Unglingasmiðjur

Unglingasmiðjurnar Stígur og Tröð eru öruggur vettvangur fyrir unglinga á aldrinum 13-18 ára til að stíga út úr þægindarammanum og þjálfa sig í að eiga samskipti við jafningja, styrkja sjálfsmynd sína, tjá sig af einlægni, setja sig í spor annarra og læra að treysta.

Hvernig sæki ég um?

Unglingasmiðjurnar eru hluti af stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Fyrsta skrefið í að sækja um stuðningsþjónustu er að bóka símtal frá ráðgjafa.

Fyrir hverja eru unglingasmiðjurnar?

Starfsemi unglingasmiðjanna er fyrir unglinga sem eru á aldrinum 13-18 ára og búsett í Reykjavík. Starfsemin er sniðin að þörfum unglinga sem eiga það sameiginlegt að vera félagslega einangraðir auk þess að:

  • Hafa orðið fyrir einelti
  • Vera óframfærnir og/eða óvirkir
  • Sýna einkenni kvíða og/eða þunglyndis
  • Vera með lítið sjálfstraust og slaka sjálfsmynd
  • Vera með slaka félagsfærni
  • Búa við erfið uppeldisskilyrði

Hvað er gert í unglingasmiðjunum?

Meginmarkmið unglingasmiðjanna eru að veita unglingum öruggt rými til að æfa sig í samskiptum, styrkja sjálfsmyndina og fara smáum skrefum út fyrir þægindasvæðið með það í huga að virkja til einstaklinginn til þátttöku í sínu nærumhverfi. Það er meðal annars gert með því að vinna út frá reynslunámi og leita leiða til uppbyggilegra lausna, styrkja hópkennd, vinna með traust og virðingu og auka hæfni í félagslegum samskiptum. Í starfinu er áhersla lögð á samráð og valdeflingu einstaklingsins.

Kjarni starfseminnar felst í skipulögðu hópastarfi þar sem þátttakendur mæta tvisvar í viku og taka virkan þátt. Reglulegir fundir eru með hópunum í þeim tilgangi að auðvelda unglingunum að tjá sig af einlægni, auka hæfni þeirra til að setja sig í spor annarra og læra að treysta hvert öðru. Þannig læra þau einnig að segja sína skoðun ásamt því að virða skoðanir annarra. Þá er fengist við ýmis verkefni og fjölbreytta tómstundaiðju, en dagskráin byggist á hugmyndum og áhuga þátttakenda hverju sinni.

Auk þess er lögð áhersla á einstaklingsviðtöl og persónulegan stuðning.

Hvar eru unglingasmiðjurnar?