Grænar áherslur í Hlíðum

Í tillögum hverfisskipulags er lögð sérstök áhersla á að styrkja og vernda Klambratún sem eitt mikilvægasta opna svæðið í borginni. Sérstök kyrrlát svæði eru skilgreind í hverfunum, kveðið á um borgarbúskap og gefnar heimildir fyrir sorpskýlum og gerðum á lóðum. Þannig er íbúum auðveldað að flokka rusl og koma sorpílátum fyrir á snyrtilegan hátt. 

Klambratún - mikilvægt grænt svæði

Klambratún er annað af tveimur mikilvægustu grænu svæðunum í borgarhlutanum. Hitt er að sjálfsögðu Öskjuhlíð. Klambratún er eitt af mest sóttu almenningssvæðunum í borginni. Túnið heitir eftir bænum Klömbrum, en bæjarheitið Klambrar er dregið af orðinu „klömbrur“ sem merkir þrengsli. Klambratún fékk heitið Miklatún haustið 1964 og hélst það heiti þar til 2010 er nafnið Klambratún var aftur tekið í almenna notkun. Túnið hefur verið opið svæði innan byggðar frá því Norðurmýrin og Hlíðarnar byggðust upp snemma á 20. öldinni en varð ekki formlega almenningsgarður fyrr en um 1964.

Hverfisvernd

Klambratún er einn stærsti almenningsgarðurinn sem var sérstaklega hannaður sem hluti af aðalskipulagi borgarinnar. Reynir Vilhjálmsson landslagsarkitekt hannaði garðinn og lagði áherslu á aðlaðandi garðsvæði með mörgum rýmum sem bjóða upp á fjölbreytta notkun. Hönnun Reynis hefur í flestum aðalatriðum haldið sér og til að tryggja að svo verði áfram og til að standa vörð um þetta mikilvæga græna svæði í hverfinu er lagt til að garðurinn verði hverfisverndaður.

Almenningssalerni

Á svæðinu austan við Kjarvalsstaði, þar sem lengst af hefur verið verkbækistöð garðyrkjunnar, er gert ráð fyrir að umfang starfseminnar minnki mikið. Heimilt verður að rífa núverandi mannvirki á svæðinu eða nýta þau fyrir aukna þjónustu við gesti garðsins, til dæmis fyrir almenningssalerni sem mjög hefur verið kallað eftir.

Lausagöngusvæði fyrir hunda

Hundaeigendur hafa verið mjög duglegir að nýta Klambratún undanfarin ár. Síðustu mánuði hafa verið gerðar tilraunir með að heimila lausagöngu hunda á takmörkuðu svæði og tíma í garðinum. Í tillögum hverfisskipulags er gert ráð fyrir að útbúið verði lausagöngusvæði fyrir hunda á hluta þess svæðis sem nú er umhverfis verkbækistöðina sem senn víkur. Svæðið verður afmarkað svo að ferfætlingar og eigendur þeirra fái að njóta sín á öruggu svæði í fjarlægð frá öðrum notendum garðsins.

Áframhaldandi þróun Klambratúns

Undanfarin ár hafa verið framkvæmdir og uppbygging á Klambratúni í takt við stefnumörkun sem gerð hefur verið fyrir túnið og tekur mið af upprunalegri hönnun Reynis Vilhjálmssonar. Leiksvæði hefur verið stækkað og þungamiðja garðsins er nýtt dvalarsvæði og torg sem komið hefur verið fyrir sunnan við Kjarvalsstaði. Við hönnun og efnisval svæðisins var tekið mið af Kjarvalsstöðum. Áfram verður unnið eftir þessari stefnumörkun sem meðal annars gerir ráð fyrir fjölbreyttu hreyfisvæði við núverandi sparkvöll og klifurstein. Svæðinu verður skipt upp í misstór svæði til iðkunar á fjölbreyttri hreyfingu. Þá er gert ráð fyrir tjörn í vesturenda garðsins sem mun taka á móti yfirborðsvatni og getur nýst sem vaðlaug á sumrin og skautasvell á veturna.

 

 

Sorpgerði og sorpskýli á lóðum

Undanfarin ár hafa kröfur um flokkun á sorpi aukist mikið og sorpílátum fjölgað við hvert hús. Í eldri byggð er oft erfitt að mæta þessum kröfum í núverandi húsnæði svo vel sé.

Með hverfisskipulagi fá íbúar heimildir til að byggja sorpgerði á lóðinni svo snyrtilega megi koma fyrir sorpílátum og auðvelda flokkun. Á stórum fjölbýlishúsalóðum má einnig byggja sameiginleg sorpskýli fyrir alla lóðina eða koma fyrir djúgámum ef aðstæður leyfa.

Þessar heimildir eru ekki eingöngu hagnýtar fyrir íbúa heldur geta þær auðveldað og flýtt fyrir sorphirðu mjög víða.  

Kyrrlát svæði

Í hverfisskipulagi er lögð áhersla á að skilgreina í öllum hverfum sérstök kyrrlát svæði, þar sem skjól ætti að vera frá hljóðmengun og annarskonar áreiti. 

Í Háteigshverfi er gert ráð fyrir kyrrlátu svæði á grænu svæði í Rauðaráholti milli Meðalholts og Háteigsvegar. Kyrrlátt svæði í Hlíðahverfi verður skilgreint á opnu svæði milli Grænuhlíðar og Hamrahlíðar. Hanna þarf svæðin sérstaklega, eða hluta þeirra, mið hliðsjón af þessu og annarri notkun þeirra. 

Borgarbúskapur

Í skilmálum hverfisskipulags eru veittar heimildir fyrir borgarbúskap á lóðum. Einnig hafa verið gefnar út leiðbeiningar um borgarbúskap sem geta hjálpað íbúum að stíga fyrstu skrefin og gefið hugmyndir.

Í íbúakosningu meðal íbúa í Hlíðum árið 2022 var tekin ákvörðun að byggja upp aðstöðu fyrir borgarbúskap á opnu svæði sunnan við Meðalholt. Slík notkun á svæðinu fer vel með afmörkun á hluta svæðisins fyrir kyrrlátt svæði. Skilmálar hverfisskipulags gera ráð fyrir að hægt verði að fjölga slíkum svæðum á borgarandi.