Reykjavíkurborg heiðrar árlega fyrirtæki og stofnanir sem skarað hafa fram úr við innleiðingu vistvænna samgangna. Í ár hlutu Landsbankinn og Hugsmiðjan samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar en þessi fyrirtæki hafa staðið sig vel í að hvetja starfsfólk að nýta sér vistvæna ferðamáta og auðvelda því að hvíla einkabílinn.
Landsbankinn hlýtur viðurkenningu í hópi stórra fyrirtækja og í samantekt dómnefndar segir að hjá bankanum sé starfsfólk markvisst hvatt til vistvænna samgöngumáta bæði með fjárhagslegum hvötum og fræðslu og hefur hlutfall starfsfólks sem skuldbinda sig til vistvænna ferðamáta farið stigvaxandi. Einnig hefur bankinn sýnt frumkvæði með stuðningi við verkefni sem hvetja til vistvænna ferðamáta.
Hugsmiðjan fær viðurkenningu í flokki lítilla fyrirtækja fyrir góða byrjun, en fyrirtækið hóf nýlega að leggja áherslu á vistvæna samgöngumáta. Þriðjungur starfsmanna hefur skrifað undir samgöngusamning , starfsmenn eru hvattir til að nýta vistvæna leigubíla ef þeir þurfa að sinna erindum vegna vinnu sinnar og á vinnustaðnum er hjól í boði fyrir vinnutengdar ferðir.
Til umhugsunar um eigin ferðavenjur
Samgönguviðurkenning er veitt í evrópskri samgönguviku en Reykjavíkurborg hefur tekið þátt í henni í tíu ár. Markmið vikunnar er að hvetja fólk til umhugsunar um eigin ferðavenjur og virkja það til að nota almenningssamgöngur, hjóla eða ganga.
Í ár bárust margar góðar tilnefningar um fyrirtæki sem hafa tekið þátt í því að setja fram samgöngustefnu og fylgja henni eftir.
Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem hlutu tilnefningar að þessu sinni eru:
- Arion banki
- Hjólað í vinnuna
- Hjólum í skólann
- Hugsmiðjan
- Höfuðborgarstofa
- Landsbankinn
- Reiknistofa bankanna
- Sérstakur saksóknari
- Tryggingastofnun
- Vínbúðin
Dómnefndin byggði val sitt á árangri og aðgerðum sem m.a. draga úr umferð bíla og einfalda starfsfólki að nýta sér virka ferðamáta m.a. hjóla og ganga. Allir þessir vinnustaðir eru að gera góða hluti og hvatt til vistvænna samgöngumáta og erfitt var um val. Í dómnefndinni sátu Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði, Guðmundur Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, Héðinn Svarfdal Björnsson, Embætti landlæknis, Kristín Lilja Friðriksdóttir, ÍSÍ og Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar. Þetta árið eru viðurkenningar veittar í tveimur flokkum, flokki stórra fyrirtækja og lítilla fyrirtækja.