Nýsköpun í þágu faglegri og skilvirkari þjónustu

Atvinnumál Mannlíf

Frá pallborðumræðum

Reykjavíkurborg stóð í gær fyrir málþinginu Nýsköpun fyrir fólk og var það hluti af vel heppnaðri Nýsköpunarviku.  

Málþinginu var ætlað að gefa innsýn í þróun sem á sér stað víða innan borgarkerfisins undir formerkjum stafrænnar umbreytingar og nýsköpunar.  „Það er mikið að gerast í þessum málum eins og sjá mátti glögglega í kynningunum hér í dag,” segir Kristinn Jón Ólafsson, formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar.  Málþingið var opinn fundur stafræns ráðs og segir Kristinn Jón það vera vel við hæfi að varpa kastljósi sérstaklega á nýsköpun.  „Það er mikilvægt að við tengjum nýsköpun innan borgarkerfisins við nýsköpunarsenuna á Íslandi. Við eigum ótalmörg tækifæri til að gera þjónustu borgarinnar enn notendamiðaðri, faglegri og skilvirkari.”  

Rétturinn til að gera mistök

Arnar Sigurðsson stofnandi East of Moon og frumkvöðull í samfélagslegri nýsköpun opnaði málþingið með hugvekju um réttinn til að gera mistök.  Hann gerði einnig hlut hins opinbera að umtalsefni. Nýsköpun væri einnig fyrir opinbera geirann og hún hafi í gegnum tíðina oft verið drifin áfram og að frumkvæði opinbera geirans. Verðmætasköpun ætti sér einnig stað innan opinbera geirans, það væri mýta að hann væri ekki verðmætaskapandi. Það þyrfti nýja hugsun og  nálgast opinbera geirann út frá því hvernig þar yrði verðmætasköpun.   

Það væri gríðarlega margt í gangi hjá borginni sem leiðir okkur í átt að notendamiðaðri hönnun - nýsköpun fyrir fólk. „Þetta er gott, en ég velti fyrir mér hvort við getum gengið lengra. Ættum við ef til vill að skilgreina hana með nýrri nálgun. Í stað þess að beita nýsköpun í þjónustu fyrir fólk, þá gætum við unnið með að fólk fái að taka þátt í nýsköpun.”

Arnar Sigurðsson
Arnar Sigurðsson

Nýsköpunarkraftur um alla borg 

Mikill áhugi er víða hjá Reykjavíkurborg að beita aðferðum nýsköpunar til að bæta þjónustu. Nokkrir fyrirlesarar gáfu innsýn í hvernig borgin er að nálgast þetta viðfangsefni og einnig voru spiluð myndskeið með frásögnum af verkefnum sem eru í gangi. 

Nýsköpun alls staðar

Af hverju þurfum við sem borg að styðja við og vinna að nýsköpun, er spurning sem Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunar, leitaðist við að svara og sagði frá nálgun borgarinnar þegar atvinnu- og nýsköpunarstefna borgarinnar var unnin í fyrra.  

Óli Örn með erindi á málþingi
Óli Örn Eiríksson

Hvernig viltu að bókasafn framtíðarinnar verði?

Hvernig á bókasafn framtíðarinnar að verða?  Í hönnunarferli fyrir nýtt safn var leitað eftir ólikum sjónarmiðum notenda til að bæta þjónustuna. Hér segja Hulda Þ. Aðalsteinsdóttir og Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir frá margra afrakstri þeirrar vinnu. 

Hvað er (vanda)málið? - Hönnun sem skapandi drifkraftur í formföstu kerfi

Björg Flygenring Finnbogadóttir, þjónustuhönnuður, fór yfir í líflegum glærum mikilvægi þess að skilgreina (vanda)málið. Hvert er verkefnið og hvað á að leysa.

Björg Flygenring
Björg Flygenring Finnbogadóttir

Betri borg fyrir börn

Embla Vigfúsdóttir hefur verið að skoða þá ferla sem liggja að baki þegar barn byrjar í skóla. “Það var svolítið gaman að taka hluti sem eru vanalega bara annað hvort inn í hausnum á fólki eða í skjölum í tölvunni. Gera þau svolítið þrívíð og snertanleg,” segir hún. 

