eina sögu sem þau eiga að ræða um og koma með tillögur að lausn við. Í lokin les einn úr hverjum hópi upp sögu hópsins og tillögu hópsins að lausn auk þeirra vandkvæða sem gera úrlausnina erfiðari ef svo ber við. Kennari býður svo hinum í bekknum að koma með athugasemdir eða bæta við úrlausnina.

  • Kennari getur einnig bætt við vangaveltum og hliðum á málinu til að fá nemendur til að hugsa enn víðar og enn dýpra um þá stöðu sem fylgir hverri sögu.
  • Önnur útfærsla getur verið að allir litlu hóparnir fá sömu söguna til að leysa og svo les einn úr hverjum hópi tillögu hópsins. Svo eru tillögurnar allar ræddar í sameiningu og besta lausnin fundin.

Klípusaga 1

15 ára strákur er hrifinn af öðrum strák í skólanum sínum. Þeir hafa verið saman í bekk lengi en þekkjast samt ekki mikið. Þeir hafa horfst í augu og brosað til hvors annars og hann heldur að hrifningin sé gagnkvæm en er ekki alveg viss. Hvað ætti hann að gera?

Klípusaga 2

14 ára stelpa sem er með frekar stór brjóst miðað við jafnöldrur sínar og miðað við líkamsþyngd (hún er frekar grönn). Hún fær óþarfa athygli og reglulegar athugasemdir frá bekkjarfélögum sínum varðandi brjóstin. Nokkrir strákar í skólanum eru sífellt að biðja hana að senda sér myndir af brjóstunum og nokkrar stelpur í bekknum gagnrýna hana fyrir að ganga í þröngum fötum og hvísla á bak við hana að hún sé drusla sem er stöðugt að biðja um athygli. Hvað getur hún gert?

Klípusaga 3

12 ára strákur er heima hjá vini sínum eftir skóla ásamt fleiri strákum og einn þeirra kveikir á klámi í tölvunni. Honum líður óþægilega og langar ekki að horfa á þetta en hinir strákarnir virðast allir vera spenntir fyrir þessu og tala eins og þeir horfi oft á klám og það sé eitthvað sem allir strákar gera. Hann er ekki sammála því en langar ekki að vera sá eini sem vill ekki horfa. Hann veit ekki hvort hann á að segja eitthvað eða hvað hann getur sagt. Hvað finnst þér að hann ætti að gera?

Klípusaga 4

Tvær 16 ára stelpur hittast á Smitten og ákveða að hittast heima hjá annarri og horfa saman á Netflix í herberginu hennar. Þær kúra saman og byrja svo að kyssast og strjúka hvor annarri utan klæða. Önnur stelpan finnur að hana langar að ganga lengra og byrjar að afklæða hina stelpuna, en finnur þá að hún dregur sig aðeins til baka, en heldur samt áfram að kyssa og strjúka. Sú fyrri er ekki viss um að þær vilji það sama og veit ekki hvort hún á að halda áfram eða hætta. Hvernig getur hún vitað hvað hin vill eða vill ekki? Hvað ætti hún að segja eða gera?

Klípusaga 5

15 ára strákur sýnir vini sínum albúm sem hann er með í símanum sínum. Þar eru fullt af ljósmyndum af stelpum, bæði sem hann þekkir og sem hann þekkir ekki. Þarna eru bæði andlitsmyndir en líka margar myndir af nöktum líkömum eða jafnvel bara af brjóstum, rössum og píkum. Vinurinn segist hafa verið lengi að safna þessu og býðst til að skiptast á myndum ef hinn á einhverjar myndir til að deila líka. Strákurinn veit að það má ekki sýna og deila áfram svona myndum af öðrum en veit ekki hvað hann getur sagt eða hvað hann á að gera. Hann óttast að fá vin sinn upp á móti sér ef hann segir eitthvað en hvað gæti hann sagt eða gert?

Klípusaga 6

12 ára stelpa segir vinkonum sínum frá því að hún eigi vin á Snapchat sem gefur henni 5000 kr í hvert sinn sem hún sendir honum mynd af sér í nærfötum og hann sé tilbúinn til að borga henni 15000 ef hún sendir honum vídeó. Hann er líka búinn að biðja hana að hitta sig í Kringlunni því hann langar að gefa henni einhverja fallega gjöf. Hún er mjög spennt fyrir þessu en segir stelpunum samt að þetta sé leyndarmál og þær megi ekki segja neinum frá. Hvað geta þær gert?

