Grænar áherslur

Hverfisskipulag - grænar áherslur

Í hverfisskipulagi er lögð áhersla á að vernda gróður og styrkja opin svæði í hverfunum. Hverfisgarðar, leiksvæði og kyrrlát svæði eru skilgreind í öllum hverfum til að hvetja til útivistar og bættrar lýðheilsu. Einnig er hugað að flokkun á sorpi og reynt að draga úr hljóð- og loftmengun innan íbúðarbyggðar.

Góð almenningsrými styrkja hverfisvitund og styðja við vistvæna ferðamáta.

Opin svæði

Aðgengi að opnum og grænum svæðum er misgott eftir hverfum, Þau eru þó innan allra hverfa, misstór og hvert með sinn karakter. Hverfisskipulag leggur áherslu á að ný byggð sé að langmestu leyti skipulögð á svæðum þar sem þegar hefur verið gert ráð fyrir uppbyggingu í aðalskipulagi eða á svæðum sem illa nýtast til útivistar, svo sem meðfram umferðargötum. Þannig má standa vörð um opin svæði og gæði þeirra þó byggðin sé þétt.

Almenningsrými í borginni eru mikilvæg fyrir velferð og lýðheilsu íbúa. Opin svæði (eða græn svæði) eru almenningsgarðar og dvalar- og leiksvæði þar sem borgarbúar dvelja við útivist, leiki og slökun utandyra. Í hverfisskipulagi eru opin svæði innan hverfanna fest í sessi og hlutverk þeirra og notkun skilgreind nánar.

Almenningsgarðar

Stærstu almenningsgarðar innan Reykjavíkur eru svokallaðir borgargarðar sem alla jafna eru ekki hluti af hverfisskipulagi heldur hafa þeir sitt eigið deiliskipulag. Þeir eru Laugardalur, Elliðaárdalur, Fossvogsdalur og Öskjuhlíð, auk Grafarvogs og Úlfarsárdals. Aðrir almenningsgarðar eru hverfisgarðar sem geta verið af öllum stærðum og gerðum. Garðar og gróður eru mikilvægir fyrir velferð og lýðheilsu íbúa en ekki síður fyrir fjölbreytt dýralíf inn borgarmarkanna.

Kyrrlát svæði

Hávaðamengun er alvarlegur heilsuspillandi þáttur í borgum víðs vegar um heim og aðgengi að kyrrlátum svæðum getur haft jákvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan íbúa. Í hverfisskipulagi er lögð áhersla á að skilgreina í öllum hverfum sérstök kyrrlát svæði, þar sem skjól ætti að vera frá hljóðmengun og annarskonar áreiti. Kyrrlátu svæðin eru innan opinna og grænna svæða í borginni og geta verið ólík innbyrðis, allt frá óröskuðum náttúrulegum svæðum til dvalarsvæða sem hafa verið hönnuð og útbúin sérstaklega. Mestu máli skiptir að umhverfi, umgjörð og aðstæður séu kyrrlátar, aðlaðandi og róandi.

Leik- og dvalarsvæði

Í Reykjavík er mikill fjöldi leiksvæða og annarra grænna svæða þar sem íbúar geta komið saman eða slakað á. Þar eru gjarnan bekkir og borð og aðrir innviðir sem hvetja fólk til að staldra við, koma saman og slaka á. Í skipulagi er slík svæði oftast kölluð dvalarsvæði. Leik- og dvalarsvæði geta verið innan borgar- og hverfisgarða en einnig oft á öðrum minni grænum svæðum innan hverfanna.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Skilmálar hverfisskipulags kveða á um að leggja skuli áherslu á blágrænar ofanvatnslausnir á lóðum og borgarlandi. Blágrænar ofanvatnslausnir miða að því að halda halda úrkomu sem mest í náttúrulegri hringrás í stað þess að veita henni í niðurföll og í lögnum út í sjó.

 

Í stuttu máli má segja að blágrænar lausnir leggi áherslu á að vatn eigi sem greiðasta leið í gegnum yfirborð og sé síað í gegnum jarðveginn sem hreinsar það og brýtur niður mörg mengandi efni. Gróður getur tekið til sín og nýtt talsvert af regnvatninu og því fylgja blágrænum lausnum aukin umhverfisgæði. Um leið eru minni líkur á flóðum þegar frárennslislagnir anna ekki vatnsmagninu og að skólp, óæskileg efni eða mengað vatn berist út í sjó.

Borgarbúskapur

Í skilmálum hverfisskipulags eru veittar heimildir fyrir borgarbúskap á lóðum og víða á borgarlandi. Einnig hafa verið gefnar út leiðbeiningar um borgarbúskap sem geta hjálpað íbúum að stíga fyrstu skrefin og gefið hugmyndir.

 

Með borgarbúskap er átt við ræktun á matvælum, svo sem grænmeti og kryddjurtum, og einnig hænsnahald innan þéttbýlis. Búskapur getur haft marga kosti fyrir íbúa, stuðlað að aukinni útiveru og lýðheilsu, styrkt tengsl nágranna og gefið af sér hollt og góða matvöru.

Úrgangur og flokkun

Skilmálar hverfisskipulags um meðhöndlun úrgangs miða að því að gera íbúum auðvelt fyrir að auka flokkun úrgangs heima við og að koma ílátum fyrir sorp snyrtilega fyrir á lóðinni. Þannig getur verið heimilt að útbúa skýli eða gerði á lóðinni eða jafnvel djúpgámum á lóðum stórra fjölbýlishúsa. Hafa þarf í huga að fylgja þarf útgefnum hönnunarviðmiðum Reykjavíkurborgar fyrir úrgangslausnir.

Hverfisskipulag - úrgangur og flokkun

Rafhleðslustæði

Til að auðvelda orkuskipti í samgöngumálum heimilar hverfisskipulag að komið sé fyrir rafhleðslubúnaði við bílastæði, bæði innan lóða og á borgarlandi. Einnig er gert ráð fyrir að hugað sé að almennum rafhleðslustöðvum miðsvæðis í hverfunum, til dæmis í tengslum við endurhönnun á borgargötum og nærri hverfiskjörnum.

Teikning af flækju með laufblaði