Deiliskipulag fyrir Veðurstofureit í auglýsingu

Veðurstofureitur

Samþykkt var í borgarráði að auglýsa tillögu umhverfis- og skipulagssviðs að nýju deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit. Hér er um að ræða skipulag fyrir ríflega 200 íbúðir á Veðurstofuhæð fyrir fjölbreyttan hóp borgara. 

Reykjavíkurborg vann að borgarþróun fyrir Veðurstofureit svo þar mætti koma fyrir íbúabyggð sem hentar meðal annars ungu fólki. Áður en hugmyndaleit var haldin, hafði Reykjavíkurborg efnt til þátttöku væntanlegra lóðarhafa, annars vegar í gegnum græna uppbyggingu (Grænt húsnæði ehf) og hinsvegar hagkvæmt húsnæði (Dumli ehf). Hér voru því komnir tveir lóðarhafar ásamt Bjargi um borð við gerð skipulagsins. Eftir hugmyndaleit um deiliskipulagsgerðina var ákveðið að vinna skipulagið áfram með tillögu dönsk-íslensku hönnunarstofunni Lendager.

Við gerð tillögunnar var unnið út frá bæði náttúrulegu yfirbragði Veðurstofuhæðar og núverandi fyrirkomulagi, svo sem helstu aðkomuleiða, veitumannvirkja og þjónustustarfsemi Veðurstofunnar. 

Hverfi framtíðarinnar

„Hugmyndafræði skipulagsins á Veðurstofuhæð byggir á borgarhönnun sem skapar ramma um mannlíf og vistleg borgarrými og byggir á þeim markmiðum sem við höfum sett okkur varðandi hringrásarhagkerfið og loftslagsmál," segir Arnhildur Pálmadóttir hjá Lendager. „Þetta endurspeglast í notkun endurnýttra og náttúrulegra efna auk þess sem hönnun hverfisins er byggð á náttúrulegum hringrásum eins og veðrinu. Með þessum forsendum viljum við skapa nútímalegt hverfi framtíðarinnar og í sem mestri sátt við núverandi borgarumhverfi í Hlíðum og Kringlu.“ 

Komið verður fyrir nýrri sjö metra breiðri tengingu, sem þjónar öllum virkum ferðamátum, undir Bústaðaveg sem tengir saman norður–suður milli Stigahlíðar og Beykihlíðar/Birkihlíðar. Hæðir húsa, stakstæð eða í klösum ásamt samnýtingu rýma tekur mið af karaktereinkennum landsvæðisins. Mikil áhersla verður á staðsetningu byggingarkroppa, svo að veður og vindáttir verði sem hagstæðastar fyrir fólk.

Virkt deilihagkerfi íbúa

Gert er ráð fyrir íbúðum í miðlægu fjölnotahúsi/bílastæðahúsi sem gæti fjölgað á seinni stigum. Bílastæðakröfur og bílastæðahús ásamt fyrirkomulagi á aðgengi ökutækja inn á íbúðareitinn gengur í aðalatriðum út á samnýtingu. Unnið verður áfram að þróun þeirra mikilvægu innviða sem nú þegar eru á reitnum, en bæði Veðurstofan og Veitur verða áfram með sína starfsemi á svæðinu.

Tillagan byggir undir virkt deilihagkerfi íbúa reitsins gagngert til að auka lífsgæði þeirra og annarra borgarbúa. Skilgreint náttúrulegt útivistarsvæði fyrir íbúa reitsins og nágranna næst reitnum er staðsett á suð-austurhluta reitsins. Útivistarsvæðið gegnir einnig mikilvægu hlutverki í náttúrulegri hringrás ofanvatnslausna á reitnum. 

