Ábyrgð sýnd við bílaþvott og meðferð efna

Umhverfi Heilbrigðiseftirlit

""

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fær á hverju ári ábendingar um mengun sem berst með ofanvatni í árnar, vötnin og strandsjóinn í Reykjavík. Eftirlitið beinir því til íbúa að bílaþvottur með efnum við heimahús er alls ekki æskilegur.

Þrjú nýleg dæmi um slíka mengun urðu þegar olía barst í settjörn við Hólahverfi í kjölfar umferðaróhapps, mjólkurlitt vatn rann eftir Grófarlæk út í Elliðaár og sápufroða sem barst eftir ofanvatnslæk niður í Grafarvog. Erfitt getur reynst að finna uppruna slíkrar mengunar en af gefnu tilefni vill eftirlitið vekja athygli borgarbúa á því að allt sem fer í niðurföll á bílaplönum íbúðarhúsa og gatna fer í regnvatnslagnir þar sem tvöfalt kerfi er og þaðan í ár, vötn og strandsjó. 

Fráveitukerfi höfuðborgarsvæðisins flytur allt skólp frá heimilum og fyrirtækjum í hreinsistöðvar. Ofanvatn er regnvatn og leysingarvatn sem rennur í fráveitur af húsþökum, götum, gangstéttum og öðru þéttu yfirborði. Í eldri hverfum borgarinnar er einfalt kerfi þar sem ofanvatn er flutt með skólpi en á 7. áratugnum var farið að leggja tvöfalt kerfi og í þeim fer ofanvatn í aðskildum lögnum í viðtaka.

Heilbrigðiseftirlitið vill sérstaklega benda á að ofanvatn frá hluta Breiðholts, Árbæjar, Ártúnshverfi og Fossvogs rennur í gegnum settjarnir og þaðan út í Elliðaár. Sérstaka aðgát þarf því að sýna á þeim svæðum. Elliðaárdalur og Elliðaár njóta hverfisverndar og þar er stunduð laxveiði sem er einsdæmi innan höfuðborga í Evrópu. Það er því afar mikilvægt að koma í veg fyrir að mengun berist í árnar og hafi áhrif á viðkvæmt lífríki þeirra.

Mengun hefur endurtekið borist í árnar og ljóst að svæðið er undir miklu álagi. Ekki skal hella neinum efnum í niðurföll utandyra svo sem málningu, þynni, fitu eða olíu. Mikilvægt er að í ofanvatnslagnir fari engin efni sem geta skaðað lífríkið eða heilsu manna. Spilliefnum skal skila á Endurvinnslustöðvar.

Bílaþvottur

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur beinir því til íbúa að bílaþvottur með efnum við heimahús er alls ekki æskilegur. Ryk mengað af þungmálmum, krabbameinsvaldandi efni og nanoefni geta komist út í náttúruna þegar bílar eru þvegnir. Heilbrigðiseftirlitið hvetur fólk til að nota minna af sápuefnum og þvo bílinn frekar á bílaplönum en heima við.

Mest öll efnisnotkun er almennt óæskileg út frá umhverfismálum. Efnin geta bæði verið skaðleg ef þau fara út í náttúruna óhreinsuð og svo hefur framleiðsla þeirra umhverfisáhrif. Fólk sem ætlar að þvo bílinn sinn ætti að hafa það í huga að það er betra að gera það á bílaplani heldur en heima því þar eru síur sem taka við óæskilegum efnum. Reglurnar eru þessar:

  1. Þvo bílinn á bílaþvottastöð þar sem frárennslisvatn er að einhverju leyti hreinsað eða efni af bílum skolast frá og eru meðhöndluð sem spilliefni. Óæskileg efni eiga að fara í frárennsli þar - en ekki í afrennsli heima á bílaplaninu sem fer beint í ofanvatn án hreinsunar.
  2. Sleppa hreinsiefnum eins og hægt er eða
  3. Fá umhverfisvottuð hreinsiefni, bón og aðrar vörur til þvotta á bílnum.

Viturlegt er að leita að Svansmerktum þvottaefnum og aðstandendur þvottaplana ættu að hafa metnað til að starfrækja Svansvottaðar bílaþvottastöðvar.

Tenglar

Endurvinnslustöðvar

Þvottur bifreiða