Ert þú ungmenni af erlendum uppruna á aldrinum 13 – 16 ára, sem býr í Reykjavík og hefur áhuga á að taka þátt í verkefninu Ungir leiðtogar? Þá erum við að leita að þér.
Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa Reykjavíkur hlaut styrk frá Evrópuráðinu til verkefnisins sem miðar að því að auka inngildingu og þátttöku ungs fólks af erlendum uppruna í samfélagslegri umræðu.
Verkefnið Ungir leiðtogar er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og Wroclaw í Póllandi en báðar borgirnar eru aðilar að samtökum Fjölmenningarborga, Intercultural cities hjá Evrópuráðinu.
Óskað er eftir ungmennum á aldrinum 13 – 16 ára sem eru af erlendum uppruna og hafa áhuga á málefninu og vilja taka þátt. Sækja þarf um þátttöku og verða ungmenni valin úr hópi umsækjenda til að taka þátt í verkefninu. Þau munu fá tækifæri til að kynnast og vinna með öðrum krökkum af erlendum uppruna sem búa í Reykjavík. Ungmennin fá fræðslu um mannréttindi og lýðræði, fordóma og hatursorðræðu auk þess fá þau tækifæri til að auka sjálfstraust, samskipti og leiðtogahæfni.
Hópurinn kemur saman einu sinni í viku með verkefnastjóra frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar þar sem rædd verða mannréttindamál frá ýmsum hliðum. Ungmennin fá svo fræðslu frá mennta- og þjálfunarfyrirtækinu Dale Carnegie. Fundirnir standa í einn til tvo klukkutíma í senn á meðan að á verkefninu stendur eða frá miðjum september þar til í lok nóvember 2024.
Í nóvember mun hópurinn fara í ferð til Wroclaw í Póllandi, sem er þeim að kostnaðarlausu, ásamt tveimur verkefnastjórum frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu. Þar hitta reykvísku ungmennin hóp pólskra ungmenna sem taka þátt í samskonar verkefni þar í borg og fá tækifæri til að kynnast, ræða saman um mannréttindi og skiptast á skoðunum um málefnið.
Ef þú hefur áhuga sendu okkur þá tölvupóst með nafni og kennitölu og svaraðu spurningunni: Hvers vegna skipta raddir ungmenna af erlendum uppruna máli?
Viltu vita meira? Þú finnur allar upplýsingar á heimasíðunni ungir leiðtogar.
Umsóknarfrestur er til 10. september 2024.