Tunnuskiptum lokið í Reykjavík

Sorphirða

Búið er að setja saman rúmlega 30 þúsund nýjar flokkunartunnur og dreifa þeim á heimilin í borginni en þar af er um helmingur tvískiptar tunnur. Myndir/Róbert Reynisson
Bíll með sorptunnum og fólk að vinna við tunnuskipti.

Tunnuskiptum vegna nýs flokkunarkerfis sorphirðu er lokið í Reykjavík en síðustu tunnunum var dreift í Fossvoginum í dag. Heildarumfang verksins er mikið en búið er að setja saman rúmlega 30 þúsund nýjar flokkunartunnur og dreifa þeim á heimilin í borginni en þar af er um helmingur tvískiptar tunnur. Búið er að dreifa körfum og bréfpokum til 57 þúsund heimila í borginni, sem þýðir að 4,4 milljón pokar fyrir lífrænan eldhúsúrgang rötuðu beint í eldhús Reykvíkinga.

280 tonnum af lífrænum úrgangi safnað í ágúst

Stærsta breytingin með tunnuskiptunum er söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Núna í ágúst var safnað rúmlega 280 tonnum af lífrænum úrgangi en megnið af því fór áður í gráu tunnuna. Þetta þýðir lækkað kolefnisspor með því að draga úr urðun. Í staðinn er búin til molta og næringin fer aftur inn í hringrásina. Einnig er búið til metan, sem er nýtt á margvíslegan hátt, meðal annars á alla fjórtán sorphirðubíla Reykjavíkurborgar.

280 tonn af lífrænum úrgangi þýðir að úrgangur til urðunar í Reykjavík hefur dregist saman um 21,5% nú þegar. Þessi tala eftir að hækka enn frekar nú þegar síðasta hverfið hefur bæst við í nýja kerfið.

20 þúsund ílát tekin til baka

Ekki hefur aðeins verið dreift nýjum ílátum en einnig er búið að taka hátt í 20 þúsund ílát til baka. Sum þeirra hafa verið endurmerkt og verða notuð undir plast í einhverjum hverfum. Aðrar af þessum tunnum hafa lokið hlutverki sínu en elstu tunnurnar eru frá því uppúr miðjum níunda áratuginum. Þær eru sendar til Sorpu í efnislega endurvinnslu og verða notaðar til dæmis í framleiðslu á öðrum sorptunnum.

Takk fyrir samvinnuna!

Tunnuskiptin eru stórt verkefni sem hafa snert hvert einasta heimili í borginni. Allir sem koma að verkefninu eiga þakkir skildar, ekki síst fólkið í borginni, sem hefur sýnt verkefninu mikinn áhuga og greinilegt er að umhverfismál eru fólki hugleikin.

Margar einingar borgarinnar hafa komið að þessu verkefni en mikil skipulagsvinna liggur að baki. Undirbúningur hófst í ársbyrjun 2021. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins og hefur verið unnið þétt með hinum sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu.

Hægt að breyta

Unnið hefur verið út frá fyrirliggjandi gögnum til að áætla magn tunna við hvert heimili. Þau sem sjá fram á að þurfa fleiri ílát eða öðruvísi skiptingu íláta geta notfært sér pöntunarform á vefnum til að sækja um breytingar eða viðbót.

Einnig, ef það hafa orðið frávik í dreifingu, þannig að tunnur vantar, eða fjöldi á körfum er rangur miðað við íbúðir vinsamlegast sendið póst á upplysingar@reykjavik.is eða hafið samband í síma 411 1111.