Mínar síður og mín mál – samþætting við málakerfi  

Sigurður Fjalar Sigurðarson, vörustjóri fyrir mínar síður sagði frá þróun á rafrænu þjónustutorgi fyrir íbúa og fyrirtæki. Hann fór yfir þá vinnu sem unnin hefur verið til þessa og hvers er að vænta á næstu mánuðum. Málið er í vinnslu og að mörgu að huga við samþættingu kerfa.

frá málþingi um nýsköpun - Fjalar Sigurðarson
Fjalar Sigurðarson

Stórt skref fyrir Reykjavík sem öllum fannst sjálfsagt - rafrænar byggingarleyfisumsóknir 

Búi Bjarmar Aðalsteinsson, stafrænn leiðtogi þjónustu- og nýsköpunarsviðs sagði frá vinnu við að tryggja flæði byggingarleyfisumsókna allt frá umsókn, yfir í umfjöllun og til samþykktar. Horft var sérstaklega á notenda hópinn en það eru arkitektar, byggingarstjórar o.fl. fagfólk.  Notendur komu með ákveðnar óskir og starfsmenn sáu einnig marga möguleika við að breyta ferlinu. 

„Byggingarleyfiskerfið er samskiptamiðað og nýja kerfið er þegar farið að spara tíma þeirra sem njóta þjónustunnar, en þau þurfa mun sjaldnar að mæta með gögn,” sagði Búi Bjartmar. Mikil ánægja er með breytingarnar.

Búi Bjartmar
Búi Bjartmar Aðalsteinsson

Skapandi lausnir í skólastarfi

Við erum stöðugt að þjálfa og efla nemendur í að vinna með skapandi lausnir. Guðlaug Erla Gunnarsdóttir í Ingunnarskóla segir það vera mikilvægasta þáttinn í skólastarfinu.  

Tæknin veitir fólki aukið öryggi

Þessi nýjung kemur ekki í staðinn fyrir mannlega þáttinn, en tæknin veitir aukið öryggi. Fólki finnst þetta góð viðbót í þjónustunni og við upplifum mikið þakklæti, segir Auður Guðmundsdóttir sem vinnur við velferðartækni.   

Velferðartækni fyrst - framtíðin í velferðarþjónustu

Áskoranir sem við stöndum frammi fyrir er vaxandi og við þekkjum öll breytta aldurssamsetningu og það verða færri til að halda henni uppi. „Velferðartækni snýst ekki bara um tæknina, heldur snýst hún um fólkið – notendur þjónustunnar og einnig um starfsfólkið,“ segir Auður. „Við hringjum í um 90 einstaklinga á viku. Við þurfum að breyta því hvernig við hugsum um þjónustuna,“ segir hún.  „Fyrst og fremst þurfum við að leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir í stað þess að bregðast við eftirá.“

Auður Guðmundsdóttir
Auður Guðmundsdóttir

Skólaþjónusta Reykjavíkur - bætt þjónusta fyrir barnafjölskyldur 

 Því fyrr sem við getum brugðist við þegar börnum líður illa þeim mun betra, segir Tindur Óli Jensson, framleiðandi í umbreytingarteymi.  „Samþætting þjónustunnar er því nauðsynleg og það eru mjög margir sem þurf að vinna saman,“ segir Tindur. Í upphafi ferlis var byrjað að ræða við notendur þjónustunnar. „Grunnatriði að fólk sem þarf að nota þjónustuna viti á hverjum tíma hver staða málsins er“. 

Tindur Óli Jensson
Tindur Óli Jensson

Áskoranir og tækifæri sem nýsköpun færir

Málþinginu lauk með pallborðsumræðum um tækifæri og áskoranir sem felast í nýsköpun og stafrænni þróun hjá Reykjavíkurborg.  

Þátttakendur í pallborði voru Kristinn Jón Ólafsson, formaður stafræns ráðs Reykjavíkurborgar, Arnar Sigurðsson, samfélagslegur frumkvöðull, Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, baráttukona fyrir bættu aðgengi í stafrænum heimi og handhafi aðgengisviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2022 og Ásta Þöll Gylfadóttir, teymisstjóri stafrænna leiðtoga hjá Reykjavíkurborg. 
Vigdís Hafliðadóttir, heimspekingur, söngkona, uppistandari var fundarstjóri og stýrði hún pallborðsumræðum.

Hvaða hlutverki á borgin að gegna í nýsköpun? var fyrsta spurningin.

