Skólaheimsóknir í Ráðhúsið

Ákveðið hefur verið, í samræmi við lýðræðisstefnu Reykjavíkur, að bjóða nemendum í 9. bekk grunnskóla Reykjavíkur upp á skólaheimsóknir í Ráðhúsið skólaveturinn 2024-2025.  Verkefnið verður tilraunaverkefni næsta vetur en að því loknu verður metið hvernig til tókst og framhaldið skoðað. 

Nemendum verður boðið að koma ásamt kennurum sínum í heimsókn í Ráðhúsið þar sem þau fá fræðslu um borgarstjórn bæði fyrr og nú, fara í skoðunarferð um húsið, fá léttan hádegisverð og hitta borgarfulltrúa sem þau geta spurt spjörunum úr.  Hugmyndin er að kennarar undirbúi nemendur fyrir heimsóknina þannig að hún nýtist sem best, til dæmis með því að undirbúa spurningar eða ákveða málefni sem áhugi er á að ræða við borgarfulltrúa.

 

Fyrirkomulag

Tekið verður á móti 25 nemendum í hvert sinn í samtals 16 skipti og verða heimsóknirnar á fimmtudögum. Við óskum eftir góðu samstarfi við kennara um nýtingu á þeim sætum sem standa til boða hverju sinni.  Gert ráð fyrir að fjöldi nemenda í hópum séu sem næst 25.  Ef um færri en 20 nemendur er að ræða munum við reyna að sameina hópa.  Í slíkum tilfellum má senda tölvupóst til lydraedi@reykjavik.is

Skráning

Gert er ráð fyrir að það verði á ábyrgð hvers hóps að koma sér í Ráðhúsið og að þeir verði mættir þangað fyrir kl. 10.  Nemendur munu hafa aðstöðu í borgarstjórnarsalnum á meðan á heimsókn stendur en gert er ráð fyrir að henni ljúki um kl. 13.30.

Áður en að heimsókninni kemur verður haft samband við kennara/umsjónaraðila hópsins til að ræða nánara fyrirkomulag.