Hver ætti að fá samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar?

Umhverfi Samgöngur

""

Reykjavíkurborg leitar nú að upplýsingum um þau fyrirtæki eða stofnanir sem ættu að fá samgönguviðurkenningu borgarinnar, en hún verður veitt í tengslum við Samgönguvikuna sem haldin verður 16. - 22. september, eins og venja er.  Upplýsingar þurfa að berast í síðasta lagi 7. september.

Úthlutun viðurkenningarinnar er byggð á upplýsingum frá fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum sem stigið hafa mikilvæg skref í starfsemi sinni í átt til vistvænni samgöngumáta. Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem fyrirtæki eða stofnanir hafa gripið til í þeim tilgangi að draga úr umferð á sínum vegum og einfalda starfsfólki að nýta sér fjölbreytta samgöngumáta.

Í fyrra var Sesselja Traustadóttir heiðruð fyrir frumkvöðlastarf í þágu bættrar hjólamenningar, Fjármálaeftirlitið fékk samgönguviðurkenningu í hópi minni vinnustaða  og Landspítalinn fékk samgönguviðurkenningu í hópi stórra vinnustaða. Árið 2013 fengu Landsbankinn og Hugsmiðjan viðurkenningu og árið 2012 voru það Mannvit, Alta og Landsamtök hjólreiðamanna.

Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi og formaður valnefndar samgönguviðurkenningarinnar segir að umsóknir sem borist hafi undanfarin ár sýni mikinn metnað, fagmennsku og frumkvöðlahugsun.  Ánægjulegt sé að finna hvað viðurkenningin skipti starfsmenn og fyrirtæki miklu máli. Hún hvetur alla sem áhuga hafa að stíga skref í átt að vistvænni samgöngum  til að taka þátt. Það eitt hafi jákvæð áhrif inn í fyrirtækjamenninguna.

Áhugasamir eru beðnir um að fylla út meðfylgjandi umsóknarblað og skal það berast Reykjavíkurborg í síðasta lagi 7. september, merkt „Samgönguviðurkenning“. Umsóknin sendist á netfangið graenskref@reykjavik.is eða berist í Borgartún 12 - 14, 105 Reykjavík.


Skoða umsóknarblað.


Tengdar fréttir: