Hitaveitustokkurinn

Í hugmyndum að vinnutillögum hverfisskipulags Háaleitis-Bústaða er lagt til að hefja gamla hitaveitustokkinn til vegs og virðingar á ný sem hryggjarstykki Bústaðahverfisins og kennileiti sem styrki bæði staðaranda og bæti hverfisvitund.

Horft er til þess í hverfisskipulaginu að tengja hitaveitustokkinn við misstór áningar- og dvalarsvæði, með áhugaverðri aðstöðu fyrir unga jafnt sem aldna. Þar gætu til dæmis verið leiksvæði, árstíðabundin garðrými, þrekbrautir og fleira. Þá má nefna hugmyndir um heitar setlaugar eða fótaböð með beina tengingu við hitaveitustokkinn og þá heitu æð sem þar er undir!

Kennileiti hverfisins

Í vinnutillögum að hverfisskipulagi Háaleitis-Bústaða er sú hugmynd sett fram að hitaveitustokkurinn, sem teygði sig frá Reykjum í Mosfellssveit að tönkunum í Öskjuhlíð, verði hluti af göngu- og hjólastígakerfi borgarhlutans.

Stokkurinn var lengsta hitaveitulögn í heimi á sínum tíma, 15 km langur og vegna hitans festi ekki snjó á honum. Hann var því mikilvæg gönguleið milli bæði hverfa og sveitarfélaga, enda var hann á sínum tíma fyrsta mannvirkið sem brúaði nokkur vatnsföll á leiðinni frá Mosfellssveit til borgarinnar.

Segja má að þessi hugmynd sé í takt við stefnumótun aðalskipulagsins um að styrkja vistvæna samgöngumáta innar hverfiseininga. Hún svarar líka ábendingum íbúa úr fyrra samráðsferli, um að það vanti kennileiti inn í hverfin sem tengir hverfin við söguna og verði merkt sérstaklega sem sögustaðir og/eða borgarminjar.

Tillagan styrkir vistvæna samgöngumáta innar hverfisins og svarar líka ábendingum íbúa í samráðsferli hverfisskipulagsins um að það vanti kennileiti inn í hverfin.

Einstök gönguleið og upplifun

Stokkurinn þótti einstök gönguleið, sannkölluð upplifun og ef þessar hugmyndir ná fram að ganga yrði hann nú líka kjörin aðaltenging skólanna við hverfin, góð og þægileg gönguleið fyrir unga sem aldna til að fara á milli staða, „ástarbrautin“ eftir skólaböll og leikvöllur fyrir börn á öllum aldri.

Hitaveitustokkurinn má í dag muna fífil sinn fegri. Honum hefur verið spillt á löngum kafla eða hann grafinn niður og er hann helst heillegur þar sem hann liggur um Bústaðahverfi niður í Elliðaárdal og í Ártúnsbrekku inn í Árbæ.

Meðfram hitaveitustokknum og upp að honum liggja í dag skólalóðir, leikskólalóðir, íbúðir aldraðra og almenn íbúðabyggð.

Menningar- og söguás

Það er mat ráðgjafa hverfisskipulagsins að gangi hitaveitustokkurinn í endurnýjun lífdaga með þessum hætti, muni það styrkja bæði staðaranda og bæta hverfisvitund í Bústaðhverfi. Hitaveitustokkurinn verði á ný hluti af daglegu lífi íbúanna, bæði sem kennileiti og gönguleið sem bjóði upp á skemmtilega upplifun.