Leyfisveitingar hjá Umhverfiseftirliti

Teikning af fólki að setja saman turn úr spaghetti.

Umhverfiseftirlitið sér um útgáfu starfsleyfa og staðfestir skráningar til fyrirtækja og stofnana sem veita almenningi þjónustu eða eru mengandi.

Starfsleyfi eða skráning?

Hvað er starfsleyfisskylt og hvað er skráningarskylt?

Starfsleyfi

Skráning

Áður en sótt er um

Rekstraraðila ber að sækja um starfsleyfi til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eða skrá starfsemi sína á island.is áður en starfsemi hefst. Áður en sótt er um starfsleyfi eða skráningu skal umsækjandi fá staðfestingu byggingarfulltrúa á að húsnæði og starfsemi sé í samræmi við skipulag og ákvæði byggingarreglugerðar. Umsækjandi skal jafnframt hafa gengið úr skugga um að húsnæðið og starfsemin sem ætlunin er að starfrækja starfsemi í, sé í samræmi við síðustu samþykktu teikningar af húsnæðinu.

Hvernig er ferlið?

Þegar fullnægjandi umsókn um starfsleyfi eða skráningu, hefur borist frá rekstraraðila ásamt áskildum fylgigögnum, þ.m.t. upplýsingar um rekstraraðila, lýsing á starfsemi og umfangi hennar, upplýsingar um innra eftirlit og staðfesting byggingarfulltrúa, ásamt öðrum gögnum í samráði við heilbrigðisfulltrúa, verður umsókn tekin til vinnslu. Athugið að vinnsla hefst ekki fyrr en öll gögn hafa borist Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.    

Hluti af vinnslu starfsleyfis er að komið er í eftirlit í starfsstöð umsækjanda þar sem farið er yfir starfsemi, húsnæði, búnað o.fl.

Umsóknin er lögð fyrir afgreiðslufund Heilbrigðiseftirlitsins (að loknum auglýsingatíma þegar við á) til afgreiðslu. Afgreiðslufundir eru vikulega á fimmtudögum.

Auglýsingar

Auglýsa þarf tillögu að starfsleyfum sem Heilbrigðiseftirlitið gefur út í fjórar vikur samkvæmt reglugerð nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit og reglugerð nr. 903/2024 um hollustuhætti.

Auglýst er á vefsvæði Heilbrigðiseftirlitsins. Á auglýsingatíma má hver sem vill senda efnislegar athugasemdir við tillöguna á netfangið heilbrigdiseftirlit@reykjavik.is.

Hvernig fæ ég útgefið starfsleyfi eða staðfestingu á skráningu?

Heilbrigðiseftirlitið sendir tilkynningu um samþykkt leyfisins ásamt reikningi fyrir leyfið. Starfsleyfi tekur gildi og skráning er staðfest þegar reikningur hefur verið greiddur. Leyfisbréfið er sent til leyfishafa. Óheimilt er að hefja starfsleyfisskylda/skráningarskylda starfsemi fyrr en leyfið/staðfesting hefur tekið gildi. 

Gildistími starfsleyfa fyrir starfsemi sem er starfsleyfisskyld eingöngu samkvæmt matvælalöggjöfinni er ótímabundinn en önnur starfsleyfi eru gefin út til 12 ára. Einnig eru gefin út tímabundin starfsleyfi eins og til dæmis fyrir útihátíðir og markaði. 
Staðfestar skráningar eru ótímabundnar.

Undanþága

Umhverfis- orku, og loftslagsráðherra er heimilt að veita undanþágu frá einstökum greinum reglugerða sbr. 41. gr. nr. 7/1998 og 12. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 903/2024, eftir atvikum að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar og Umhverfis- og orkustofnunar.

Bráðabirgðaheimild

Samkvæmt 7. gr. a. laga nr. 7/1998 er Umhverfis- og orkustofnun heimilt í sérstökum undantekningartilvikum, þegar brýn þörf er á að hefja eða halda áfram starfsemi, að veita rekstraraðila bráðabirgðaheimild að hans beiðni fyrir starfseminni. Umhverfisstofnun skal eftir atvikum leita umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar og annarra aðila eftir því sem við á.  

Skilyrði fyrir því að unnt sé að óska eftir bráðabirgðaheimild er að fullnægjandi umsókn liggi fyrir hjá útgefanda starfsleyfis.  

Nánari upplýsingar um umsókn, auglýsinga- og afgreiðslufrest er að finna í greininni.

Tóbakssöluleyfi

Allir sem selja tóbak í smásölu skulu hafa gilt tóbakssöluleyfi útgefið af heilbrigðisnefnd.

Teikning af eldri einstaklingi að lesa af blaði.

Sóttvarnarvottorð

Umhverfiseftirlit sér um útgáfu sóttvarnavottorða/sóttvarnaundanþágur fyrir skip samkvæmt alþjóðaheilbrigðisreglugerð WHO. Slík vottorð þurfa öll skip sem eru í millilandasiglingum og gilda vottorðin að hámarki í 6 mánuði.

Umsækjendum er beint á að hafa samband við Heilbrigðiseftirlitið og óska eftir skipaskoðun og vottorði. Greiða þarf vottorðsgjald ásamt gjaldi fyrir eftirlit sem er breytilegt eftir umfangi eftirlits.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur

  • Borgartún 12, 105 Reykjavík
  • Þjónustuver 411 1111