Hringrás borgarinnar okkar

Lendager gaf tillögunni heitið Hringrásarborg, og um að ræða hverfi sem er hannað með náttúrulegum, lífrænum efnum og staðbundnum úrgangsefnum sem safnað er saman á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndafræðin felst í því að skapa hverfi sem rímar við komandi tíðaranda; hverfi sem er ekki aðeins sjálfbært heldur endurskapar líka náttúrulegar hringrásir og verður með því lifandi og endurnýjanlegt svæði sem getur aðlagast og þróast með tímanum.

Lendager sér möguleika í því að endurnýta efni sem nú þegar er á svæðinu, þar með talið núverandi byggingar og jarðveg sem verður áfram á staðnum og nýttur til að móta nýtt landslag. Hugmyndin um hringrásarhagkerfið felst meðal annars í því að hanna vörur og kerfi með áherslu á endurnotkun, viðgerðir og endurvinnslu, frekar en förgun. Þessar aðferðir geta hjálpað til við að draga úr sóun og spara auðlindir, auk þess að skapa ný efnahagsleg tækifæri.

Arkitektúrinn og innviðirnir verða hannaðir á þann hátt að hægt verði að hámarka notkun staðbundinna lífrænna efna eins og timburs, steins og torfs, sem þola erfið veðurskilyrði og auðvelt er að skipta um eða endurnýta. Á sama tíma er markmiðið að nýta byggingarúrgang til að lágmarka umhverfisáhrif enn frekar. 

Græn svæði fléttast inn í hönnun svæðisins sem veitir íbúum aðgang að náttúrunni og stuðlar að líffræðilegri fjölbreytni. Þessi grænu svæði þjóna einnig sem náttúrulegt vatnssöfnunarkerfi, sem veitir stórflóðavörn fyrir svæðið sjálft en einnig aðliggjandi svæði.

Tillaga Lendager vinnur með náttúrulega ásjónu Veðurstofuhæðar og dregur um leið úr áhrifum skuggavarps á jöðrum svæðisins. sem er mikilvægt fyrir nærliggjandi byggð. Hæstu byggingarnar verða staðsettar í miðju svæðinu svo lækka þær út frá þeim. Tillagan fellur undir þrjú áherslusvið sem eru: Heilsa og samfélag, sjálfbærar auðlindir og náttúra og líffræðilegur fjölbreytileiki.

Hverfið býður upp á fjölbreytni

Hverfið skapar rými sem ýtir undir samveru. Húsnæðið verður fyrir fjölbreytta fjölskyldusamsetningu og brú á milli kynslóða. Ekki er gert ráð fyrir almennum akstri einkabíla á svæðinu en komið til móts við aðrar þarfir með þjónustuvegi fyrir hreyfihamlaða, sorphirðu, neyðarakstur og þess háttar.

Deilihagkerfið á svæðinu fær ríkan stuðning af fjölnotahúsi/bílastæðahúsi, gróðurhúsi, vinnuaðstöðu, hjólaverkstæði, verkfæraaðstöðu, deilibílum, verslunum og kaffihúsi og samnýtanlegu húsnæði.

Landmótunin sækir innblástur í það ísaldarlandslag sem nú þegar er til staðar á hæðinni þar sem náttúra og gróður fléttast saman við og stækkar inn í hið byggða umhverfi. Veðurstofureiturinn verður á þennan hátt borgarhverfi sem er samtvinnað náttúrunni.

Í tillögu Lendager má sjá úrval af fjölbreyttum jaðarsvæðum sem eru ólík eftir því hvar þau eru staðsett, hvort þau eru tengd byggingum, hvernig þau snúa við sólinni og hverju þau tengjast. Þessi jaðarsvæði eru hönnuð til að skapa einstaka rýmisupplifun fyrir íbúa, á sama tíma og þau efla heildaryfirbragð svæðisins alls.

Hvað gerist næst?

Hægt verður að nálgast gögn inn á skipulagsgátt hjá Skipulagsstofnun á næstu dögum. Þar verður jafnframt hægt að skila inn athugasemdum, ábendingum og umsögnum. Framundan er íbúafundur um mánaðamótin ágúst september en auglýsingatíma lýkur 11. september.