Nagladekk eru ekki æskileg á götum borgarinnar

Samgöngur Umhverfi

""

Borið hefur á nagladekkjum á götum borgarinnar en þau eru ekki leyfileg í október og almennt ekki æskileg í Reykjavík. Nagladekk valda svifryki þegar þau spæna upp malbik á götum, þau auka hávaða og slíta götum hraðar en æskilegt er. 

  • Nagladekk eru ekki leyfileg í Reykjavík á tímabilinu frá 15. apríl til 1. nóvember.
  • Lögreglan getur sektað ökumann um 80 þúsund krónur fyrir bifreið á nagladekkjum.
  • Vetrarþjónusta gatna í Reykjavík er góð.
  • Öruggast er að keyra ævinlega í samræmi við aðstæður.
  • Malbikið er af svipuðum gæðum og í Noregi.
  • 46% ökutækja var á negldum dekkjum í mars 2019.
  • Öruggast er að keyra ævinlega í samræmi við aðstæður

Góð vetrardekk eru gulls ígildi í snjó og hálku á höfuðborgarsvæðinu. Vönduð gerð og mjúk gúmmíblanda með nægjanlegri dýpt mynsturs á vetrardekkjum fólksbifreiða ásamt gætni ökumanna á götum er það sem þarf. Nagladekk í borginni eru óþörf. Lögreglan getur sektað ökumann um 80 þúsund krónur fyrir bifreið á nagladekkjum utan þess tímabils.

Nagladekk auka kostnað á viðhaldi gatna í Reykjavík með því að slíta malbikið margfalt hraðar en önnur dekk, þau auka eldsneytiskostnað bifreiða, valda óþarfa hávaða og draga úr loftgæðum með mengun.

Svifryk í andrúmslofti hefur óumdeilanleg neikvæð áhrif á heilsu manna, t.a.m. eru fleiri innlagnir á sjúkrahús á dögum þegar svifryk fer yfir heilsuverndarmörk. Svifryk hefur farið 13 sinnum yfir heilsuverndarmörk. Nýleg rannsókn sýnir að hlutfall malbiks í svifryki er um helmingur og að hlutfall sóts hafi aukist. Nagladekk eru ekki leyfileg í Reykjavík á tímabilinu frá 15. apríl til 1. nóvember og eru óæskileg á öðrum tímum ársins.

Vetrarþjónusta gatna

Reykjavíkurborg leggur áherslu á góða vetrarþjónustu gatna en þegar snjór fellur í Reykjavík eða hálka myndast er unnið samkvæmt viðbragðsáætlun um vetrarþjónustu. Aðstæður eru vaktaðar reglubundið og mannskapur kallaður út eftir þörfum. Þessi þjónusta styður þá fullyrðingu að nagladekk séu óþörf í Reykjavík. Stofnbrautir, strætóleiðir og fjölfarnar safngötur njóta forgangs, en miðað er við að stofnbrautir og strætóleiðir séu færar fyrir kl. 7.00 að morgni og að hreinsun annarra megin umferðargatna sé lokið fyrir kl. 8.00. 

Öruggast er að keyra ævinlega í samræmi við aðstæður. Samkvæmt lögum bera ökumenn ábyrgð á því að aka um á dekkjum sem eru í samræmi við aðstæður hverju sinni, óháð árstíðum.

Svifryk og hlutfall nagladekkja

Nefna má að núna í september hefur verið þurrt og stillt veður í Reykjavík en ekki borið á svifryksmengun. Það sem af er árinu 2019 hefur svifryk farið 13 sinnum á árinu. Slíkt veður í marsmánuði þegar flestar bifreiðar eru á nagladekkjum hefði aftur á móti skapað töluverða loftmengun og kostnað sem því fylgir að rykbinda götur.

Talning er gerð yfir veturinn og meðaltalsdreifing á notkun negldra og ónegldra hjólbarða reiknuð. Hlutfall negldra dekkja miðvikudaginn 6. mars skiptist þannig að 46% ökutækja var á negldum dekkjum og 54,1% var á öðrum dekkjum. Hlutfall negldra dekkja lækkað töluvert alveg til ársins 2011 og var þá 32% en það tók að hækka aftur eftir 2015. Þessari þróun þarf að snúa við aftur og mælir Reykjavíkurborg eindregið með vönduðum vetrardekkjum fremur en nagladekkjum undir bílana í borginni yfir veturinn. 

Hvernig er malbikið?

Helsti orsakavaldur hjólfara í malbiki er slit af völdum nagladekkja. Líklegt er að nagladekk hraði verulega á hjólförum sem myndast í malbiki. Stundum er fullyrt að íslenskt malbik sé lélegt. Staðreyndin er sú að meginhluti þess steinefnis sem notað er í mal­bik hér á landi er fluttur inn frá Noregi. Það gera malbikunarstöðvarnar til að fullnægja kröfum Vegagerðarinnar, sveitarfélaga og annarra verkkaupa um styrkleika malbiksins. Malbik með steinefnum úr íslenskum námum er aðallega notað þegar verið er að mal­bika bílastæði og göngustíga og í undirlag malbiks.

Tökum nagladekkin úr umferð!

Ráðleggingar frá FÍB:

Góðir hjólbarðar eru grundvallar öryggisþáttur og geta skipt sköpum við erfiðar vetraraðstæður. Áríðandi er að hafa réttan loftþrýsting í hjólbörðum til að þeir endist vel og virki rétt. Mynsturdýpt ræður miklu um veggrip á blautum eða snjóugum vegum og ekki ráðlegt að hafa það minna en 3 - 4 mm. Þegar kólnar í veðri er nauðsynlegt að skipta yfir í vetrar- eða heilsársdekk. Slitsóli þessara hjólbarða er úr gúmmíblöndu sem ekki stífnar í kuldum, sem eykur veggrip og rásfestu ökutækja. Gúmmíblandan í sumarhjólbarða byrjar að harðna þegar hitinn er kominn niður fyrir +7°C. Við -15°C verða sumarhjólbarðar álíka harðir og hart plastefni! Tjara og önnur óhreinindi sem festast á hjólbörðum í vetrarumferðinni, draga úr veggripi og öðrum eiginleikum og því mikilvægt að þrífa hjólbarða bílanna reglulega með þar til gerðum efnum. (Bílaþvottur).