Ert þú ungmenni af erlendum uppruna?

Þá erum við að leita að þér til að taka þátt í verkefninu Ungir leiðtogar.

Þú sem þátttakandi í verkefninu færð fræðslu um mannréttindi, lýðræði, fordóma og hatursorðræðu, auk þess að fá verkfæri til að auka sjálfstraust, samskipti og leiðtogahæfni. 

Í nóvember ferðumst við saman til Póllands í námsferð og þegar verkefninu lýkur færðu viðurkenningarskjal fyrir þátttökuna.

Sæktu um!

Hljómar þetta spennandi? Ef já, sendu okkur tölvupóst með nafni og kennitölu og auk þess að svara þessari spurningu: Hvers vegna skipta raddir ungmenna af erlendum uppruna máli?  

Átta ungmenni á aldrinum 13-16 ára verða valin til þátttöku í verkefninu.

Skilyrði er að eiga heima í Reykjavík.

Hvað felst í Ungum leiðtogum?

Boðið verður upp á fræðslu frá mennta-  og þjálfunarfyrirtækinu Dale Carnegie. Þátttakendur munu kynnast og vinna með öðrum krökkum af erlendum uppruna sem búa í Reykjavík.

Námsferð til Póllands

Í nóvember munu ungmennin ferðast saman ásamt tveimur verkefnastjórum frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu til Wroclaw í Póllandi og hitta þar önnur ungmenni sem einnig eru af erlendum uppruna og eru hluti af samskonar hóp í sinni borg. 

Ferðin er áætluð í byrjun nóvember 2024. 

Hversu oft hittist hópurinn?

Hópurinn kemur til með að hittast vikulega með verkefnastjóra frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar í 1-2 klst. í senn á meðan að á verkefninu stendur eða frá miðjum september þar til í lok nóvember 2024. 

 

Mannréttindastefna

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa sér um að framfylgja mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar. 

 

Mannréttindastefnan byggir á mannréttindum og jafnræðisreglunni og nær yfir málaflokka á borð við kynjajafnrétti, hinsegin málefni, fjölmenningu og inngildingu og fötlun. 

 

Skrifstofan sinnir einnig eftirfylgni með lýðræðisstefnu Reykjavíkurborgar. Á skrifstofunni starfa 12 sérfræðingar með ólíka menntun og bakgrunn.

Meira um verkefnið

Hluti af áherslum mannréttindastefnunnar er að framlag hvers og eins skuli metið að verðleikum. Þá skal Reykjavíkurborg stuðla markvisst að aukinni þátttöku fólks af erlendum uppruna í málefnum borgarinnar og í stjórnum, ráðum og nefndum.

Styrkur frá Evrópuráðinu

Ungir leiðtogar er nýtt verkefni sem hlaut styrk frá Evrópuráðinu, nánar tiltekið frá samstarfsverkefninu Fjölmenningarborgir eða Intercultural Cities. Verkefnið miðar að því að auka inngildingu og þátttöku ungs fólks af erlendum uppruna í samfélagslegri umræðu.

Verkefnið kemur til með að veita átta krökkum af erlendum uppruna tækifæri til að læra um mannréttindi og lýðræði, öðlast nýja færni og sjálfstraust og fá tækifæri koma sínum skoðunum á framfæri. Í lok árs 2024 mun mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa taka saman yfirlit yfir árangur verkefnisins sem verður aðgengilegt á heimasíðu borgarinnar.

Persónuvernd

Reykjavíkurborg leggur áherslu á að öll vinnsla persónuupplýsinga innan sveitarfélagsins fari fram í samræmi við ákvæði persónuverndarlaga. Kynntu þér málið.

Fyrirspurnir og skráningar

Sendu okkur tölvupóst ef þú hefur frekari fyrirspurnir eða vilt fá meiri upplýsingar áður en þú sækir um.

 

Sendu tölvupóst á:
gudrun.elsa.tryggvadottir@reykjavik.is