Nagladekk
Nagladekk eru ekki æskileg á götum borgarinnar af mörgum ástæðum. Þau slíta götunum hratt og örugglega og rekstrarkostnaður þeirra verður óþarflega mikill. Þau skapa hávaða sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að velja góð vetrardekk í staðinn. Síðast en ekki síst valda þau svifryki sem leggst í öndunarfæri og lungu fólks. Þau auka einnig eldsneytiskostnað bifreiða. Mikilvægt er því að draga úr hlutfalli þeirra.
Dýpt mynsturs í hjólbörðum hefur til að mynda áhrif á hversu gott grip þeirra er. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er krafist þriggja millimetra lágmarksdýptar mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða. Það dugar mjög vel í Reykjavík. Það er ekki bannað að nota nagladekk frá 1. nóvember til 15. apríl árlega en það er ekki æskilegt. Reykjavíkurborg hvetur ökumenn til að hugsa sig tvisvar um áður en nagladekk fara undir bílinn.
Sleppum nöglunum
Meira er ekki alltaf betra. Réttir hjólbarðar skila mestu öryggi og þá græða öll – við sjálf, göturnar og andrúmsloftið. Fram kom í fyrirlestri um um áhrif nagladekkja á loftgæði og gatnaslit, að nagladekk er ráðandi þáttur í svifryksmengun á höfuðborgarsvæðinu. „Bíll á nöglum mengar allt að 40 sinnum meira en bíll sem ekki er á nöglum," sagði Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og „Það er sinnum, ekki 20-40 prósent meira heldur 2000 prósent allavega."
Skaðsemi nagladekkja
Hlutfall negldra dekkja í október 2024 var 9,7%. Það er örlítið hærra en á sama tíma í fyrra en þá var hlutfallið 7%. Í lok nóvember 2023 var hlutfall negldra dekkja 28,9% og verður aftur gerð talning á sama tíma á þessu ári.
Staðreyndin er að nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík með því að slíta malbikið margfalt hraðar en önnur dekk, þau auka eldsneytiskostnað bifreiða, þau valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum með mengun. Af þeim sökum er mikilvægt að draga úr hlutfalli þeirra.
Draga þarf úr nagladekkjanotkun - rannsókn
Allt að 67 ótímabær andlát árlega má rekja til svifryks. Nagladekkjanotkun vegur einna þyngst í myndun þess.
Losun svifryks frá gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu – ferlar og líkan, sem styrkt var af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar er notast við NORTRIP líkanið til að spá fyrir um svifryk vegna bílaumferðar og fá vísbendingar um hvað þurfi að gera til að sporna við svifryksmengun. Ein af niðurstöðum skýrslunnar er sú að verulega þurfi að draga úr nagladekkjanotkun en næmnigreining gefur til kynna að nagladekkjanotkun sé lang veigamesti þátturinn í myndun svifryks frá umferð á höfuðborgarsvæðinu.
NORTRIP líkanið (Non-Exhaust Road Traffic Induced Particle Emissions) var þróað á Norðurlöndum en það spáir fyrir um um hlut svifryks í andrúmslofti vegna bílaumferðar með því að líkja eftir ferlum gatnasvifryks.
Verkefnið var unnið á tímabilinu 1. ágúst 2019 til 1. júlí 2020.
Skýrslan Processes and Modeling of Non-Exhaust Vehicular Emissions in the Icelandic Capital Region var unnin af Brian C. Barr, meistaranemanda við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands en verkefnastjóri var Hrund Ó. Andradóttir, prófessor við umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ. Brian flutti fyrirlestur um efni skýrslunnar á Rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar haustið 2019.
Hvað er svifryk?
Nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík með því að slíta malbikið margfalt hraðar en önnur dekk. Þau auka eldsneytiskostnað bifreiða og valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum með mengun. Niðurstöður rannsókna styðja eindregið þann grun að vægi sóts í svifryki hefur vaxið mjög á síðustu árum sem má sennilega rekja til mikillar aukningar bílaumferðar.