Hópur nemenda í níunda og tíunda bekk í Klébergsskóla á Kjalarnesi heimsótti Ráðhúsið í dag. Um er að ræða fyrsta hópinn í tilraunaverkefni sem standa mun yfir í vetur.
Reykvískum grunnskólanemendum í níunda bekk stendur til boða að koma ásamt kennurum sínum í heimsókn í Ráðhúsið, þar sem þeir fá fræðslu um borgarstjórn bæði fyrr og nú, fara í skoðunarferð um húsið, fá léttan hádegisverð og hitta borgarfulltrúa sem þeir geta spurt spjörunum úr. Hugmyndin er að kennarar undirbúi nemendur fyrir heimsóknina þannig að hún nýtist sem best, til dæmis með því að undirbúa spurningar eða ákveða málefni sem áhugi er á að ræða við borgarfulltrúa. Verkefnið samræmist lýðræðisstefnu Reykjavíkur og eftir veturinn verður metið hvernig til tókst og framhaldið skoðað.
Ætli þarna séu borgarfulltrúar framtíðarinnar?
Ýtt undir þekkingu og áhuga á lýðræðinu
Fyrsti hópurinn kom í Ráðhúsið í dag og átti góða stund með borgarfulltrúum og borgarstjóra auk þess sem húsið var skoðað og málin rædd. Meginmarkmið menntastefnu Reykjavíkurborgar er að börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs. Vonin er að heimsóknirnar auki þekkingu nemenda á lýðræði og kveiki hjá þeim áhuga á virkri þátttöku í samfélaginu.
Enn eru laus pláss og geta áhugasöm kynnt sér verkefnið nánar og skráð hópa í skólaheimsóknir í Ráðhúsið.