Kynningarfundur um deiliskipulag fyrir Veðurstofureit

Skipulagsmál

Veðurstofureitur

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar heldur kynningarfund um tillögu að deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit. Um er að ræða skipulag fyrir ríflega 200 íbúðir á Veðurstofuhæð fyrir fjölbreyttan hóp borgara. Fundurinn er haldinn 29. ágúst í Borgartúni 14, í Vindheimum á 7. hæð kl. 17.00.

Forsaga 

Reykjavíkurborg vann að borgarþróun fyrir Veðurstofureit svo þar mætti koma fyrir íbúabyggð sem hentar meðal annars ungu fólki. Áður en hugmyndaleit var haldin um útfærslu deiliskipulagsins hafði Reykjavíkurborg árið 2018 leitað eftir samstarfsaðilum til að byggja hagkvæmt húsnæði á völdum þróunarreitum í Reykjavík, og í ársbyrjun 2022 eftir umsóknum um samstarf á spennandi lóðum fyrir vistvæna húsnæðisþróun sem nefndist Grænt húsnæði framtíðarinnar. Veðurstofuhæð var á meðal þessara reita og lóða. Hlutskarpastir voru annars vegar Dumli ehf. fyrir hagkvæma húsnæðisuppbygginu og hinsvegar Grænt húsnæði ehf. fyrir vistvæna húsnæðisþróun á Veðurstofuhæð. Þar með voru því komnir tveir lóðarhafar ásamt þriðja aðilanaum Bjarg íbúðafélagi um borð við gerð skipulagsáætlana. Eftir hugmyndaleit um deiliskipulagsgerðina á reitnum var ákveðið að vinna skipulagið áfram eftir tillögu dönsk-íslensku hönnunarstofunnar Lendager

Hringrás borgarinnar 

Lendager gaf tillögunni heitið Hringrásarborg, og um að ræða hverfi sem er hannað með náttúrulegum, lífrænum efnum og staðbundnum úrgangsefnum sem safnað er saman á höfuðborgarsvæðinu.   
Arkitektúrinn og innviðirnir verða hannaðir á þann hátt að hægt verði að hámarka notkun staðbundinna lífrænna efna eins og timburs, steins og torfs, sem þola erfið veðurskilyrði og auðvelt er að skipta um eða endurnýta. Á sama tíma er markmiðið að nýta byggingarúrgang til að lágmarka umhverfisáhrif enn frekar.  
Hverfið skapar rými sem ýtir undir samveru. Húsnæðið verður fyrir fjölbreytta fjölskyldusamsetningu og brú á milli kynslóða. Ekki er gert ráð fyrir almennum akstri einkabíla á svæðinu en komið til móts við aðrar þarfir með þjónustuvegi fyrir hreyfihamlaða, sorphirðu, neyðarakstur og þess háttar. 

Virkt deilihagkerfi íbúa 

Gert er ráð fyrir íbúðum í miðlægu fjölnotahúsi/bílastæðahúsi sem gæti fjölgað á seinni stigum. Bílastæðakröfur og bílastæðahús ásamt fyrirkomulagi á aðgengi ökutækja inn á íbúðareitinn gengur í aðalatriðum út á samnýtingu. Unnið verður áfram að þróun þeirra mikilvægu innviða sem nú þegar eru á reitnum, en bæði Veðurstofan og Veitur verða áfram með sína starfsemi á svæðinu. 
 
Á íbúafundinum mun fulltrúi Lendager og fulltrúar Reykjavíkurborgar kynna tillöguna. Hægt er að nálgast gögn inn á skipulagsgátt hjá Skipulagsstofnun. Þar er jafnframt hægt að skila inn formlegum athugasemdum, ábendingum og umsögnum til 25. september. 
Öll velkomin, kaffi á könnunni.  

Kynningarferli