Ert þú ungmenni af erlendum uppruna?
Antirasistarnir og mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar leita að þátttakendum í verkefnið Ungir leiðtogar sem fer fram á haustönn 2025. Verkefnið er ætlað nemendum í grunn- eða framhaldsskólum í Reykjavík fæddum 2009-2012. Þátttakendur í verkefninu fá fræðslu um mannréttindi, lýðræði, fordóma og hatursorðræðu, auk þess að fá verkfæri til að auka sjálfstraust, samskipti og leiðtogahæfni.
Hópurinn kemur til með að hittast vikulega en auk þess verður farið í stutta námsferð út fyrir borgina á meðan að á verkefninu stendur. Þegar verkefninu lýkur fá öll viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.
Sæktu um!
Hljómar þetta spennandi? Ef já, sendu okkur tölvupóst með nafni og kennitölu og auk þess að svara tveimur spurningum:
- Hvers vegna skipta raddir ungmenna af erlendum uppruna máli?
- Ef að þú gætir breytt einhverju fyrir ungmenni af erlendum uppruna í Reykjavík, hverju myndir þú breyta?
Opið er fyrir umsóknir til og með miðvikudagsins 17. september.
Athygli er vakin á því að persónuupplýsingar umsækjanda verða eingöngu notaðar til að halda utan um skráningu þátttakenda í verkefninu hjá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Þeim verður ekki miðlað annað.
Hvað felst í Ungum leiðtogum?
Ungir leiðtogar er ætlað ungmennum af erlendum uppruna sem langar að fræðast um jafnréttismál, öðlast betri leiðtogafærni og hafa jákvæð áhrif á sitt nærsamfélag. Þátttakendur munu kynnast öðrum krökkum af erlendum uppruna sem ganga í skóla í Reykjavík.
8-10 ungmennum úr hópi umsækjenda verður boðið að taka þátt í verkefninu. Fundir hópsins koma til með að fara fram frá á íslensku og ensku en tekið verður mið af tungumálakunnáttu þátttakenda.
Hversu oft hittist hópurinn?
Hópurinn kemur til með að hittast vikulega ásamt leiðbeinendum frá Antirasistunum og mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Fundir hópsins koma til með að taka um 2 klst. í senn. Verkefnið stendur yfir frá því um miðjan september þar til í lok nóvember 2025.
Leiðbeinendur
Antirasistarnir
Við erum þrjár vinkonur sem stöndum á bak við instagramreikninginn Antirasistarnir. Við heitum Stína, Vala og Johanna. Við erum allar af erlendum uppruna og höfum upplifað rasisma bæði í æsku og á fullorðinsárunum. Þess vegna ákváðum við að skapa aðgerðarhóp sem berst gegn rasisma. Starfið okkar er mjög fjölbreytt. Við höfum m.a. haldið fræðslur víða, verið með hlaðvarp, og verið í samstarfi við aðra aðgerðarhópa og samtök. Grunnur vettvangs okkar er að auka samtal og fræðslu um rasisma á Íslandi. Málefnin sem við berjumst fyrir eru t.d. sýnileiki í samfélaginu, aukin fræðsla í skólum og umburðarlyndi.
Mannréttindaskrifstofa
Mannréttindaskrifstofa er samstarfsaðili verkefnisins. Skrifstofan fylgir eftir mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar sem byggir á jafnræðisreglunni. Hluti af okkar starfi er að hvetja öll sem búa í borginni til þátttöku í stjórnum, ráðum og nefndum. Með því að vinna með ungmennum af erlendum uppruna vonumst við að læra meira um hvað skiptir þennan hóp máli og hvernig við getum stutt við inngildingu í grunnskólum og víðar.
Meira um verkefnið
Hluti af áherslum mannréttindastefnunnar er að framlag hvers og eins skuli metið að verðleikum. Þá skal Reykjavíkurborg stuðla markvisst að aukinni þátttöku fólks af erlendum uppruna í málefnum borgarinnar og í stjórnum, ráðum og nefndum.
Persónuvernd
Reykjavíkurborg leggur áherslu á að öll vinnsla persónuupplýsinga innan sveitarfélagsins fari fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Kynntu þér málið.
Upplýsingar um vinnslu persónuupplýsinga vegna verkefnisins Ungir leiðtogar.
Fyrirspurnir og skráningar
Sendu okkur tölvupóst ef þú hefur frekari fyrirspurnir eða vilt fá meiri upplýsingar áður en þú sækir um.
Sendu tölvupóst á:
ungirleidtogar@reykjavik.is