Sesselja, Landspítalinn og Fjármálaeftirlitið heiðruð fyrir vistvænar samgöngur

Umhverfi Íþróttir og útivist

""

Í dag var uppskeruhátíð þeirra sem unnið hafa að vistvænum samgöngum og nokkrir voru heiðraðir fyrir frammistöðu sína.  Reykjavíkurborg veitir árlega samgönguviðurkenningu sína í tengslum við evrópska samgönguviku og afhenti borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, viðurkenningarnar síðdegis í dag.

Sesselja Traustadóttir var heiðruð fyrir frumkvöðlastarf í þágu bættrar hjólamenningar, Fjármálaeftirlitið fékk Samgönguviðurkenningu í hópi minni vinnustaða  og Landspítalinn fékk Samgönguviðurkenningu í hópi stórra vinnustaða. Þá fékk Landspítalinn einnig Hjólaskálina, viðurkenningu fyrir bætta hjólamenningu.

Frumkvöðull og skapari Dr. Bæk

Sesselja Traustadóttir var heiðruð sérstaklega sem frumkvöðull, en hún hefur verið einstaklega ötul við að hvetja  borgarbúa að nýta sér hjólreiðar sem samgöngumáta.

Sesselja hefur lagt mörgum verkefnum lið. Staðið vaktina í verkefninu Hjólað í vinnuna, hún er einn upphafsmanna Hjólum í skólann, hún hefur verið með fyrirlestra um hjólreiðar og hjólafærni víða. 

Hún er virkur þátttakandi í félagsstarfi hjólreiðafólks og er einn aðstandenda Hjólafærni sem býður upp á margvíslega þjónustu og nægir þar að minnast á ofurhetjuna Dr. Bæk, en hann nær að vera á mörgum stöðum í einu, ef því er að skipta.

Áhugi jókst með fjárhagslegum hvata

Landspítalinn fékk Samgönguviðurkenningu 2014 í hópi stórra vinnustaða. Spítalinn setti sér samgöngustefnu í maí 2011 og síðar heildstæða umhverfisstefnu.

Í könnun spítalans árið 2011 sýndu starfsmenn áhuga á að ferðast með vistvænum hætti og í kjölfarið var hafist handa við að bæta aðstöðu hjólreiðamanna og koma á afslætti í strætó fyrir starfsfólk. Góðri aðstöðu fyrir hjól með hjólastæðum, yfirbyggðum hjólastæðum og læstum hjólageymslum var komið upp. 

Mesta breyting á ferðavenjum starfsmanna varð þó eftir að settur var fjárhagslegur hvati með samgöngusamningum í maí á þessu ári, en í kjölfar þess fjölgaði starfsmönnum sem ferðast með vistvænum hætti um 360 manns.  28% starfsmanna ferðast nú með vistvænum hætti til og frá vinnu.

Landspítalinn hefur sýnt að hægt er að breyta stemningu og virkja starfsfólk.  Í ljósi aðgerðaráætlunar spítalans um vist- og heilsuvænar samgöngur getum við jafnvel búist við enn meiri árangri.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans veitti viðurkenningunni viðtöku.

Bætt heilsa með virkum samgöngusamningi

Fjármálaeftirlitið hlaut Samgönguviðurkenningu 2014 í hópi lítilla vinnustaða.  Hjá Fjármálaeftirlitinu var samgöngustefna innleidd í júní 2013 og á sama tíma voru teknir upp samgöngusamningar við starfsfólk.  Um mitt þetta ár var þriðjungur starfsmanna með virkan samning.

Ferðavenjukönnun sýnir að hlutfall þeirra sem koma oftast einir í bíl lækkaði úr 84% í 58% á milli ára. Fjármálaeftirlitið tekur reglulega saman heilsufarsmælingar og hefur sýnt sig að þeir sem eru með virkan samgöngusamning eru almennt minna frá vegna veikinda en þeir sem eru ekki með samning.

Unnur Gunnarsdóttir forstjóri Fjármálaeftirlitsins tók við samgönguviðurkenningunni.

Vakning hjá mörgum fyrirtækjum

Mörg fyrirtæki hafa virkjað sjálf sig og starfsmenn til góðra verka í vistvænum samgöngum.  Við afhendinguna í dag var sagt frá nokkrum fyrirtækjum sem voru tilnefnd: 

 

  • Hjá Hugsmiðjunni nýtir rúmlega helmingur starfsfólks umhverfisvænan ferðamáta að staðaldri.
  • Í Seðlabankanum hafa ferðavenjur breyst mikið og stöðugt fleiri koma gangandi og hjólandi til vinnu. Hjá bankanum eru samgöngusamningar í boði.
  • Starfsmönnum Valitor sem hjóla eða taka strætó hefur fjölgað eftir að samgöngusamningum var komið á. Þar er einnig boðið uppá aðgengi að hjólum og góða búningsaðstöðu.
  • Hjá VÍS er fjórðungur starfsmanna með samgöngusamning og þar er búningsaðstaða og góð aðstaða fyrir hjól.
  • Vínbúðirnar hafa sett sér metnaðarfulla stefnu varðandi samfélagslega ábyrgð og 44% starfsmanna nýta sér samgöngustyrk. Losun koltvísýrings í andrúmsloftið sem rekja má til breyttra ferðavenja starfsfólks hefur minnkað úr 140 tonnum í 108 tonn. 

Dómnefndin byggði val sitt á árangri og aðgerðum sem m.a. draga úr umferð bíla og einfalda starfsfólki að nýta sér virka ferðamáta -  hjóla og ganga.

Í dómnefndinni sátu:

  • Kristín Soffía Jónsdóttir, fulltrúi í umhverfis- og skipulagsráði;
  • Einar Bergmundur, stjórnarmaður Landverndar;
  • Héðinn Svarfdal Björnsson, Embætti landlæknis;
  • Sigríður Inga Viggósdóttir, ÍSÍ;
  • Hrönn Hrafnsdóttir, verkefnisstjóri grænna skrefa í starfsemi Reykjavíkurborgar.