Allt tiltækt lið að störfum í snjónum

Samgöngur

Teikning af snjóruðningsbíl að störfum.

Veturinn kom með látum í Reykjavík með ofankomu og skafrenningi. Allt tiltækt lið Vetrarþjónustu Reykjavíkur er að störfum við að gera greiðfært á götum borgarinnar. Stofn- og tengibrautir eiga allar að vera færar eins og staðan er en húsagötur og safngötur þeirra eru margar ófærar í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal. Breiðholtið virðist hafa sloppið betur í þetta sinn.

Næsta sólarhring er spáð norðaustan vindhraða upp á 5-13 metra á sekúndu, en 10-18 m/s og skýjað með köflum á morgun. Frost verður 1 til 8 stig. Það verður áframhaldandi viðbúnaður næstu daga.

Góður viðbúnaður á föstudag

Vetrarþjónustan hófst handa á föstudagskvöld og aðfararnótt laugardags var vinna hafin strax með öllu tiltækum tækjum bæði á götum og stígum til að halda borginni opinni með áherslu á stofnbrautir og strætóleiðir.

Verkefnið gekk þokkalega nema í efri byggðum þegar leið á kvöldið, þar sem fær var verulega erfið og vanbúnir bílar sátu fastir og komu í veg fyrir að ruðningstækin gætu unnið sín verk. Skafrenningur tafði fyrir, sérstaklega í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal.

Vandræði sköpuðust við Víkurveg seint í gærkvöldi sem var leyst með því úr með því að kalla út aukatæki í samráði við lögregluna. Sömu sögu má segja af Skyggnisbraut í Úlfarsárdal í morgun (18.12.22) en nú eiga þessar götur að vera færar.

Húsagötur næstar á dagskrá

Veðurspáin gerir ráð fyrir hvassri NA átt í kvöld. Það þýðir að vestast í vesturbænum gæti skafið nokkuð og færð spillst í kvöld og í nótt. Ráðstafanir verða gerðar til að koma til móts við þá stöðu.

Vetrarþjónustan hefur störf í húsagötum um leið og stofnvegakerfið er klárt. Allir eru að vilja gerðir að klára þetta sem fyrst, sérstaklega vegna þess að spáð er töluverðu frosti á næstu dögum.

Það tekur nokkra daga að leysa úr þessu verkefni, því ryðja þarf um 1200 km af götum og um 800 km af stígum (þar af eru um 500 km í forgangi. Til að gefa vísbendingar um umfang þessa verkefnis má nefna er hringvegurinn um 1200 km.

Sjá fyrri fréttir um helgina

Ekki fara af stað á vanbúnum bifreiðum

Vetrarþjónustan er á vaktinni