Kristinn Jón sagðist vilja sjá betri tenginga nýsköpunar innan borgarkerfisins við nýsköpunarsenuna á Íslandi. Tengslin væru mikilvæg.

Arnar sagði afskaplega áhugavert að sjá það sem er að gerast í borginni.  „Gott að borgin skapi jarðveg og ég vil meina að borgin eigi einnig að vera þátttakandi í nýsköpuninni.“  Kristinn tók undir það. „Mér finnst að borgin eigi að stíga meira inn í nýsköpunina.“

Ásta Þöll sagði nýsköpun vera á miklum hraða. „Við þurfum að vera meðvitaðri hvert við erum að fara. Mikið af þjónustu innan borgarinnar er í umbreytingu og við þurfum að búa til kerfi sem getur stöðugt tekið breytingum.“

Inga Björk tók undir að áhugavert væri að sjá hvað mikið er að  gerast.  Hún hvatti til að huga vel að fólkinu sem verið er að vinna fyrir.  „Við verðum að hafa í huga að fólk er allskonar.“ sagði hún. Það væri mikilvægt að tala við breiðan hóp fólks og hún minnti á ákall sem kom nýlega frá seinfærum foreldrum um að fólk væri haft með í ráðum.  „Það verður að hafa kerfið í takt við getu fólks til að nýta sér þau. Kerfin eru gerð af miðaldra hvítum körlum, en taka ekki nægilega mið af fjölbreyttum hópi fólks“.

Vigdís – „Við verðum að tala um peninga. Erum við að forgangsraða rétt“.

Kristinn sagði að verið væri að nálgast íbúa út frá þeirra þörfum og að borgin ætti tvímælalaust að vera á þessari vegferð. „Ef við værum ekki að stíga þessi skref þá væri það sóun. Við þurfum að stíga þessi skref. Þetta samtal er lykill að því að stíga þessi skref“.

„Við getum einnig spurt okkur að því að því hve miklu við erum búin að tapa á því að hafa ekki gert þetta fyrir löngu síðan,“ spurði Arnar.  Árið væri 2023 og við erum að breyta af pappír yfir í rafrænt – hvað væri það?

Ekki gleyma að tala við Skúla fúla

Vigdís - Er svigrúm til að gera mistök. Þurfum við að breyta viðhorfi?

Ásta Þöll sagði mikilvægt að prófa. „Við eigum að gera tilraunir í minni skrefum og tala við notendur. Vera viðbúin því að breyta og læra af reynslunni.“

Inga Björk sagði mikilvægt að hafa réttinn til að gera mistök.  „Það er oft verið að kalla okkur sem notum þjónustu inn á lokaskrefunum, það er of seint. Við þurfum að koma mun fyrr inn í ferli stafrænnar framþróunar.   Með skilvirkni lendum við stundum í að jaðarsetja einhverja hópa. Ég er mjög fylgjandi því að gera tilraunir og þær þarf að gera í upphafi ferilsins.  Mjög gott að vinna með starfsfólki Reykjavíkurborgar því þau eru tilbúin til að viðurkenna að þau viti ekki allt og leita því gjarnan eftir áliti.“

Kristinn Jón sagði að borgin hefði auðvitað átt að byrja fyrir löngu að byrja, en þessar áherslur komu inn með þátttöku Pírata í borgarstjórn.  Hann gerði einnig þátt starfsfólks að umtalsefni. „Við þurfum að halda vel utan um starfsfólk borgarinnar og styðja það í að koma nýsköpunarverkefnum áfram,“ sagði hann og ávallt væri mikilvægt að hafa rétt á að gera mistök.

Arnar tók undir það. „Mikilvægt með réttinn á að gera mistök, en þá er að sjálfsögðu ekki átt við að gera mistök á öðrum“.  Mikilvægt væri að hafa aðkomu allra að þróuninni.

Inga Björk sagði mikilvægt að minnast á jaðarsettu hópanna. „Það mun alltaf fæðast fólk sem hefur takmarkaða hæfni og tölvulæsi – og hæfnin breytist einnig með vaxandi aldri. Það kemur ný og ný tækni sem við getum ekki tileinkað okkur. Þetta er ekki fasti heldur er breytingum undirorpið.  Við megum ekki sparka fólki inn í þetta,“ sagði Inga og gaf þeim sem sinna nýsköpun ráð: „Finnið fjölbreytta hópa til að ræða við. Finnið Skúla fúla til að fá skoðanir hans einnig.“