Mitt hverfi - Hlíðar
Tillögur hverfisskipulags miða að því að fegra og bæta almenningsrými í hverfinu með sérstakri áherslu á borgargötur og nýtt hverfistorg. Um leið er hugað að ýmsum nauðsynlegum innviðum svo að hverfin þroskist og þróist í takt við breyttar áherslur. Þá eru gerðar tillögur um hverfisvernd á tiltekna hverfishluta og á Klambratún til að standa vörð um sérkenni hverfisins og einstakan staðaranda.
Holtatorg
Hverfisskipulag Háteigshverfis gerir ráð fyrir nýju torgi við mót Skipholts, Stórholts og Einholts þar sem í dag eru bílastæði. Í tillögunum hefur þetta nýja torg verið kallað Holtatorg þótt ekki sé búið að ákveða formlega nafn á torgið.
Hugmyndirnar fengu góðar viðtökur þegar þær voru kynntar og í hverfisskipulagi er gert ráð fyrir að torgið byggist upp í tengslum við endurhönnun borgargötunnar við Skipholt og Stórholt. Við hönnun torgsins verður lögð áhersla á grænt yfirbragð til að búa til aðlaðandi dvalarsvæði á þessum stað þar sem borgargatan með fjölbreyttri verslun og þjónustu mætir þéttri íbúðabyggð.
Myndasafn
Borgargötur endurhannaðar
Til að bregðast við athugasemdum sem bárust á auglýsingatíma skipulagsins var ákveðið að stækka afmörkun borgargatna í Háteigshverfi þannig að hluti Háteigsvegar er nú skilgreindur sem borgargata. Borgargöturnar ná því nú yfir Skipholt og hluta Rauðarárstígs og Háteigsvegar auk þess sem Langahlíð og Hamrahlíð eru borgargötur í Hlíðahverfi. Hverfisskipulag leggur áherslu á að umhverfi borgargatna verði endurhannað og fegrað. Auk þess er Snorrabraut skilgreind í aðalskipulagi sem tengibraut sem skuli vera í forgangi þegar kemur að endurhönnun og fegrun gatna,
Endurhönnun borgargatna getur breytt ásýnd hverfa, dregið úr umferðarhraða og aukið öryggi og lífsgæði íbúa. Aukið verður við trjágróður og lögð áhersla á hverfistorg og almenningsrými við göturnar sem nýtast íbúum. Samhliða endurhönnun Skipholts og endurnýjun byggðarinnar að Laugavegi getur orðið til lífleg gata með fjölbreyttri verslun og mannlífi sem framlengir miðborgina til austurs.
Myndasafn
Hverfisvernduð svæði í Hlíðum
Þónokkrar athugasemdir voru gerðar við hverfisverndartillögur í hverfisskipulagi á auglýsingatímanum. Hverfisvernd er ætlað að standa vörð um mikilvæg einkenni heildstæðrar eldri byggðar og draga fram sérstöðu ákveðinna hverfishluta. Hverfisvernd getur því takmarkað heimildir til breytinga og þannig verið íþyngjandi fyrir íbúa. Skipulagsfulltrúi lét vinna sérstaka endurskoðun á því varðveislumati sem lá til grundvallar tillögum að hverfisvernd og á grunni hennar, og með tilliti til athugasemda sem bárust, var tekin ákvörðun um að draga talsvert úr hverfisverndartillögum frá því sem áður var auglýst.
Hluti byggðarinnar í Norðurmýri og Rauðarárholti fær hverfisvernd í gulum flokki ásamt röð fjölbýlishúsa við Stigahlíð. Þá fá nokkur hús verndun í rauðum flokki eins og sjá má á mynd hér að neðan.
Myndasafn
Grenndarstöðvar
Með hverfisskipulagi er staðsetning grenndarstöðva fest í skipulagi. Við staðsetningu er horft til þess að grenndarstöðvar séu í göngufæri við sem flesta íbúa hverfisins.
Grenndarstöð á bílastæði við Klambratún er með þeim vinsælustu í borginni og verður hún áfram þar en gert er ráð fyrir að stöðinni verði komið fyrir í djúpgámum. Við botn Eskihlíðar er einnig grenndarstöð sem áfram verður á sínum stað. Stöð sem í dag er við Hamrahlíð/Stigahlíð mun áfram verða á svipuðum slóðum en fallið var frá hugmyndum um að færa hana til móts við Stigahlíð 2-4 í kjölfar athugasemda sem bárust. Grenndarstöðin við Bólstaðarhlíð mun færast sunnar við götuna, nær leikskólanum Stakkaborg. Þá mun nýrri grenndarstöð verða komið fyrir í djúpgámum við nýtt Holtatorg þegar það verður tekið í notkun.
Myndasafn
Skólar og leikskólar
Samhliða vinnu við hverfisskipulag hefur verið haft gott samstarf við skóla- og frístundasvið við greiningu á húsnæðisþörf leik- og grunnskóla í hverfinu út frá mannfjöldaspám og uppbyggingaráætlunum í hverfunum.
Á grundvelli þessara greininga veitir hverfisskipulag skólunum mjög rúmar byggingarheimildir svo að hægt sé að bregðast við fjölgun nemenda og breyttum þörfum. Viðbyggingarmöguleikar á hverjum stað hafa verið skoðaðir og veittar eru umtalsverðar nýjar viðbyggingarheimildir, þar sem aðstæður leyfa. Einnig fá skólar og leikskólar mjög rúmar heimildir fyrir tímabundnu húsnæði á lóðum sem getur verið mikilvægt þegar bregðast þarf hratt við breyttri húsnæðisþörf.