No translated content text
Opið fyrir umsóknir úr Miðborgarsjóði
Rannsóknir, nýsköpun og þróunarverkefni sem efla miðborgina eru meðal þess sem Miðborgarsjóði er ætlað að styrkja. Hlutverk sjóðsins er að stuðla að því að miðborgin sé áhugaverður og aðlaðandi dvalar- og áfangastaður fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila borgarinnar, landsmenn alla og erlenda gesti.
Opnað hefur verið yfir umsóknir vegna verkefna á vef Miðborgarsjóðs. Umsóknarfrestur er til og með 1. nóvember n.k.
Frumkvæði, nýsköpun og rannsóknir
Miðborgarsjóður veitir einstaklingum, félagasamtökum, fyrirtækjum og stofnunum tækifæri til frumkvæðis, nýsköpunar og rannsókna í miðborginni í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum miðborgar og markmið aðalskipulags Reykjavíkur um að greina, skrá og vinna úr upplýsingum um þróun miðborgarinnar. Í úthlutunarreglum sjóðsins er lögð áhersla á að styrkt séu verkefni sem eru í samræmi við framtíðarsýn og meginmarkmið stefnu í málefnum miðborgar.
Tímatakmörk á verkefnaskilum hafa undanfarin ár verið að vori, en nú er gefið er aukið svigrúm sem ætti að koma rannsóknum, nýsköpun og þróunarverkefnum til góða. Samstarfs- og samvinnuverkefni ólíkra aðila fá sérstakt vægi við mat á úthlutun úr sjóðnum. Verkefni sem skila niðurstöðum og upplýsingum sem gerð verða aðgengileg fá einnig sérstakt vægi í mati á umsóknum. Rétt er að taka fram að framkvæmdir tengdar húsnæði, innan- eða utanhúss, verða ekki styrktar, né markaðssetning einstaka reksturs.
Umsækjendur geta verið einstaklingar, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. Undanskildar eru stofnanir Reykjavíkurborgar, sem og starfsmenn borgarinnar.
Á vef sjóðsins er umsóknareyðublað og gert er ráð fyrir að greinargerð um viðkomandi verkefni, markmið þess og framgang fylgi umsókn. Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér reglur og hafa samband við verkefnisstjóra miðborgarmála á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara ef óskað er nánari upplýsinga.