Klípusaga 7

15 ára stelpa segir vinkonum sínum frá því að hún og kærastinn hennar séu farin að stunda kynlíf saman. En hún segir þeim líka að oft suði hann í henni um að gera eitthvað sem hana langar ekki til að gera. Henni finnst erfitt að segja nei við hann því hún óttast að þá sé hún ekki góð kærasta og reynir því að svara engu eða breyta um umræðuefni þegar hann biður hana um eitthvað þannig. Hann veitir því ekki athygli og heldur áfram að suða og hættir ekki fyrr en hún segir já eða gerir bara það sem hann vill. Stelpan biður vinkonur sínar um að segja engum frá því hún vill ekki að þetta spyrjist út en segir þeim þó að sér líði mjög óþægilega með þetta. Hún vill vera með honum en samt er hún alltaf kvíðin yfir þessu kynferðislega. Hvað er til ráða?

Klípusaga 8

15 ára stelpa segir vinkonum sínum frá því að hún og kærastinn hennar séu farin að stunda kynlíf saman. En hún segir þeim líka að oft suði hann í henni um að gera eitthvað sem hana langar ekki til að gera. Henni finnst erfitt að segja nei við hann því hún óttast að þá sé hún ekki góð kærasta og reynir því að svara engu eða breyta um umræðuefni þegar hann biður hana um eitthvað þannig. Hann veitir því ekki athygli og heldur áfram að suða og hættir ekki fyrr en hún segir já eða gerir bara það sem hann vill. Stelpan biður vinkonur sínar um að segja engum frá því hún vill ekki að þetta spyrjist út en segir þeim þó að sér líði mjög óþægilega með þetta. Hún vill vera með honum en samt er hún alltaf kvíðin yfir þessu kynferðislega. Hvað er til ráða?

Klípusaga 9

14 ára strákur sem var reiður út í vin sinn eftir að þeim lenti saman á æfingu er að spjalla við annan vin sinn á Snapchat og talar illa um þann sem hann var reiður út í. Hann sagði ýmislegt sem hann meinti ekki, en sagði bara í reiði. Honum fannst hann bara vera að losa um reiðina og að þetta væri bara á milli hans og vinarins. En daginn eftir þegar hann mætir í skólann hefur vinurinn sagt bæði hinum stráknum hvað hann sagði og öllum hinum strákunum. Þeir eru allir reiðir, finnst þetta mjög léleg hegðun. Þeir ýta í hann, segja ljót orð við hann og færa sig svo allir í burtu frá honum. Hann situr einn í skólanum, enginn vill tala við hann og enginn vill hlusta á hann biðjast afsökunar eða reyna að útskýra. Hann reynir að senda strákunum snap en þeir seena hann bara og svara ekki til baka. Eftir nokkra daga hefur ástandið versnað enn meira þar sem stelpurnar í bekknum hafa frétt að hann sé fáviti og þær hætta að tala við hann líka. Hann sér eftir því sem hann sagði en upplifir að enginn vilji heyra hann útskýra, hann saknar vina sinna og líður mjög illa. Hvað er til ráða?

Klípusaga 10

Ein af vinsælustu stelpunum í 9. bekk býr til bekkjargrúbbu á Snapchat og addar öllum krökkunum í bekknum nema einni stelpu sem heitir Marta. Hún skírir hópinn VHM og segir krökkunum að það standi fyrir Við hötum Mörtu en að ef einhverjir fullorðnir sjái hópinn og spyrji þá eigi þeir að segja að þetta þýði Viltu hitta mig? Krakkarnir í bekknum vita ekki af hverju hún hatar Mörtu og mörgum þeirra líður óþægilega með þetta. En meirihlutinn gerir engar athugasemdir og þarna inni er ekki bara verið að tala illa um Mörtu heldur er oft skemmtilegt spjall og stundum verið að plana ýmislegt eins og að hittast á körfuboltavellinum á kvöldin eða fara saman í ísbúðina. Þeim sem líður illa með þessa grúbbu vilja samt ekki missa af því sem þarna fer fram. Hvað er til ráða?