Unnið út frá tillögu Lendager á Veðurstofureit

Skipulagsmál

Veðurstofureitur - fjölbreytni og lifandi staður.

Reykjavíkurborg vinnur að borgarþróun fyrir Veðurstofureit svo þar megi koma fyrir íbúabyggð sem hentar námsmönnum, tekjulágum, ungu fólki til fyrstu kaupa og fólki á almennum fasteignamarkaði. Unnið verður út frá spennandi tillögu frá dönsk-íslensku hönnunarstofunni Lendager.

Eitt helsta markmiðið er að styðja við að þar rísi heildstætt íbúðahverfi á miðsvæði ásamt þjónustu með sterkum vistvænum áherslum í sátt við núverandi umhverfi. Svæðið afmarkast af Kringlumýrarbraut til austurs, Bústaðavegi til suðurs, núverandi íbúabyggð við Stigahlíð til norðurs og Háuhlíð til vesturs um opið svæði í Litlu Öskjuhlíð. Alls er gert ráð fyrir að byggingarmagn íbúða á Veðurstofuflötinni verði á bilinu 15.000-30.000 fermetrar.

Hugmyndaleit hönnunarteyma

Hönnunarteymi kepptu um að taka þátt í gerð „græns húsnæðis framtíðarinnar“ fyrir almennan markað á Veðurstofureit vorið 2022. Hönnunarhóparnir sem valdir voru til að skila tillögum í hugmyndaleit urðu þrír: Nordic – Office of Architecture, Lendager og loks hópur undir merkjum Esja, Landslag, Arkibygg, The Living Core, Exa Nordic og Myrra. Ákveðið var nýlega eftir kynningu í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar að vinna áfram með tillögu frá Lendager. Þar má sjá mikinn metnað þegar kemur að hönnun, fjölbreytileika, rýminu á milli húsanna og vistvænu efnisvali (urban mining og upcycle) í takt við þær grænu áherslur sem liggja fyrir í tengslum við svæðið.

Hringrásarborgin

Hringrásarborg dönsku/íslensku hönnunar- og nýsköpunarstofunnar Lendager, er hverfi sem er hannað með náttúrulegum, lífrænum efnum og staðbundnum úrgangsefnum sem safnað er saman á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndafræðin felst í því að skapa hverfi sem rímar við komandi tíðaranda; hverfi sem er ekki aðeins sjálfbært heldur endurskapar líka náttúrulegar hringrásir og verður með því lifandi og endurnýjanlegt svæði sem getur aðlagast og þróast með tímanum.

Lendager sér möguleika í því að endurnýta efni sem nú þegar er á svæðinu, þar með talið núverandi byggingar og jarðveg sem verður áfram á staðnum og nýttur til að móta nýtt landslag. Hugmyndin um hringrásarhagkerfið felst meðal annars í því að hanna vörur og kerfi með áherslu á endurnotkun, viðgerðir og endurvinnslu, frekar en förgun. Þessar aðferðir geta hjálpað til við að draga úr sóun og spara auðlindir, auk þess að skapa ný efnahagsleg tækifæri.

Arkitektúrinn og innviðirnir verða hannaðir á þann hátt að hægt verði að hámarka notkun staðbundinna lífrænna efna eins og timburs, steins og torfs, sem þola erfið veðurskilyrði og auðvelt er að skipta um eða endurnýta. Á sama tíma er markmiðið að nýta byggingarúrgang til að lágmarka umhverfisáhrif enn frekar. Gert ráð fyrir vatnsstjórnunarkerfi sem er hannað til að safna og geyma regnvatn og hægt er að nota sem grátt vatn, til dæmis í salerni, inni í byggingunum.

Græn svæði fléttast inn í hönnun svæðisins sem veitir íbúum aðgang að náttúrunni og stuðlar að líffræðilegri fjölbreytni. Þessi grænu svæði þjóna einnig sem náttúrulegt vatnssöfnunarkerfi, sem veitir stórflóðavörn fyrir svæðið sjálft en einnig aðliggjandi svæði.

Grænu svæðin eru einnig náttúrulegt vatnssöfnunarkerfi

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í öndvegi

Tillaga Lendager ýkir upp náttúrulega ásjónu Veðurstofuhæðar og dregur um leið úr áhrifum skuggavarps á jöðrum svæðisins. Staðbundið hagkerfi styður heilbrigðan lífsstíl með því að tvinna uppbygginguna við núverandi náttúru. Hæstu byggingarnar verða staðsettar í miðju svæðinu svo lækka þær út frá þeim.

Tillaga Lendager tekur sjálfbærnistefnu og viðmið Sameinuðu þjóðanna um heimsmarkmiðin alvarlega. Hún er í samræmi við sjálfbærnistefnu Íslands um að „byggja grænni framtíð“ sem er samstarfsverkefni stjórnvalda og hagsmunaaðila byggingariðnaðarins um sjálfbæra mannvirkjagerð og á rætur að rekja til aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Tillagan fellur undir þrjú áherslusvið sem eru: Heilsa og samfélag, sjálfbærar auðlindir og náttúra og líffræðilegur fjölbreytileiki.

Hverfið býður upp á fjölbreytni

Hverfið skapar rými sem ýtir undir samveru. Húsnæðið verður fyrir fjölbreytta fjölskyldusamsetningu og brú á milli kynslóða. Ekki er gert ráð fyrir almennum akstri einkabíla á svæðinu en komið til móts við aðrar þarfir með þjónustuvegi fyrir hreyfihamlaða, sorphirðu, neyðarakstur og þess háttar.

Deilihagkerfið á svæðinu fær ríkan stuðning af bílastæðahúsi, gróðurhúsi, vinnuaðstöðu, hjólaverkstæði, verkfæraaðstöðu, deilibílum, verslunum og kaffihúsi og samnýtanlegu húsnæði.

Landmótunin sækir innblástur í það ísaldarlandslag sem nú þegar er til staðar á hæðinni þar sem náttúra og gróður fléttast saman við og stækkar inn í hið byggða umhverfi. Veðurstofureiturinn verður á þennan hátt borgarhverfi sem er samtvinnað náttúrunni.

Í tillögu Lendager má sjá úrval af fjölbreyttum jaðarsvæðum sem eru ólík eftir því hvar þau eru staðsett, hvort þau eru tengd byggingum, hvernig þau snúa við sólinni og hverju þau tengjast. Þessi jaðarsvæði eru hönnuð til að skapa einstaka rýmisupplifun fyrir íbúa, á sama tíma og þau efla heildaryfirbragð svæðisins alls.

Heilsa og samfélag. Sjálfbærar auðlindir. Náttúra og líffræðilegur fjölbreytileiki.

Hvað gerist næst?

Borgarþróunin verður unnin áfram hjá skipulagsfulltrúa með ráðgjöfum Lendager næsta vetur. Skoðað verður sérstaklega hvernig hægt er að hanna og þróa byggingar, rými á milli bygginga og öflugar tengingar við nærliggjandi hverfi fyrir fólk, samhliða deiliskipulagsgerð.

Nefna má að verk Lendager hafa fengið fjölmargar viðurkenningar:

  • Upcycle Studios í Kaupmannahöfn, Danmörku, sigurvegarar dönsku hönnunarverðlaunanna 2019. 
  • Resource Rows í Eyrarsundi á Amager, Kaupmannahöfn, Danmörku tilnefnd til Mies van der Rohe Award 2022.

Verkefnið